Grein

Karvel Pálmason.
Karvel Pálmason.

Karvel Pálmason | 01.04.2005 | 15:42Karlinn í brúnni – fiskar vel

Ánægjulegt er hversu vel hefur gengið að sameina jafnaðarmenn í einn flokk. Þetta hefði ekki tekist nema vegna þess að góðir menn lögðust margir á árar undir góðri leiðsögn. Undir forystu Össurar Skarphéðinssonar hefur tekist að yfirvinna gamlar deilur og flokkadrætti þannig að íslenskir jafnaðarmenn eru nú allir á sömu skútunni, innanborðs í Samfylkingunni. Þetta hefur yljað okkur gömlum jafnaðarmönnum og við viljum áfram sigla þöndum seglum. Við réðum í upphafi ferðar til þess skipstjóra, Össur Skarphéðinsson, sem síðan hefur staðið í brúnni og stýrt skútunni í gegnum brim og boða. Hann hefur reynst farsæll formaður, svo fylgi jafnaðarmanna á Íslandi er nú meira en nokkru sinni í sögunni.

Nú hafa þau tíðindi borist yfir fjöll og sand að margir vilji kjósa annan formann. Þetta minnir á þá óeiningu sem var í gömlu flokkunum, flokkadrættina sem ég hélt að við hefðum sagt skilið við með stofnun Samfylkingarinnar. Því hlýt ég að harma að hinn nýi og stóri flokkur jafnaðarmanna skuli ætla að taka þennan gamla arf frá litlu flokkunum, arfleið flokkadrátta, sundrungardrauginn sem ég hélt að við ætluðum að skilja eftir á 20. öldinni.

Að mínu mati hefur Össur staðið sig vel sem formaður, og því lítt skiljanlegt hvers vegna efnt skuli til framboðs gegn honum. Sú var tíð að menn lögðu mælikvarða á hvenær ætti að skipta um karlinn í brúnni. Ef illa fiskaðist misserum saman þótti réttlætanlegt að karlinn í brúnni tæki pokann sinn. Því er nú aldeilis ekki að heilsa, það fiskast vel og Samfylkingin er á góðum skriði.

Jafnaðarmanna á Íslandi bíða mörg verkefni. Ég treysti Össuri til að leiða Samfylkinguna áfram til góðra verka.

Karvel Pálmason fyrrv. alþingismaður jafnaðarmanna.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi