Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson | 02.12.2004 | 18:59Skipting fjármuna til upplýsingamiðstöðva

Vakin var athygli á því með réttu í mjög góðri samantekt á vef Tálknafjarðar, hinn 29. nóvember sl. – og endurbirt á bb.is í dag, að engu fé hafi verið verið til upplýsingamiðstöðva ferðamála á sunnan verðum Vestfjörðum. Á því er skýring, sem eðlilegt er að fram komi. Skýringarnar eru þessar: Fyrir nokkrum árum var sú stefna mörkuð að Ferðamálaráð, styrkti tilteknar upplýsingamiðstöðvar, með fjármunum sem til þess var varið af fjárlögum. Fjármunirnir eru takmarkaðir, rekstur öflugra upplýsingamiðstöðva er kostnaðarsamur og því var ljóst að ekki var hægt né skynsamlegt, að dreifa þessu fé víða.

Stefnan sem var mörkuð var sú, að skilgreindar voru upplýsingamiðstöðvar í hverju hinna gömlu kjördæma. Það var síðan, eftir því sem ég best veit, á valdi heimamanna að ákveða staðsetninguna. Á Vestfjörðum var upplýsingamiðstöðinni valinn staður á Ísafirði. Til fróðleiks má síðan nefna að upplýsingamiðstöð ferðamála er í Borgarnesi fyrir Vesturland, á Akureyri fyrir Norðurland eystra, á Egilsstöðum fyrir Austurland, í Hvergagerði fyrir Suðurland og síðan vitaskuld í Reykjavík, þar sem hún er rekin undir merkjum svonefndrar Höfuðborgarstofu og hefur kostað kapps um að vera alhliða upplýsingamiðstöð fyrir landið allt. Þessar upplýsingamiðstöðvar hafa verið starfræktar um árabil, en á dögunum var síðan opnuð upplýsingamiðstöð á heilsársgrunni í Varmahlíð í Skagafirði fyrir Norðurland vestra, á grundvelli fjárveitingar sem tiltölulega nýverið var veitt til upplýsingamiðstöðvar þar, og í fyrra var upplýsingamiðstöð opnuð í Reykjanesbæ, fyrir hið gamla Reykjaneskjördæmi.

Til viðbótar þessu eru svo starfræktar upplýsingamiðstöðvar í Leifsstöð og á Seyðisfirði vegna komu Norrænu. Þetta eru svo kallaðar landamærastöðvar sem hafa þann tilgang að stuðla að upplýsingagjöf til ferðamanna er þeir koma til landsins.

Mikilvæg starfsemi

Enginn vafi er á því að upplýsingamiðstöðvarnar gegna veigamiklu hlutverki. Sérstaklega sjáum við vöxt í heimsóknum ferðamanna á svæðum þar sem ferðamenn þekkja síður til. Og þó að ferðamenn leiti í vaxandi mæli upplýsinga á netinu, koma þeir í miklum mæli inn á upplýsingamiðstöðvarnar.

Til viðbótar þessu er upplýsingar að sækja miklu víðar. Sveitarfélög annast upplýsingamiðlsun með upplýsingamiðstöðvum, slíkar upplýsingar má oft fá á gistihúsum og á ferðamannastöðum. Mikil ásókn hefur verið í að fá fleiri upplýsingamiðstöðvar sem hið opinbera greiðir fyrir að einhverju leyti. Það hefur hins vegar ekki verið unnt að verða við slíku, vegna þess að fjármunirnir hafa einfaldlega ekki verið nægir til þessa.

Vaxtarbroddur

Á hinn bóginn hafa samgönguyfirvöld, Ferðamálaráð og samgönguráðuneytið varið verulegu fjármagni til ýmissa annarra hluta á ferðamálasviðinu, sem dreift hafa um land allt. Má þar nefna samvinnuverkefni í markaðsmálum, jafnt erlendis og hér innanlands auk þess sem miklu fé hefur verið veitt til umhverfisverkefna, svo sem göngustígagerða, aðstöðusköpunar við ferðamannastaði, opnun nýrra ferðamannastaða ofl. Má til dæmis í því sambandi minnast myndarlegra styrkja sem veittir voru til Vestfjarða í þessu sambandi Enginn vafi er á því að þessir fjármunir eiga sinn þátt í þeirri ævintýralegu aukningu sem við höfum séð í ferðaþjónsutunni, meðal annars hjá okkur á Vestfjörðum.

Við skulum vona að á ókomnum árum getum við haldið þeim verkum áfram. Ferðaþjónustan er nefnilega mikill vaxtabroddur og mörg dæmi má nefna um góðan árangur á því sviði. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað að jafnaði um heil 6% á ári síðustu 40 árin. Allir eru sammála um að Vestfirðir eiga mikil færi á þessum sviðum. Það er okkur því gríðarlega mikilvægt að verða þátttakendur í svoleiðis uppsveiflu.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi