Grein

Óðinn Gestsson.
Óðinn Gestsson.

Óðinn Gestsson | 25.10.2004 | 10:41Að greina kjarnann frá hisminu

Lárus Valdemarsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fer mikinn í viðtali við bb.is síðastliðinn föstudag. Þar segir hann það skoðun mína, greiða eigi fólki lág laun. Hann segir ennfremur að við eigum að hafa metnað til þess að mennta starfsfólkið okkar þannig að til fyrirmyndar sé, og greiða þeim laun eftir menntun. Hann gerir lítið úr ófaglærðu starfsfólki okkar sem að sönnu er undirstaðan í þeim stofnunum sem Ísafjarðarbær rekur og við sækjum þjónustu okkar til. Viðtalið sem Lárus vitnar í, við mig, var tekið af fréttamanni bb.is og kom það til vegna þess, að á Alþingi höfðu komið fram upplýsingar um að Ísafjarðarbær væri að reka menntamálin ódýrar en gengur og gerist hjá öðrum sveitarfélögum.

Í viðtalinu sagði ég eitthvað á þá leið, að það væri ekki sama sem merki á milli þess fjármagns sem færi í málaflokkinn og þess þjónustustigs sem væri verið að veita. Ef stjórnendur fræðslumála Ísafjarðabæjar geta rekið sýnar stofnanir ódýrar en aðrir, þá finnst mér það hið besta mál. Það er alveg ljóst að launakostnaður er stærsti einstaki liður málaflokksins: Þar liggja því flest tækifærin til hagræðingar og sparnaðar.

Lítil samkeppni um starfsfólk

Því miður er það svo að ekki er mikil samkeppni um starfsfólk hér um slóðir. Af því leiðir að vinnuafl verður ódýrara en á öðrum stöðum. Þessa ályktun dreg ég af því að starfsfólk á leikskólanum Sólborg skrifaði undir áskorun til bæjarstjórnar, um að hækka laun sín til samræmis við starfsmenn hjá annarra bæjarfélaga. Flestir þessara ófaglærðu starfsmanna eru í Fosvest og þiggja laun samkvæmt kjarasamningi þess félags við Ísafjarðarbæ. Hvar eru forystumenn þess félags. Þeir fara með umboð til samningagerðar og því vaknar sú spurning hvort allt hafi verið með felldu við gerð núverandi samnings. Þó er rétt að hafa það í huga að starfsfólkið samþykkti samninginn á sínum tíma og féllst þar með á að vinna eftir honum.

Lárusi er hollt að hafa það í huga. Á hitt skal bent að Lárus getur sem bæjarfulltrúi haft áhrif á þessi mál sem önnur. Hann er jú réttkjörinn fulltrúi fólksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og ber sem slíkur ábyrgð á framvindu mála. Ég er nokkuð viss um að Lárus mun við rekstur á sínu fyrirtæki hafa í huga launakostnað, þegar hann ræður til sín starfsfólk.

Greiða á sanngjörn laun

Að halda því hinsvegar fram að það sé skoðun mín að greiða eigi fólki sem allra lægst laun vísa ég til föðurhúsanna. Greiða á sanngjarnt afgjald fyrir þá vinnu sem innt er af hendi og þannig að báðir aðilar geti við unað. Bæði sá sem selur vinnuna og sá sem kaupir hana. Í dag höfum við stéttarfélög sem sjá um að semja um þetta afgjald, í þessu tilfelli semur Fosvest við Ísafjarðarbæ. Lárusi er hollt að muna, að væntanlega kjósa einhverjir ófaglærðir aðilar Samfylkinguna. Því er rétt að ráða honum frá því að gera lítið úr þeirra framlagi til samfélagsins. Það er hinsvegar á endanum hans ákvörðun hvernig hann kýs að haga orðum sínum í garð annarra. Ekki spillti fyrir ef Lárus skoðaði hvernig menntun starfsfólks í skólastarfi Ísafjarðarbæjar hefur þróast á undanförnum þremur árum. Kynni hann sér þá hluti hlýtur að renna upp fyrir honum það ljós að fullyrðing hans um meint metnaðarleysi fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar í menntun starfsfólks skólanna er ekki svaraverð.

Góð menntun tryggir ekki góðan starfsmann

Því miður tryggir góð menntun ekki góðan starfsmann þrátt fyrir að líkurnar aukist að sjálfsögðu með aukinni menntun. Um það eru til mörg dæmi. Menntun á hinsvegar að standa öllum til boða. Þeir sem hana sækja verða að gera það á eigin forsendum en ekki annarra. Við verðum ávallt að gera fyrst kröfur til okkar sjálfra áður en við gerum kröfur á hendur öðrum.

Hluti af góðu skólakerfi er að það kosti ekki of mikið.
Hluti af góðu skólakerfi er að þar sé til staðar hæft starfsfólk.
Hluti af góðu skólakerfi er að starfsfólk sé ánægt við störf sín.
Hluti af góðu skólakerfi er að nemendur og foreldrar séu ánægðir með þjónustu þess.
Hluti af góðu skólakerfi er að menn þori að taka umræðu um skólamál. Þori að ræða einstaka þætti málsins þar á meðal launamál og starfsmannamál almennt.

Ég tel að þeir stjórnendur sem stýra þeim stofnunum sem heyra undir fræðslumálin séu almennt hæfir og vel til þess fallnir að stjórna sínum stofnunum. Það sýnir árangur undanfarinna ára. Kjósi Lárus að skjóta þann sendiboða, sem veltir fyrir sér stöðu fræðslumála þá má hann það mín vegna. Með slíku verklagi náum við ekki framförum. Það er mjög eðlilegur hlutur að menn velti fyrir sér stöðunni á hverjum tíma. Velti því t.d. fyrir sér hvort kostnaður vegna fræðslumála sé lægri hér vegna þess að hér sé hátt hlutfall áfaglærðs starfsfólks og leiðbeinenda. Það er öllum hollt að kunna skil á öllum hliðum þess starfs sem unnið er í fræðslumálum. Því fer hinsvegar fjarri að slíkar vangaveltur beri vott um metnaðarleysi.

Óðinn Gestsson, varaformaður fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi