Grein

Tryggvi Helgason.
Tryggvi Helgason.

Tryggvi Helgason | 24.05.2005 | 17:21Frelsi til fiskveiða

Í fyrrasumar heimsótti ég Vestfirðina og kom við á flestum staðanna þar. Veður var mjög gott, hægviðri og bjart alla dagana. Það vakti athygli mína hversu lítið ég sá til ferða fiskibáta, þótt sumsstaðar, þar sem vegurinn lá í fjallahlíðum, mætti sjá langt til hafs. Á einum suðurfjarðanna ókum við að höfninni. Þar var fjöldi báta bundinn við bryggju, sumir litu út sem nýir, greinilega dýr og vönduð tæki, og allir virtust í góðri hirðu. En það var varla nokkurn mann að sjá á ferli við höfnina.

Við hittum þó mann í grendinni sem sagðist vera heimamaður, og við spurðum hverju það sætti að allir bátar væru bundnir við bryggju og hvergi hreyfingu að sjá. Hans svar var á þá leið að þeir væru sennilega allir búnir að veiða það sem þeim væri leyfilegt, og sumir hefðu lokið við sinn skammt á aðeins einni viku.Mér datt svona í hug hvernig búðareigendum í Reykjavík finndist að sér búið ef sett væru lög sem bönnuðu þeim að hafa verslunina opna nema í eina eða tvær vikur á ári hverju. Og svo mættu þeir ekki selja nema visst mikið af fáeinum vörutegundum, annars yrðu þeir dæmdir í fjársektir.Ég hugsa að þeir myndu eiga erfitt með að sjá sínum fjölskyldum farborða, ef þeir sættu slíkum afarkostum.

Mitt álit er það,að ef ætlunin er að koma fiskveiðimálum Íslendinga í skynsamlegt horf, og efla byggðirnar og fiskibæina í kringum landið, þá verður að leggja niður og afnema núverandi kerfi, hið svokallaða kvótakerfi. Þess í stað verði settar ákveðnar reglur um veiðifrelsi. Í samræmi við það þarf að afmarka tiltekið strandsvæði allt í kringum landið og ákvarða stærð þessa svæðis.

Útlínur þessa svæðis, - hvort sem kallað verði smábátasvæði eða annað, - má afmarka eða setja út að, (það er samhliða) ákveðnum dýptarlínum, ellegar að mælt verði ákveðna vegalengd út frá annnesjum og dregin lína þar á milli sem svo marki útlínu svæðisins. Ef til vill má nota báðar þessar mælingareglur, hvora tveggja sem við á, sökum breytileika hafsbotnins út af hverjum flóa og firði. Þar að auki má afmarka sérstök svæði, sem talin eru viðkvæm, svo sem ákeðin hrygningarsvæði, og loka þeim svæðum fyrir öllum veiðum allt árið um kring.

Á þessu ákveðna landgrunns- eða smábátasvæði, öllum fjörðum og flóum allt í kringum landið, verði öllum Íslendingum frjálst að veiða að vild, á færi og línu, á öllum tímum ársins. Togveiðar verði aftur á móti frjálsar öllum Íslendingum utan þessa landgrunns- eða smábátasvæðis, en ekki innan þess. Þar að auki þarf að sjálfsögðu að setja sérstakar reglur um neta- og nótaveiðar, svo og skelfiskveiðar. Þá er það mín skoðun að það sé afar mikil nauðsyn að leyfa hval- og selveiðar, án frekari tafa.

Tryggvi Helgason, Akureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi