Grein

Harpa Grímsdóttir og Oddur Pétursson.
Harpa Grímsdóttir og Oddur Pétursson.
Hættumatslínur í Holtahverfi, samkvæmt hættumati sem staðfest var árið 2003.
Hættumatslínur í Holtahverfi, samkvæmt hættumati sem staðfest var árið 2003.

Harpa Grímsdóttir - Oddur Pétursson | 20.05.2005 | 17:22Viðhorf til snjóflóðahættu og hættumatið í Holtahverfi

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í snjóflóðamálum á Íslandi frá árinu 1995. Upplýsingum um fallin snjóflóð hefur verið safnað saman á kerfisbundinn hátt, nýjar aðferðir hafa verið þróaðar til að meta snjóflóðahættu í byggð og öflugu eftirliti hefur verið komið á í þéttbýlisstöðum sem búa við snjóflóðahættu. Í þessari grein er fjallað um hugmyndir og viðhorf til snjóflóðahættu sem voru algeng í samfélaginu okkar fyrir árið 1995. Tekið skal fram í upphafi að tilgangurinn með þessari grein er ekki að ásaka nokkurn mann, heldur að fjalla almennt um viðhorf í samfélaginu í heild. Við sem bjuggum í „snjóflóðabæjum“ fyrir árið 1995 könnumst sennilega flest við einhver þessara atriða hjá sjálfum okkur.

Þekking staðkunnugra ekki nýtt sem skildi

Á síðustu öld voru heilu íbúðahverfin reist á svæðum þar sem heimildir eða sagnir voru til um að snjóflóð höfðu náð yfir. Varnaðarorð eldra fólks sem hafði mikla þekkingu á aðstæðum voru í sumum tilfellum virt að vettugi og menn beðnir um að vera ekki að hræða fólk að óþörfu. Á Flateyri var byggt á slíku svæði og einnig í Hnífsdal og miklu víðar. Í mörgum tilfellum heyrðust raddir sem fullyrtu að ekkert snjóflóð hefði fallið á viðkomandi svæði eða að snjóflóðin hefðu verið það ómerkileg að nær væri að kalla þau spýjur.

Í Holtahverfi eru til heimildir um tvö flóð sem náðu inn í mitt hverfið. Viðkomandi heimildarmenn bjuggu í nágrenninnu og staðhæfðu tilvist þessara flóða. Þeir eru báðir látnir.

Fallin snjóflóð, sem engu tjóni ollu, ekki litin alvarlegum augum

Fallin snjóflóð, sem ekki valda tjóni, geta litið mjög sakleysislega út. Oft er sjálfur flóðasnjórinn aðeins um 30-50 cm þykkur og því er erfitt er að ímynda sér kraftinn í slíkum flóðum á meðan þau eru á hreyfingu. Snjóflóð sem falla í átt að húsum, og stöðvast jafnvel skammt frá þeim, sýna að snjór getur farið af stað í hlíðinni fyrir ofan og þau eru vísbending um að við verri aðstæður gætu flóð náð viðkomandi húsum. Þetta er eins konar viðvörun náttúrunnar, sem við þurfum að kunna að lesa. Eins og margir muna féllu snjóflóð niður að húsum í Súðavík árið 1983.

Úr Kubba hefur fallið snjóflóð sem olli skemmdum á bíl og húsi. Ef snjóað hefði 20-40 cm meira áður en flekinn losnaði, hefði flóðið að öllum líkindum náð lengra inn í hverfið. Úr Bröttuhlíð ofan Holtahverfis hafa nokkur lítil snjóflóð verið skráð sem náðu niður í brekkurætur og upptök þeirra eru vel þekkt.

Hættan einungis talin vera bundin við staði þar sem vitað er að snjóflóð hafa fallið

Kannski er manninum eðlislægt að vilja sannanir til að trúa. Dæmi eru um að dregin hafi verið hættulína nákvæmlega eftir útlínu þekkts snjóflóðs úr stórum farvegi. Alveg við útlínur hins þekkta snjóflóðs var leyfilegt að byggja.

Sums staðar er ekki mikil snjóflóðasaga, einfaldlega vegna þess að engin hús stóðu undir viðkomandi fjalli og því voru flóð úr því ekki skráð. Þetta var tilfellið með Súðavík – snjóflóðasagan var ekki vel þekkt. Víðast hvar nær snjóflóðasagan stutt aftur í tímann eða minna en 100 ár. Þarna geta fræðin hjálpað. Með ákveðnum aðferðum er hægt að bera brekkur, þar sem snjóflóðasaga er ekki þekkt, saman við brekkur með þekktri snjóflóða¬sögu.

Talið er í lagi að reisa hús á stað þar sem aðeins fellur eitt snjóflóð að meðaltali á 100 árum

Ef einstaklingur býr með fjölskyldu sína í 30 ár í húsi sem snjóflóð nær til að meðaltali á 100 ára fresti, eru 30% líkur á að snjóflóð falli á húsið á meðan viðkomandi býr þar. Þá eru orðnar töluverðar líkur á því að einhverjir fjölskyldumeðlima endi ævi sína í snjóflóði, og árlegar dánarlíkur af völdum snjóflóða eru mun hærri en dánarlíkur af flestum öðrum orsökum s.s. krabbameini, æðasjúkdómum eða slysförum (hjá ungu fólki). Gera má ráð fyrir að í raun vilji fæstir hafa snjóflóðahættu í heimahúsi stærsta, eða einn af stóru áhættuþáttunum í lífi sínu og sinna.

Fyrir miðja síðustu öld var áhætta fólks af ýmsum orsökum mun hærri en nú. Sem dæmi má nefna að margir fórust í sjóslysum, algengt var að fólk varð úti í vondum veðrum og ekki var til lækning við ýmsum sjúkdómum sem nú er hægt að lækna. Þess vegna bætti snjóflóðahætta í mörgum tilvikum ekki svo miklu við hina daglegu hættu hjá fólki, jafnvel þótt menn byggju á stöðum þar sem liðu að meðaltali aðeins hundrað ár eða nokkur hundruð ár á milli snjóflóða. Í dag er ásættanleg áhætta miklu lægri og við krefjumst meira öryggis. Þess vegna verðum við að finna leiðir til að meta hversu langt aftakaflóð, sem falla við verstu aðstæður, geta farið. Til þess verðum við að nota fræðilega þekkingu, sem hefur orðið til víða um heim, í bland við þekkingu staðkunnugra og huglægt mat sérfræðinga.

Við þetta má bæta að snjóflóð er sú náttúruvá, að sjóslysum frátöldum, sem kostað hefur flest mannslíf á Íslandi.

Eftirlit og rýmingar talin fullnægjandi lausn í þéttbýli

Menn ímynda sér stundum að til sé óskeikul aðferð við snjóflóðaeftirlit. Í raun hefur ekki tekist að þróa tölvuspálíkan í heiminum sem nær jafngóðum árangri að spá fyrir um snjóflóð og staðkunnugur snjóathugunarmaður með mikla reynslu. Slíkir menn geta aldrei orðið óskeikulir vegna þess að það eru svo margir samverkandi þættir sem skapa snjóflóðahættu og erfitt er að fylgjast með mörgum þeirra á meðan veður er slæmt. Eftirlit og rýmingar eru almennt ekki talin fullnægjandi lausn fyrir þéttbýli þar sem snjóflóðahætta er veruleg.
Um forsendur hættumats

Árið 2003 var staðfest hættumat fyrir Ísafjörð og Hnífsdal. Þar voru afmörkuð hættusvæði C, B og A í hluta Holtahverfis. Við þessu er verið að bregðast með tillögum um varnir í Kubba. Nú hafa heyrst raddir í fjölmiðlum sem véfengja heimildir um flóð sem féllu áður en Holtahverfi var reist. Menn hafa komið fram með ýmsar breytingar¬tillögur við fyrirhugaðar varnir. Sumir virðast jafnvel telja að lítil eða engin snjóflóða¬hætta sé til staðar í Holtahverfi. Það er í sjálfu sér jákvætt að fólk skuli hafa skoðanir á málunum og vera tilbúið að ræða þær.

Fyrir árið 1995 hefði samfélagið hugsanlega ályktað sem svo að fyrst til eru staðkunnugir heimamenn sem efast um tilvist þessara flóða, og þar sem þeir sem voru til frásagnar um þau eru nú látnir, sé alveg óhætt að afgreiða þessar sagnir um snjóflóð sem hverja aðra vitleysu, enda er það þægilegra en að horfast í augu við þær. Kannski hefðu menn hugsað sem svo að snjóflóðið árið 1984 hafi bara verið spýja sem engin raunveruleg hætta stafaði af, og snjóflóð gætu ekki farið lengra en það fór, því engar óyggjandi heimildir séu til um slíkt. Þess vegna sé nóg að setja lágan garð ofan við Kjarrholtið, og ekki þurfum við að verja fjölbýlishúsin því engin snjóflóð hafa fallið á þau í öll þau 25 ár sem húsin hafa staðið. Ef þeim íbúum Holtahverfis sem láta heyra í sér finnst hættan ekki vera teljandi, er þá ekki bara allt í lagi? Það hefur komið fram krafa um að við „sérfræðingarnir“ biðjumst afsökunar, hættum við allt saman, og verðum menn að meiri fyrir vikið. Kannski við ættum að gera það…..

En hljómar þetta ekki eins og atburðarás sem við höfum gengið í gegnum áður, með slæmum afleiðingum? Okkur ber skylda til að læra af þeim hörmulegu slysum sem urðu árið 1995. Þess vegna er hættumatið fyrir Holtahverfi byggt m.a. á eftirfarandi forsendum:

Til eru sagnir um snjóflóð inn í mitt Holtahverfi, sem komu frá heimamönnum. Slíkar sagnir ber að taka alvarlega og þær mega ekki gleymast jafnvel þótt heimildarmennirnir séu látnir. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að allir sem bjuggu í nágrenninu hafi orðið varir við flóðin eða muni eftir þeim. Tillit er tekið til þess að tunga eldra flóðsins átti að hafa verið þunn, og nákvæm staðsetning er ekki þekkt. Við vitum að flóð sem brýtur staura inni í miðju hverfi gæti eyðilagt hús á leiðinni, jafnvel þótt girðingarstaurarnir hafi verið lélegir. Við vitum líka að engin hús stóðu á áhrifasvæði hugsanlegra snjóflóða úr Kubba, og flóð gætu því hafa fallið án þess að þau væru skráð.

Við höfum séð að spýjur geta átt upptök í Bröttuhlíð, sem bendir til þess að stærri flóð geti líka farið af stað þar, ef óheppilegar snjósöfnunaraðstæður eru fyrir hendi.

Snjódýpt hefur verið mæld í Bröttuhlíð í 9 ár og hefur snjódýpt stundum mælst vel yfir einn og hálfan metra, t.d. nú í vetur þegar hún mældist mest 1,74 m. Við vitum því að meira en 1,5 m þykkur fleki getur farið af stað, ef aðstæður eru þannig, og slíkt snjóflóð myndi að öllum líkindum ná niður í hverfið. Í vetur náði snjórinn að bindast jafnóðum, en snjóathugunarmenn og snjóflóða¬vakt Veðurstofunnar fylgdust mjög grannt með þessu svæði, enda er það eitt af fáum þéttbýlissvæðum sem eftir eru í Ísafjarðarbæ þar sem mörg íbúðarhús eru á C-svæði samkvæmt hættumati.

Við nýtum þær aðferðir sem þróaðar hafa verið á Íslandi eftir 1995, og fleiri aðferðir sem þróaðar hafa verið víða um heim, til að hjálpa okkur að meta hversu langt flóð úr Kubba geta náð við verstu aðstæður. Augljóst er að úr Kubba geta ekki fallið flóð á stærð við stóru flóðin úr Skollahvilft á Flateyri, eða öðrum stórum giljum og upptakasvæðum í nágrenninu, en byggðin stendur það nálægt Kubba, að ekki þarf stór flóð til að ógna henni.

Stundum heyrist sú ásökun að þeir sem standi að gerð hættumats vilji hafa allt svo öruggt að hættusvæðin nái út fyrir öll velsæmismörk. Sú er ekki raunin. Viðmiðið sem notað er hér á landi er að ekki sé viðunandi að snjóflóðahætta í byggð bæti meiru en 10 % við árlegar dánarlíkur barna af öllum öðrum orsökum. Þetta viðmið er pólitísk ákvörðum sem tekin var af stjórnvöldum eftir slysin árið 1995. Það er nokkuð strangt, en við höldum að flest okkar vilji hafa það þannig.

Þeir sem vinna að hættumati gera sitt besta til að meta hættuna samkvæmt þeim viðmiðum sem gefin eru, miðað við þá þekkingu sem tiltæk er.

Verkfræðistofur hanna varnarvirki eftir forsendum sem valdar hafa verið með samráði við ýmsa sérfræðinga, meðal annars á Veðurstofunni. Allmörg flóð hafa fallið á varnargarða á Íslandi á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan þeir voru byggðir, og bendir sú reynsla ekki til að þeir hafi verið hannaðir of stórir. Sem dæmi má nefna að flóðið sem féll á varnargarðinn á Flateyri árið 1999 fór 2/3 leiðarinnar að toppnum á garðinum, en það var ekki aftaka¬flóð. Við sjáum enga ástæðu til annars en að treysta verkfræðistofunni VST fyrir matinu á því hversu stór garðurinn á að vera, eða hvers konar varnir eru heppilegastar í Kubba. Á hinn bóginn er sjálfsagt að íbúar setji þær kröfur að umhverfis¬rask vegna framkvæmdanna verði í lágmarki.

Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði.
Oddur Pétursson, snjóathugunarmaður Veðurstofu Íslands í Ísafjarðarbæ.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi