Grein

Anna Kristín Gunnarsdóttir.
Anna Kristín Gunnarsdóttir.

Anna Kristín Gunnarsdóttir | 11.03.2005 | 10:15Stofnfundur Háskólaseturs

Í gær þann 10. mars, barst mér og fleiri þingmönnum Norðvesturkjördæmis, ósk frá bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um að við heiðruðum stofnfund Háskólaseturs á Vestfjörðum, sem halda á laugardaginn 12. mars á Ísafirði, með nærveru okkar. Hugsanlega er hér um að ræða mikilvægan áfanga, eins og það er kallað í skeyti bæjarstjóra, en öruggt er að margir Vestfirðingar verða fyrir miklum vonbrigðum með þá meðferð sem eindregnar óskir þeirra um háskóla á Vestfjörðum fá af hálfu ríkisstjórnarflokkanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ég sé ekki betur en verið sé að búa til nýjan hatt á Fræðslumiðstöð Vestfjarða og sennilega að lokka heimamenn til að leggja fram fjármagn í reksturinn.

Unga fólkið sem á táknrænan hátt lét í ljós drauma sína á Silfurtorgi sl. sumar hefur nú fengið skell á puttana. Vestfirðingar allir upplifa enn einn ganginn að ekki er hlustað á þá, að þarfir þeirra eru ekki virtar. En við hverju var að búast af þessari ríkisstjórn? Hvað hafa Vestfirðingar upplifað undanfarin ár annað en stöðugan samdrátt í opinberum störfum - hvað sem öllu tali um eflingu kjarnasvæða líður.

Ef fyrirvari hefði verið meiri hefði ég sennilega komið vestur til að vera viðstödd þann atburð sem mér var boðið til í gær en dags fyrirvari er of stuttur fyrir fólk sem skipuleggur daga sína með löngum fyrirvara. En ég er þó ekki viss um að ég hefði komið vestur því tilfinningar mínar til þessa máls eru mjög blendnar. Mér finnst í raun að en sé verið að svíkja Vestfirðinga og langar ekki til að verða vitni að því.

Ég óska Vestifrðingum alls hins besta og styð þá eindregið í áframhaldandi baráttu fyrir Háskóla Vestfjarða.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar í NV kjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi