Grein

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson | 23.07.2004 | 17:43Berum höfuðið hátt og tölum upphátt

Ég er einn þeirra sem sótti ráðstefnuna „Með höfuðið hátt“ og vil ég þakka þeim sem stóðu að ráðstefnunni fyrir gott framtak. Markmið ráðstefnunnar var að ræða málefni samfélagsins á Vestfjörðum á þverpólitískum og opnum grundvelli. Ekki ætla ég að lasta á nokkurn hátt þá ágætu fyrirlestra sem fluttir voru á ráðstefnunni en þó verð ég að segja að mér fannst vanta hreinskilnari umræðu um vanda landsbyggðarinnar.

Allir vita að sjávarútvegur er aflið sem knýr atvinnulíf sjávarbyggðanna áfram og ég hefði talið að óreyndu að eitt megin umræðuefni ráðstefnu um tækifæri ungs fólks til búsetu á Vestfjörðum væri einmitt skipulag þeirrar atvinnugreinar. Svo var alls ekki heldur voru fyrirlestrar um sjávarútveg um þorskeldi, veiðarfærarannsóknir og sushigerð en þess ber að geta að allir fyrirlestrarnir voru fróðlegir og vel fluttir.

Hvers vegna ætli ungt fólk í þremur stjórnmálaflokkum á Vestfjörðum forðist umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið? Er umræðan svo erfið þeim sem styðja kvótaflokkana að þeir forðist hana í lengstu lög?

Ég hefði talið að ráðstefnan hefði verið góður vettvangur fyrir áhangendur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að útskýra hvers vegna í ósköpunum Vestfirðingar ættu að sætta sig við atvinnuhöft kvótakerfisins til frambúðar.

Þingmenn kvótaflokkanna Einar Oddur Kristjánsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson hefðu getað útskýrt í leiðinni fyrir ungu fólki hvers vegna þeir sviku gefin loforð, þegar þeir greiddu því atkvæði að setja um 300 handfæratrillur í kvótabraskkerfi.

Við sem erum svarnir andstæðingar núverandi óstjórnar í sjávarútvegi hefðum sýnt fram á að þorskafli nú er aðeins helmingur þess afla sem kom á land fyrir daga kvótakerfisins og þess vegna er sjálf forsendan fyrir kerfinu, þ.e. einhver fiskvernd, löngu brostin. Óumdeilt er að kerfið hefur komið í veg fyrir nýliðun í sjávarútvegi og hefur þar af leiðandi haft lamandi áhrif á sjávarbyggðirnar.

Óskandi væri að unga fólkið sem stóð svo myndarlega að ráðstefnunni nýtti sér nýfengna reynslu af ráðstefnuhaldi og héldi aðra og beinskeyttari ráðstefnu þar sem til umfjöllunar yrði kvótakerfið, fækkun opinberra starfa á Vestfjörðum og atvinnumál almennt á landsbyggðinni. Það mætti vel halda ráðstefnuna í tengslum við heimastjórnarhátíð alþýðunnar sem haldin verður í bráð á Ísafirði.

Sigurjón Þórðarson alþingismaður Frjálslynda flokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi