Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

| 29.03.2000 | 13:53Sala kemur ekki til greina

Heyrst hefur, að til umræðu sé að selja Orkubú Vestfjarða, eða réttara sagt að neyða Vestfirðinga til að láta ríkið fá Orkubúið upp í skuld við Íbúðalánasjóð. Að mínu mati og margra annarra er þetta það vitlausasta sem við gætum gert í stöðunni. Sala ætti ekki að koma til greina. Nú skulum við segja: Hingað og ekki lengra, og standa við það.
Ég þarf ekki að tíunda ágæti Orkubús Vestfjarða. Það hefur þjónað okkur með ágætum allt frá stofnun þess og sannarlega staðið undir væntingum. Frumherjarnir eiga þakkir skildar. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, ætti hér vel við.

Ég sé enga ástæðu til að ætla, að vestfirskir sveitastjórnarmenn láti kúga sig til að láta Orkubúið af hendi. Afstaða þeirra hefur ekki enn verið gerð kunn af skiljanlegum ástæðum, þar sem stutt er síðan alvara málsins varð ljós. Ég vil samt ekki láta hjá líða að vekja athygli á málinu, svo alvarlegt sem það er að mínu mati.

Ég skal ekki vanmeta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Hún er vissulega slæm, en gleymum ekki orsökinni. Hún er ekki sök sveitarstjórnarmanna, þó eflaust megi finna því stað að einhverjar fjárfestingar eða ákvarðanir hafi ekki verið æskilegar í ljósi reynslunnar, en þær voru börn síns tíma og voru eflaust réttlætanlegar þá þær voru teknar.

Ríkisvaldið knúði sveitarfélögin til sameiningar með því að moka fjárfrekum verkefnum frá sér yfir á sveitarfélögin án þess að tryggja þeim næga tekjustofna til að standa undir þeim. Ef hægt er að áfellast sveitarstjórnarmenn, þá er það fyrir það að þeir skyldu láta ríkið plata sig til að taka við verkefnum án nægjanlegra tekjustofna. Sveitarfélögin hafa einnig orðið af verulegum tekjum vegna kvótaruglsins og fækkunar íbúa. Við skulum því fara varlega í að áfellast sveitarstjórnarmenn fyrir slælega stjórnun.

Nú þegar ríkið er búið að losa sig við fjárfrek verkefni yfir til sveitarfélaganna og hefur selt eða gefið eigur ríkisins, státa þeir sig af góðri afkomu ríkissjóðs, en flest sveitarfélög á landsbyggðinni eru á hausnum vegna gerða ríkisstjórnarinnar. Þá ríður svonefnd eftirlitsstofnun sveitarfélaga frá miðstýringunni í Reykjavík fram á ritvöllinn og sendir sveitarstjórnarmönnum umvöndunarbréf og krefst skýringa vegna slæmrar fjárhagsafkomu. Hvílíkur hroki og lítilsvirðing! Því næst skipar félagsmálaráðherra svo fyrir, að selja skuli Orkubúið. Að öðrum kosti verði sveitarfélagið svipt framlagi úr jöfnunarsjóði. Augljóst er hvaða afleiðingar það mundi hafa. En hvað getum við selt næst þá Orkubúið yrði farið? Eigum við nokkuð annað til að selja?

Það á eftir að vora í vestfirskum byggðum og þegar þar að kemur viljum við ekki standa yfir rjúkandi rústum. Þess vegna spyrnum við nú við fótum og segjum: Hingað og ekki lengra, þrátt fyrir allar hótanir um skerðingu úr jöfnunarsjóði. Minnumst frægrar setningar sem sögð var fyrr á öldum: Heyra má ég erkibiskups boðskap en staðráðinn er ég að hafa hann að engu.

Ég vonast til þess að við fáum að fylgjast með framgangi þessara mála svo að tími gefist til að berjast fyrir tilvist Orkubúsins og jafnframt sveitarfélagsins, en stöndum ekki frammi fyrir gerðum hlut og svarið verði: Því miður of seint. Selt.

Ég vil ljúka þessum skrifum með orðum Halldórs Laxness úr Íslandsklukkunni: Feitur þjónn er ekki mikill maður en barinn þræll er mikill maður, því í honum býr frelsið. Látum ekki kúga okkur til hlýðni. Vestfirðingar hafa aldrei gert það. Þeir eiga annað og betra skilið.
– Jón F. Þórðarson, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi