Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir | 03.11.2004 | 11:44Háskóli á Ísafirði handan við hornið?

Í samfélagi, sem vill láta taka sig alvarlega í samkeppninni um fólk og fyrirtæki, er nauðsynlegt að upp vaxi háskóli. Vestfirðingar hafa talað fyrir því um árabil að möguleikar til háskólanáms í fjórðungnum verði stórefldir og hefur allverulegur árangur náðst í þeim efnum þegar litið er til fjarnáms. Síðustu misseri hefur svo hugmyndum um staðbundin háskóla á Ísafirði vaxið fiskur um hrygg. Það fer vel á því að fjalla um háskólamál á heimasíðu bæjarstjórans í Ísafjarðarbæ því hann hefur, um margra ára skeið, verið einn þeirra sem hafa leitt umræðuna um uppbyggingu háskóla á Ísafirði.

Samstaða komin um leiðir að markmiðinu

Mikil umræða var um þessi mál á vordögum, þingsályktunartillögur höfðu verið samdar, nefndir höfðu skilað álitum og fleira en eitt málþing um háskóla og framtíðina var haldið á Ísafirði. Sitt sýndist hverjum um ákjósanlegustu leiðina til að ná settum markmiðum og nafn á afkvæmið var mjög á reiki. En hvað hefur gerst í háskólamálunum frá því að sól stóð hæst í sumar? Var tillögum og hugmyndum vorsins kannski stungið ofaní skúffu til seinni tíma brúks?

Nei, aldeilis ekki. Óhætt er segja að Vestfirðingar séu nær því nú en nokkru sinni að sjá staðbundið háskólanám verða að veruleika til frambúðar. Fyrir röskum hálfum mánuði, um miðjan október, hélt hópur heimamanna, í nafni stjórnar Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, á fund þingmanna Norðvesturkjördæmis til að kynna tillögur um næstu skref til uppbyggingar á háskólastarfsemi á Vestfjörðum. Var það mál manna eftir fundinn að hann hefði tekist vel, almenn ánægja væri með tillögurnar og þá samstöðu sem væri komin um leiðirnar að settum markmiðum.

Þekkingarsetur á Ísafirði verður miðstöð háskólanáms

Tillögurnar byggja á skýrslu starfshóps menntamálaráðuneytisins frá því í maí á þessu ári, þar sem lagt er til að stofnað verði þekkingarsetur á Vestfjörðum, með aðsetur á Ísafirði, sem verði samnefnari fyrir símenntun, háskólanám og rannsóknir í fjórðungnum. Í starfshópnum sátu fulltrúar heimamanna, sem komu á framfæri jafnt væntingum sem hugmyndum Vestfirðinga sjálfra í þessum efnum. Í tengslum við skýrslu ráðuneytisins fylgdi einnig vilyrði menntamálaráðherra fyrir fjörutíu milljóna króna aukframlagi til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða vegna uppbyggingar þekkingarseturs.

Stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða hefur tekið frumkvæði í þessu máli og er það vel enda er hugmyndin sú að Fræðslumiðstöðin taki að sér hlutverk þekkingarseturs. Stjórnin hefur samræmt óskir og hugmyndir heimamanna og er nú í óða önn að hrinda áætlununum í framkvæmd á grundvelli þessara tillagna. Ætlunin er að starfsemi þekkingarseturs verði þríþætt:

Símenntun
Háskólanám
Rannsóknir

Með símenntunarþættinum er átt við núverandi starfsemi Fræðslumiðstöðvar á sviði fullorðinsfræðslu. Í háskólaþættinum verður haldið utan um þá fjarkennslu sem í boði er hverju sinni, líkt og verið hefur um árabil, auk þess sem hafist verður handa við uppbyggingu staðbundins háskólanáms, s.s. í grunngreinum á borð við aðferðafræði og forspjallsvísindi og sértækum greinum sem gætu tengst rannsóknum á svæðinu. Í rannsóknarþættinum hefur einkum verið horft til rannsókna á sviði þorskeldis og veiðarfæragerðar, ásamt hafrannsóknum hverskyns, en aðrar hugmyndir lúta m.a. að félagsvísindagreinum á borð við samfélagstúlkun og miðalda- og jafnvel fornleifarannsóknir. Með öflugu staðbundnu námi skapast síðan möguleikar á fjarkennslu frá þekkingarsetrinu.

Leitað að hentugu húsnæði og nafni

Gert er ráð fyrir yfirmanni á hverju sviði fyrir sig sem hefði með höndum alla skipulagningu og daglegan rekstur síns sviðs en framkvæmdastjóri þekkingarseturs samræmdi starfsemi sviðanna þriggja auk þess að halda utan um rekstur sameiginlegs húsnæðis. Enn liggur ekki fyrir hvar starfsemin verður til húsa en verið er að skoða ýmsa möguleika, m.a. núverandi húsnæði Fræðslumiðstöðvarinnar í gamla Íshúsfélaginu á Ísafirði eða flutning í Vestrahúsið á Ísafirði, þar sem Þróunarsetur Vestfjarða er til húsa. Sú staðsetning yrði á margan hátt heppileg því þá væru háskólanemar í nánum tengslum við stofnanir á borð við Hafrannsóknarstofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og nú síðast Snjóflóðarannsóknamiðstöð, sem allar eru í Þróunarsetrinu.

Það er mál manna að nauðsynlegt sé að finna þekkingarsetrinu gott nafn sem sé þjált í meðförum og fari vel á ýmsum tungumálum. Ýmsar hugmyndir hafa skotið upp kollinum og færi vel á því að almenningur fengi að spreyta sig á nafngiftinni í hugmyndasamkeppni.

Staðbundið háskólanám getur hafist næsta haust

Menntamálaráðherra hefur, eins og áður er nefnt, gefið vilyrði fyrir fjörutíu milljóna króna aukaframlagi til uppbyggingar þekkingarseturs og á það fé að skiptast á tvö ár, 2004 og 2005. Stjórn Fræðslumiðstöðvar telur að með þeim fjármunum verði unnt að hefja starfsemi þekkingarseturs á nýju ári og staðbundið háskólanám gæti því orðið að veruleika strax næsta haust, að því gefnu að framlög yrðu tryggð á fjárlögum 2006. Forsendan fyrir slíku námi yrði þó alltaf sú að háskólar landsins myndu meta það til jafns á við nám á þeirra vegum og hafa farið fram óformlegar viðræður í þá veru. Má ætla að 7-8 stöðugildi yrðu við setrið fyrsta kastið.

Aldrei fleiri Vestfirðingar í háskólafjarnámi

Síðustu ár hefur þeim Vestfirðingum stöðugt fjölgað sem stunda fjarnám við háskóla. Nú er svo komið að um 160 manns eru á skrá Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða yfir þá sem stunda slíkt nám og hefur sá hópur aldrei verið fjölmennari. Langflestir nemendanna eru skráðir í Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands en í reynd eru fjarnemar af Vestfjörðum við flesta, ef ekki alla, háskóla landsins. Fræðslumiðstöðin þjónar þessum nemendum eins og kostur er en með tilkomu þekkingarseturs, og þar með fleiri starfsmanna, yrði sú þjónusta stóraukin.

Forræði heimamanna og fordæmin á Bifröst

Eitt af því sem stjórn Fræðslumiðstöðvar gengur út frá í sinni vinnu er að stjórn þekkingarseturs verði alfarið á forræði heimamanna eða þeirra sem heimamenn velja til starfans. Mikilvægt er að með stjórnina fari fjölhæfur hópur einstaklinga sem eru fulltrúar ólíkra hagsmunahópa - einstaklingar sem láta sig miklu varða að háskólasamfélag á Vestfjörðum vaxi og dafni.

Sjálf hef ég kosið að horfa til þess starfs sem hefur verið unnið við Viðskiptaháskólann á Bifröst þar sem valinkunnir einstaklingar, sem eiga rætur í skólasamfélaginu á Bifröst, fara með stjórn skólans. Viðskiptaháskólinn er sjálfseignarstofnun og æðsta stjórn skólans er í höndum háskólastjórnar sem í sitja fimm einstaklingar. Menntamálaráðherra skipar einn, hollvinasamtök háskólans skipa einn, háskólaráð Viðskiptaháskólans skipar einn og Samtök atvinnulífsins skipa tvo.

Þessi forskrift er að gefa góða raun fyrir Viðskiptaháskólinn á Bifröst og þótt ekki verði hún alfarið yfirfærð á vestfirsk samfélag er hún ágætt viðmið. Viðskiptaháskólinn er gott dæmi um skóla sem byrjaði smátt, hann færði sér í nyt ákveðið tómarúm í íslensku háskólasamfélagi og bauð upp á nám sem ekki hafði verið í boði hér á landi áður. Þar stunda nú 470 nemendur nám, ýmist í staðbundnu námi eða fjarnámi, og skólinn vex ört.

Bifröst er fordæmi sem Vestfirðingar eiga að geta fylgt. Við eigum að byggja á sérstöðu okkar – sjávarútveginum – til að skapa þann grunn sem þarf til að háskóli á Ísafirði megi verða að veruleika. Rannsóknir í bland við staðbundið nám, fjarnám og endurmenntun er sú uppskrift sem unnið er eftir um þessar mundir og ég er þess sannfærð að hún muni verða okkur til heilla – ef allir taka höndum saman til að ná settu marki.

– Birna Lárusdóttir.

Greinin birtist einnig á heimasíðu Halldórs Halldórsssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar – www.haddi.isTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi