Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 20.10.2004 | 11:29Samkeppni á bensínmarkaði

Þann 9. janúar 1998 sótti ég um lóð undir bensínstöð á Tunguskeiði. Umsókn minni var vel tekið og 2. júni það ár var mér veitt lóðin undir bensinafgreiðslu með þeim fyrirvara að leyfi Veðurstofunnar fengist til að byggja á lóðinni. Í lýsingu á lóð segir svo: Lóð fyrir bensínstöð og greiðasölu. Stærð lóðar: 3.496 fermetrar. Stærð byggingarreits:1.700 ferm. Fjöldi hæða: 1-2. Ennfremur segir: Lóðin er þannig staðsett að hún verði sem aðgengilegust frá þjóðveginum. Einnig er tekið mið af því að frá veitingasal megi nást útsýni í átt að Tunguánni og út Skutulsfjörðinn.

Forsaga málsins

Ég taldi nauðsynlegt að fá aðra bensínstöð á Ísafirði. Taldi ekki sæmandi fyrir höfuðstað Vestfjarða að búa við þá aðstöðu og einokun sem fyrir var. Ég hafði samband við forstjóra Skeljungs sem sýndi málinu strax áhuga og kvaddi mig á sinn fund til Reykjavíkur. Þar kom fram að þeir væru fúsir til að slíta samstarfinu við hin olíufélögin ef ég gæti útvegað lóð og þau leyfi sem til þyrftu, síðan skyldi ég koma aftur suður og þá yrði gengið frá málunum. Í framhaldi af þessum viðræðum sótti ég um lóð á Tunguskeiði. Eftir þetta hitti ég Kristinn Björnsson margsinnis og sá engan bilbug á honum um að af þessu gæti orðið.

Það sem tafði undirbúning málsins var fyrst og fremst hættumatslína Veðurstofunnar vegna snjóflóðahættu. Sú lína sveiflaðist til og frá eins og pendúll í klukku. Í fyrstu var hættumatslínan við dyrnar á Ljóninu, núverandi Bónus, en bílaplanið var á hættusvæði. Þú varst sem sagt öruggur inni í húsinu en staddur á hættusvæði á planinu fyrir utan dyrnar. 11. maí 1998 kemur bréf frá Veðurstofunni en þar stendur: „Það er mat Veðurstofunnar að á þessum stað sé viðunandi að byggja bensínstöð án sérstakra ráðstafana vegna snjóflóðahættu.“ Þar með voru lóðamálin komin í höfn.

Samráð olíufélaganna

Um þessar mundir fengu olíufélögin til sín danska kellingu, svo kallaðan sérfræðing, til að skipuleggja fyrir sig olíudreyfinguna úti á landi. Niðurstaða hennar var sú sem við getum séð í dag. Útsölustöðum úti um land var í fyrsta lagi lokað í öðru lagi settir upp sjálfsafgreiðslutankar án nokkurrar þjónustu og í þriðja lagi skiptu þeir smærri þéttbýlisstöðunum á milli sín. Esso fékk þetta þorpið eða bæinn en Skeljungur hinn. Allir möguleikar á samkeppni afnumdir nema á stærri stöðunum t.d. í Borgarnesi þar sem öll olíufélögin eru með tanka. Olíumarkaðurinn í Borgarnesi var það stór að hann átti að þola samkeppni, sem í reyndinni enginn varð, því að svipað verð er hjá þeim öllum. Það var bara samkomulag um að skipta kökunni jafnt á milli sín. Jafnframt þessum breytingum til hins verra á landsbyggðinni, voru skv. tillögum dönsku frúarinnar lögð öll áhersla á að koma upp svokölluðum Select verslunum í Reykjavík.

Þegar ég því mætti á skrifstofu Skeljungs í Reykjavík í júní 1998 með alla pappíra í lagi var mér góðfúslega tjáð að þeir væru hættir við allt saman og ástæðan var þessi: „Ef við slítum samstarfinu á einum stað er allt annað samstarf annars staðar á landinu í uppnámi.“ Essó setti þeim þessi skilyrði. Ég fór heim vonsvikinn með skottið milli lappanna. Ég hafði tapað orustunni en Essó-einokunarsinnum hafði orðið að ósk sinni. Tilraun mín til að koma á samkeppni hafði mistekist og við gátum búið áfram við einokun, samráð og samvinnu eins og verið hafði.

Atlantsolía

Mínum afskiptum af bensínmálum Ísfirðinga var samt ekki alveg lokið því sama dag og Atlantsolía auglýsti eftir lóðum undir bensínstöðvar s.l vor, hringdi ég í framkvæmdastjórann og sagði honum frá þeirri lóð sem mér hefði verið úthlutað en ekki tekist að byggja á vegna samstarfs hinna olíufélaganna. Sú lóð ætti að vera tilbúin svo hægt væri að setja upp tanka strax ef þeir sæktu um lóðina og bæjarstjórn samþykkti. Þeir sögðu mér að Ísafjörður hefði ekki beinlínis verið inni í myndinni en eftir að ég hafði sent þeim uppdráttin af lóðinni og staðsetningu lóðarinnar gagnvart umferð svo og fjölda íbúa á svæðinu og áætlaðar tölur ferðamanna, fannst þeim þetta vera vænlegur kostur og sóttu um lóð eins og öll hin olíufélögin hafa líka gert eins og flestir vita sem fyllst hafa með þessum málum.

Snyrtiaðstöðu ábótavant í fallegum bæ

Olíufélögin þrjú hafa um árabil rekið hér bensín og olíusölu í samvinnu en ekki í samkeppni. Þau hefðu átt að sjá sóma sinn í því að byggja hér í höfuðstað Vestfjarða viðunandi bensínstöð með veitinga og snyrtiaðstöðu eins og tíðkast á flestum öðrum þéttbýlisstöðum víðast hvar á landinu. Varla hefði þeim skort fé til að leggja í púkkið, þrír olíurisar í samstarfi. Ísafjörður er einn af fáum þéttbýlisstöðum þar sem hinn almenni ferðamaður finnur engan stað þar sem hann getur farið á snyrtingu án leiðsögumanns. Þetta hefur verið bænum til skammar í tíð margra bæjarstjórna, sem ekki virðast sjá þennan vanda ókunnra ferðamanna. Veitingamenn á Ísafirði voru og eru langþreyttir á því að fá inn til sín ferðamenn, sem eiga það erindi eitt inn á veitingastaðinn að fara á klósettið.

Fyrir tveimur til þremur árum var reynt að ráða bót á þessu um háferðamannatímann. Var þá settur upp á Landsbankaplaninu kamar sem á stóð: „W.C. Gámaþjónusta Vestfjarða.“ Ekki man ég hvort þetta var einfaldur eða tvöfaldur kamar fyrir bæði konur og karla. Hvort þetta framtak var á vegum Gámaþjónustunnar eða bæjarstjórnarinnar veit ég ekki enda skiptir það ekki máli. Nú er ferðamönnum sem spyrja um snyrtingu vísað niður í „Neðsta.“ Þetta misskilja sumir, en aðrir biðja um leiðsögumann, því hvernig ættu almennir ferðamenn að vita hvar „Neðsta“ er. Hér finnst mér að núverandi og undangengnar bæjarstjórnir hefðu átt að grípa inn í og krefjast þess af olíufélögunum, að þau byggðu almennilega bensínstöð eins og hjá venjulegu fólki með snyrtiaðstöðu og veitingasal eða kæmu sér að öðrum kosti í burt.

Samkeppni, lægra bensínverð – Nei takk við afþökkum slíkt boð

Meirihluti bæjarstjórnarinnar hefur dregið lappirnar í þessu bensínstöðvamáli í marga mánuði og haft stórfé af almenningi með undirlægjuhætti við gömlu risana sem ekki má styggja. Þeir hafa ekki þjónað okkur það vel, að rétt sé að verðlauna þá. Við höfum veinað og skrækt um hvað við værum illa stödd að hafa ekki samkeppni á olíumarkaði eins og stóru staðirnir en þegar samkeppnin býðst er hún afþökkuð af meirihluta bæjarstjórnar. Svona gera menn ekki og almenningur í þessum bæ á ekki að láta bjóða sér svona framferði. Hver bifreiðaeigandi og hvert heimili á þjónustusvæðinu er að tapa peningum dag hvern, vegna þess að við fáum ekki að nýta okkur samkeppnina. Höfum við efni á því og er ástæða til þess?

Fróðir menn segja mér að eina leiðin til að fá raunverulega samkeppni sé að fá Atlantsolíu á svæðið. Nú býðst það. Semjið því við Atlantsolíu og það strax og hættið þessu útboðskjaftæði sem er ekki til annars en að drepa málinu á dreif til að þóknast olíufélögunum sem fyrir eru. Þau eiga það ekki skilið.

18. október 2004, Jón Fanndal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi