Grein

Halla Signý Kristjánsdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir.

Halla Signý Kristjánsdóttir | 24.01.2005 | 16:42Beislað náttúrafl

Að beisla náttúruaflið boðar Orkubú Vestfjarða. Orkubú Vestfjarða er óskabarn Vestfirðinga. Síðustu áratugi höfum við Vestfirðingar horft stoltum augum á barnið rísa úr vöggu sinni og leitt það til fullorðinsára, en líkt og með önnur afkvæmi þá hefur það nú tekið á flug og er flogið úr hreiðrinu. Burt frá þeim sem önnuðust það og burt frá markmiðum sínum.

Það er hart að sjá stjórnendur sem í skjóli Orkubúsins ganga nú fram í því að vera fyrstir til að hækka dreifi- og flutningskostnað á rafmagni til dreifbýlis að lámarki 50%. Þetta getur þýtt töluverða hækkun á útgjöldum fyrir heimili og fyrirtæki og þetta eru útgjöld sem varla og ekki er hægt að neyta sér um. Nema að vera kynni að íbúar í Súðavík eða Dýrafirði séu heitfengari en íbúar Ísafjarðar og Flateyrar og láti sér nægja að elda annan hvern dag. Í fréttaskýringu er talað um að með þessari hækkun sé verið að jafna kostnaði til þeirra sem stofna til hans. Sem sagt að neytandinn greiði í takt við það sem það kostar að koma rafmagninu til hans. Þessi ákvörun rýrir tækifæri til að stofna fyrirtæki í dreifbýli, svo sem í ferðaþjónustu og í landbúnaði og fleirum greinum.

Mig langar til að velta einum fleti á þessum málum fram. Þegar talað er um mikinn dreifikostnað rafmagns til dreifbýlis, getur maður ekki annað en hugsað til þess hvaðan rafmagnið er komið. Ekki er það framleitt í kjarnaofnum á Silfurtorginu á Ísafirði. Nei, það kemur nefnilega úr því títtnefnda dreifbýli eða réttara sagt ofan af reginfjöllum. Hvað þarf til að koma því til þéttbýlisins? Jú, það þarf öflugt og kostnaðarsamt dreifikerfi sem liggur í gegnum dreifbýlið til þéttbýlisins.

Það finnst mér skjóta skökku við ef að hækka á dreifikostnað á rafmagni til dreifbýlinga, þar sem dreifikerfið, í mörgum tilvikum, liggur við og yfir jarðir viðkomandi til að íbúar þéttbýlisins geti notið þess. Mig langar til að nefna t.d. jörðina Kirkjuból í Bjarnardal. Alveg geri ég ráð fyrir að hækkunin sé boðuð þangað líkt og til annarra staða. Dreifikerfi Orkubús Vestfjarða liggur marg sinnis í gegnum þá jörð líkt og margar aðrar frá uppsprettu til endastöðvar. Stundum hefur manni dottið í hug að ef maður myndi líma laufblöð á allar þær rafmagnsstaurastæður á þeirri jörð myndi ekki sjá í skóginn fyrir trjám! Það mætti í þeirri merkingu snúa dæminu við. Orkubúið ætti að greiða jarðeigendum fyrir leiguafnot fyrir þær stæður sem liggja yfir jarðir dreifbýlisbúa. Þetta veldur sjónmengun og notagildi jarðanna. Má til dæmis nefna að stóran hluta jarðanna, sem dreifikerifið liggur yfir, er ekki hægt að nýta til skógræktar fyrir staurasamstæðum frá Orkubúinu. Þar sem ekki er viðurkennt að planta trjám í vissum radíus frá rafmangslögnum.

Áfram er hægt að nefna dæmi, það er hlægilegt að ábúendur Traðar í Bjarnardal þurfi að greiða 50% hærra raforkuverð til að íbúar Ísafjarðar geti haldið á sér hita á lægra verði, þegar þeir geta nærri því teigt sig í dreifikerfið út um eldhúsgluggan hjá sér. Já, rafmagnsbyltingin hefur því étið börnin sín.

Raforkufyrirtækin telja sig ekki hafa leyfi til að selja á sama verði eða niðurgreiða raforkuna til neytanda. Það væri gaman að sjá það leyfi sem þeir hafa í höndunum til að vaða yfir landareignir í einkaeign í sama vetfangi sem þeir banka upp á hjá sömu jarðeigendum og rukka þá um hærra verð vegna dreifingu rafmagns! Skildu bændur hafa leyfi til að láta af hendi hluta af jörðum sínum án þess að rukka fyrir það og voru þeir einhvern tímann spurðir leyfis?

Meðan stóriðjur fá að njóta þeirra forréttinda að fá orkuverðið á gjafverði eru dreifbýlisbúar bundnir saman á bás og gert að sæta heilaþvotti um að þeir séu þurfalingar og ómagar á þéttbýlingum landsins.

Það er staðreynd að Ísland er dreifbýlt og enginn getur mælt því á mót að það er dýrt að byggja þetta land. Á átjándu öld komu upp alvarlegar umræður og áætlanir um að flytja alla íbúa landsins á heiðar Jótlands. Það var hagfræðilega röng ákvörðun að hætta við það, við værum miklu betur komin þar og töluðum ódýrari tungumál.

En fyrst við hættum við þá ákvörðun þá ættum við að reyna að standa við hana og leifum dreifbýlisbúum að njóta beislaðs náttúrafls í stað þess að þeir þurfi að berja sér til hita.

– Halla Signý Kristjánsdóttir, dreifbýlingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi