Grein

Ólafur Sveinn Jóhannesson.
Ólafur Sveinn Jóhannesson.

Ólafur Sveinn Jóhannesson | 02.02.2005 | 13:36Samgöngur á landsbyggðinni er mál okkar allra

Eins og flestir Íslendingar hafa fengið að heyra í gegnum árin þá er eitthvað mjög sérstakt við það að vera Vestfirðingur. Þetta er fólk sem hefur mátt þola margs konar áföll á liðnum öldum, oftast áföll af völdum náttúruhamfara, s.s. hræðileg sjóslys þar sem heilu fjölskyldurnar hafa þurkast út og banvæn snjóflóð sem með öllu sínu afli rústa hverju sem í vegi þeirra verður og skilja eftir sig djúp sár.

Þrátt fyrir þetta heldur fólkið áfram búsetu sinni á Vestfjörðum í návist hárra fjalla og ólgu hafsins. Flestir íbúar þar bíða ekki eftir útgáfu nýjustu myndbands spólanna, þeir fara ekki í Smáralindina og Kringluna með fjölskyldunni til að eyða deginum, annars konar menning þrífst í þessum litlu fiskiþorpum. Á Tálknafirði til að mynda njóta íbúar þeirra forréttinda að eiga fallega og stóra sundlaug með heitum pottum og stórt íþróttahús. Þetta íþróttahús er uppbókað alla vikuna af hópi fólks sem stundar þar ýmist, blak, fótbolta, körfubolta eða erobik og kemur fólkið svo saman í heitu pottunum eftir æfingar þar sem hin ýmsu þjóðfélagsmál eru rædd. Yfir sumartímann er líf og fjör á öllum Vestfjörðum svokallaðir farandsjómenn setjast að með sína smábáta og skaka á gjöfulum fiskimiðum, skólafólkið kemur heim og leitar vinnu til að safna fyrir næsta skólaári. Ekki má svo gleyma öllum ferðamönnunum sem sækja Vestfirðina heim á hverju sumri.

Þessi landshluti er kannski ekki ýkja stór að sjá á landakortinu en hvergi á landinu ertu jafn lengi að ferðast á milli þéttbýlisstaða en þar. Tökum sem dæmi, 150 km á Suðurlandi eru eknir á um 1,5 klst. en á Vestfjörðum eru þessir 150 km eknir á um 2,5 klst. Vissulega hafa vegir batnað til muna í þessum fjórðungi en þeir hafa hinsvegar verið bættir í undarlegri forgangsröðun. Ef litið er á Íslandskort Landmælinga Íslands má sjá að það er mun auðveldara fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum að komast akandi til Snæfellsnes heldur en nokkurn tímann til Ísafjarðar, sama gildir um íbúa á ströndum, þeir eiga auðveldara með að aka í Borgarnes heldur en nokkurn tímann til Ísafjarðar.

Stefnan í vegagerð á Vestfjörðum virðist hafa tekið þann pól í hæðina að gera íbúum þar það kleift að komast á sem skemmstum tíma til höfuðborgarsvæðisins en ekki til hvors annars. Þetta gerir það að verkum að fjórðungurinn skiptir sér á endanum í þrjá landshluta sem ómeðvitað eiga lítil sem engin samskipti sín á milli. Þjónusta sem íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum og á Ströndum sækja, verður ekki til Ísafjarðar, hún verður og er yfirleitt sótt til höfuðborgarsvæðisins eða Vesturlands.

Þetta kemur bersýnilega í ljós yfir vetrartímann þegar Vestfirðir skiptast einfaldlega í tvo til þrjá hluta og stundum fjóra ef veður er slæmt marga daga í senn. Sem dæmi er leiðin sem íbúar í Vesturbyggð og á Tálknafirði verða að aka til að komast til Ísafjarðar ekki nema um 150 km yfir sumartímann. En yfir vetrartímann verður þessi leið um 630 km, ótrúlegt en engu að síður satt. Aka verður alla leið til Búðardals á Vesturlandi, næst til Hólmavíkur og að lokum þaðan til Ísafjarðar í gegnum Ísafjarðardjúp. Á meðan sumarvegurinn svokallaði, sem liggur norður yfir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, er lokaður.

En hvers vegna eru Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðin ekki bara mokaðar á veturna. Jú, því samkvæmt vegateljurum Vegagerðarinnar er umferð um þessar heiðar ekki nægilega mikil og afhverju ætli það sé, líklegast af því að jafnvel á sumrin myndu aðrir Íslendingar kalla þessar heiðar troðninga eða í besta falli hálendisvegi. Ýmsar teikningar hafa verið gerðar í gegnum tíðina af vegum á Vestfjörðum. Margar góðar tillögur og hugmyndir, t.d. hugmynd Magnúsar Ólafssonar í Vesturbotni um göng frá botni Dýrafjarðar inn í botn Borgarfjarðar í Arnarfirði. Út frá þeim gætu svo verið boruð göng til Vatnsfjarðar við Flókalund. Með þeim göngum og öðrum úrbætum á vegum í Barðastrandasýslu væru Vestfirðingar allir komnir með öflugan þjóðveg og sameiginlega tengingu við hringveginn.

Verði ekki gerð breyting á samgöngukerfi Vestfjarða mun fjórðungurinn aldrei ná sömu samkeppnisstöðu og aðrir landshlutar. Stefna vegagerðarinnar í dag er beinlínis aðför að framtíðaruppbyggin og byggð á Vestfjörðum. Það er ekki eðlilegt að nemendur Menntaskólans á Ísafirði, búsettir á sunnanverðum Vestfjörðum, þurfi að aka um 630 km heim til sín. Þannig er staðan í dag, staða sem engin Íslendingur annars staðar á landinu myndi láta bjóða sér, en eins og kom fram í upphafi þá eru Vestfirðingar meira en lítið sérstakir.

Ólafur Sveinn Jóhannesson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi