Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi Hjálmarsson | 17.05.2005 | 17:00Um virðingu fyrir náttúrunni

Erum við svona fátæk? Höfum við ekki efni á að rústa ekki heilu fjalli? Erum við svona heimsk? Höldum við að ekkert skipti máli nema yfirburðir okkar gegn sjálfu sköpunarverkinu? Þarf fátæktin í félagi við heimskuna alltaf að ráða því að við gerum það sem er auðveldast og fljótlegast en ekki það sem er sæmandi bæði sköpunarverkinu og okkur sjálfum sem erum hluti þess eitt andartak í eilífðinni? Ástæðan fyrir hrapallegum umhverfismistökum og tillitslausum arkitektúr á Ísafirði á liðnum árum gæti verið sú, að fólkið hefur alist upp í gríðarlega magnaðri og mikilfenglegri náttúru. Að sjálfsögðu vill stjórnsýslan vel, bæði fólkinu og náttúrunni. En þegar náttúran er svona stórfengleg geta menn blindast af henni og skynja þá ekki hvað rímar við hana.

Komin er út skýrsla sem sögð er innihalda mat á umhverfisáhrifum snjóflóðavarnarmannvirkja í sérkennilegu og tignarlegu fjalli sem heitir Kubbi og stendur eflaust fyrir tilviljun í Skutulsfirði. Svo virðist að skýrslan sé skrifuð í því leiðarljósi að enginn geti skilið hana og þess vegna muni enginn voga sér að gera athugasemdir við hana. Fyrirhugað eyðileggingaruppátæki sem skýrslan fjallar um er þetta: Verja skal nokkur hús næstu þúsund árin eða svo fyrir snjóspýjum sem afar ólíklegt er að valdi teljandi tjóni. Þeir sem fyrir þessu standa ættu að hugsa sig um áður en þeir krefjast refsingar yfir unglingum sem henda pylsubréfi út um bílglugga. Athæfi af því tagi telja þeir vera hið eina og sanna umhverfissvínarí.

Meðal þungvægra raka fyrir því að hinn mikli garður var gerður í Seljalandsmúla andspænis Kubbanum fyrir nokkrum árum voru þau, að undir honum skapaðist stórt og öruggt byggingarsvæði í hlíðinni mót suðri. Þar eru á teikningum reitir fyrir íbúðabyggð. Á þessu örugga en dýrkeypta byggingarsvæði undir Miklagarði mætti reisa hús handa þeim sem snjóflóðahættast eru komnir í Holtahverfi undir Kubbanum. Kostnaðurinn yrði aðeins brot af beinum fjárútlátum vegna fyrirhugaðra skemmdarverka. Þá er kostnaður sköpunarverksins ekki tekinn í reikninginn enda verður hann ekki metinn til peninga. Þau hús undir Kubba sem í staðinn yrðu keypt upp mætti nota fyrir þá sem vilja verja sumarfríinu sínu á snjóflóðahættusvæði. Sem er að vísu hættusvæði samkvæmt ákvörðun yfirvalda en ekki sjálfrar náttúrunnar.

Við eigum ekki fjöllin. Við eigum ekki það sköpunarverk sem fjallið er. Við erum með fjallið að láni þann stutta tíma sem við erum hér. Að láni til að njóta þess og skila því áfram en ekki til að eyðileggja það. Fólk er alltaf á hreyfingu, stöðugt á ferð og flugi. Alltaf í einhverri hættu. Alltaf að verja sig gegn óhöppum og forða sér undan óhöppum. Samt alltaf að lenda í óhöppum, oftast manngerðum óhöppum.

Fjallið getur ekki forðað sér. Stendur þarna og getur ekki annað. Varnarlaust fyrir einu hættunni sem að því steðjar, hinum vitiborna manni. Fjallið sem kom hér langt á undan manninum og verður hér enn þegar maðurinn er horfinn af sjónarsviði sköpunarverksins.

– Pétur Tryggvi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi