Grein

Jón Fanndal Þórðarson | 03.01.2005 | 14:45Yfirlýsing af gefnu tilefni

Vegna ummæla minna á vefsíðu bb.is þann 28. des. 2004 hef ég verið sakaður um að vantreysta starfandi læknum við Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar eftir að öldrunarlækninum var sagt upp. Þetta er alrangt og ef þeir hafa tekið ummæli mín á þann veg sem ég hefi verið sakaður um skal ég fúslega biðja þá afsökunar. Ég ber fullt traust til þeirra allra og hefði aldrei látið mér detta í hug að vanmeta þeim eða störfum þeirra á nokkurn hátt. Ég vildi frekar þakka hvað við höfum góða lækna. Þetta vil ég að sé alveg ljóst. Þau ummæli mín sem hér um ræðir voru þessi: „Nú nýverið var öldrunarlækni, sem hér var við störf sagt upp og einnig höfum við tapað frá okkur ýmsum sérfræðingum sem hingað komu og nýttust öldruðum umfram öðrum þar sem aldraðir eru ekki mikið á ferðalögum.” Þetta taldi ég afturför og lái mér það hver sem vill.

Til nánari útskýringa vil geta þess hvað hér var um að ræða. Í fyrsta lagi var öldrunarlækni sagt upp störfum, í öðru lagi er augnlæknir hættur að koma hingað, í þriðja lagi er húðsjúkdómalæknir hættur að koma, í fjórða lagi vorum við að missa tannsmiðinn. Það hefur þau áhrif að ef við gamlingjarnir, sem öðrum fremur erum með gervitennur, missum góminn í gólfið og hann skaddast verðum við að senda hann í pósti til Reykjavíkur og vera tannlaus meðan á viðgerð stendur. Skemmtileg tilhugsun það!

Ef þetta sem ég hefi nefnt hér að framan er ekki afturför þá hefi ég aldrei skilið hvað er framför og hvað er afturför. Nú spyr ég; eru þessar áhyggjur mínar árás á starfandi lækna við sjúkrahúsið á Ísafirði. Ég segi nei og aftur nei.

Hvað varðar einkavæðingu þvottahússins og ræstinganna á sjúkrahúsinu stend ég við hvert orð sem ég hef um það sagt. Þarna er á ferðinni ein sú mesta lákúra sem ég hefi orðið vitni að lengi. Að venju er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Það virðist vera lögmál ef á að spara eða hagræða í rekstri að byrja á skúringakonum og öðru láglaunafólki. Þetta virðist allstaðar vera gert. Hversvegna að byrja neðan frá en ekki ofan frá. Það er ekkert lögmál að það þurfi ávallt að byrja á skúringakonunum ef hagræða á í rekstri og óþarfi fyrir okkur að taka þá sem það gera til fyrirmyndar.

Hvað einkavæðingu þvottahússins viðvíkur vil ég að skoðun mín á því komi skýrt í ljós ef einhver hefur ekki skilið það sem ég hefi áður um það sagt. Þessi einkavæðing á eftir að reynast dýr eins og margar aðrar einkavæðingar og er strax farin að koma í ljós samanber þvottareikninginn til aldraðra. Með því að gefa þvottavélar sjúkrahússins frá sér voru allar brýr brotnar að baki, svo ekki væri hægt að snúa til sama lands ef illa færi. Þetta aldraða fólk með litlu tekjurnar er það fólk sem nú þegar hefur orðið fyrir barðinu á hagræðingunni. Þetta fólk á annað og betra skilið. Þetta er það fólk sem hefur gert Ísland að því fyrirmyndarlandi sem það er. Þetta er það fólk sem tók við landinu þegar vart stóð steinn yfir steini en skilaði því sem því landi þar sem lífskjör eru einna best. Til þess þurfti svita og tár. Nú er þessu fólki launað með því, að þegar það er orðið sjúkt og ósjálfbjarga fær það garmana sína senda heim í plastpoka til þvotta vegna þess að í góðærinu hefur þjóðin ekki efni á að þvo af því þvottinn án endurgjalds og þarf að taka gjald fyrir af hverjum sjúklingi og gjaldið er helmingur af ráðstöfunartekjum hvers einstaklings óháð magni. Þetta er lítilsvirðing og niðurlæging gagnvart þessu fólki og það viljum við ekki sjá. Ég skora á framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunarinnar að viðurkenna mistökin, leiðrétta þau og ekki skjóta sér á bak við ráðuneytið.

Jón Fanndal


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi