Grein

Henrý Bæringsson | 10.11.2004 | 09:56Spurningar um rafmagnsmál eftir 1. janúar

Á áramótum taka gildi ný raforkulög. Þá verður að fullu skilið á milli framleiðslu, sölu og dreifingu á raforku. Hér á veitusvæði Orkubús Vestfjarða er staðan sú að búið er að skipta fyrirtækinu upp í þrjú svið. Framleiðslusvið sem yfirtekur allar virkjanir á svæðinu ásamt hitaveitum. Raforkusvið sem sér um dreifingu raforku frá aðveitustöðvum á spennu undir 66 kV, þ.e dreifingu til notenda og sölusvið sem sér um að kaupa orku og endurselja, en á milli þessara þriggja deilda Orkubúsins er fjárhagslegur aðskilnaður.

Framleiðslusviðið framleiðir og selur raforku frá virkjunum fyrirtækisins ásamt því að selja heitt vatn til notenda á hitaveitusvæðum. Þetta svið selur raforkuna þeim sem best borgar, en að öllum líkindum verður hún seld með langtíma samningum.

Raforkusviðið sér um að dreifa raforkunni til notenda og hefur tekjur sínar af álagningu á hverja selda kílóvattstund. Með þessari álagningu þarf að greiða alla endurnýjun, nýframkvæmdir og bilanir. Þessi þjónusta er háð einkaleyfi og fyrirtækinu er óheimilt að mismuna kaupendum. Þó er leyfilegt að vera með mismunandi gjaldskrár eftir því hvort kaupendur eru í þéttbýli eða dreifbýli. Ríkið ætlar að niðurgreiða dreifingarkostnað í dreifbýli að einhverju marki.

Sölusviðið sér um að kaupa og selja raforku til notenda. Það þarf að tryggja sér orku til endursölu frá framleiðendum hennar t.d. framleiðslusviði Orkubúsins og fleirum. Þeir notendur sem kaupa 100 kW eða meira eru frjálsir að því hvar þeir kaupa orkuna. Þeir geta t.d. keypt hana af Hitaveitu Suðurnesja, en þurfa eftir sem áður að borga raforkusviði Orkubúsins gjald fyrir að flytja hana eftir sínu kerfi.

Til viðbótar þessu kemur líka annar dreifingarkostnaður. Fyrirtækið Landsnet á og rekur allar raflínur Íslands sem hafa hærri spennu en 66 kV, það rukkar jafnframt fyrir flutning á raforku um sitt kerfi. Til þeirra kerfis hér á Vestfjörðum telst 132 kV lína frá Geiradal til Mjólkár og 66 kV línur frá Mjólká til Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Tálknafjarðar. Heyrst hefur að gjald þetta verði 1 kr. á kílóvattstund.

Þannig að eftir áramót verður t.d. verðið á hverri kílóvattstund af rafmagni samsett af dreifingarverði Landsnets, dreifingarverði raforkusviðs Orkubúsins, framleiðslukostnaði rafmagnsins og álagningu sölusviðs Orkubúsins.

Þær spurningar sem vakna eru:

1. Nú má Raforkusviðið ekki mismuna notendum. Þurfa fjarvarmaveiturnar ekki líka að borga Raforkusviðinu fullt verð fyrir dreifingu á hverri kílóvattstund rafmagns? Og hvert verður þá verðið á heita vatninu frá fjarvarmaveitunum?

2. Þeir notendur sem keypt hafa ótrygga orku, og þurft að lúta því að slökkt sé á þeim með litlum fyrirvara, þurfa þeir ekki líka að greiða þessi dreifingargjöld til Landsnets og raforkusviðs? Mun því ekki hækka hjá þeim umtalsvert?

3. Eiga ekki öll þessi svið, hvert um sig, að skila viðunandi arði til eiganda síns þ.e. íslenska ríkisins?

4. Er ekki alveg ljóst að orkuverð hér á svæðinu mun hækka í kjölfar þessara breytinga um áramót? Og er vitað hversu mikið?

5. Nú mun ríkið niðurgreiða dreifingu á raforku í dreifbýli, mun sú niðurgreiðsla ná til allra notenda bæði sumarhúsaeigenda og lögbýla?

6. Verða margar gjaldskrár í dreifbýli t.d. mun kosta sama að dreifa hverri kílóvattstund í Ísafjarðardjúpi og Reykhólasveit? Og hvar liggja mannfjöldamörk dreifbýlis og þéttbýlis?

7. Nú er selt eftir mörgum töxtum almenn notkun, sumarhúsanotkun, súgþurrkun, hitun og fleira. Verður þetta þannig áfram hjá sölusviði?

8. Mun sölusviðið selja orkuna á sama verði alls staðar á Vestfjörðum, þ.e. sami taxti á sumarhúsum í Ísafjarðardjúpi og Önundarfirði?

9. Nú t.d. er taxtinn fyrir húshitun með niðurgreiðslu 1,63 kr/kWh. Hluti af því verði er að sjálfsögðu dreifingarkostnaður. Þegar búið er að greiða Landsneti fyrir að flytja orkuna eftir sínu neti og raforkusviðinu fyrir að flytja orkuna eftir sínu neti, er þá vitað hvað verð á þessari orku verður eftir áramót, þ.e. orku til húshitunar?

10. Mun Landsnet taka jafn mikið fyrir að flytja raforku um landið sama til hvers á að nota hana t.d. lýsingar og hitunar?

11. Nú á Orkubú Vestfjarða töluverðan fjölda varaaflstöðva vítt og breitt um Vestfirði, er vitað hjá hvaða sviði þær lenda? Og hver mun greiða fyrir þá raforku sem þær framleiða í bilanatilfellum? Vitað er að hver kílóvattstund frá þeim er dýrari í framleiðslu heldur en það sem framleitt er með vatnsafli og dreift með Landsneti um landið.

12. Er vitað í dag hvort Landsnet muni rukka stærstu notendurna, Álverið í Straumsvík og Norðurál, um sama gjald og almenningsveitur fyrir að flytja hverja kílóvattstund?

Ég veit að stjórnendur Orkubúsins eru að bregðast við landslögum með þessum breytingum sem verið er að gera á fyrirtækinu, en ég held að þorri fólks á landinu geri sér ekki grein fyrir að um áramót verður mikil breyting á öllum sölu- og dreifingarmálum hjá öllum raforkufyrirtækjum landsins. Bara sú breyting að ekki megi flytja peninga milli sviða, þ.e. frá framleiðslusviði til dreifingar eða sölusviðs mun verða til þess að gömlu virkjanirnar Mjólká, Engidalur og fleiri sem búnar eru að borga sig margfalt geta ekki greitt niður raforkuverðið á Vestfjörðum lengur.

Framleiðslusvið mun skila nokkuð traustum arði, lítill kostnaður við framleiðslu, næg eftirspurn eftir rafmagni og á meðan rignir og fennir í fjöll mala virkjanirnar gull.

Dreifisviðið mun lifa nokkuð traustu lífi, áætlanir þess munu gera ráð fyrir ákveðnum arði, nokkurn veginn er vitað hvað mikið er flutt eftir kerfinu svo það er ekki mjög flókið að setja upp gjaldskrá sem dugir. Þetta er að vísu háð einkaleyfi svo það verður eftirlit með að ekki verði gerðar óraunhæfar arðsemiskröfur, en ef auka þarf arðinn t.d. vegna þess að eigandann vantar peninga má alltaf slá af kröfum um viðhald og endurnýjun búnaðar eins og gert hefur verið í bresku járnbrautunum.

Sölusviðið verður í mestu vandræðum hjá þeim. Því árið 2007 verður öllum frjálst að kaupa rafmagn hvar sem er, ekki bara þeim sem kaupa yfir 100 kW. Þá geta allir, bæði ég og þú, farið að kaupa rafmagn þar sem verðið er lægst. En við verðum alltaf að greiða Landsneti og raforkusviðinu fyrir að koma rafmagninu til okkar. Nú eru aðeins tæpir tveir mánuðir til áramóta og það væri gott fyrir fólk hér á svæðinu ef einhver gæti svarað einhverjum af þessum spurningum. Kannski einhverjir þeirra sem settu lögin?

Henry Bæringsson, Ísafirði


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi