Grein

Arnar Guðmundsson.
Arnar Guðmundsson.

Arnar Guðmundsson | 25.05.2004 | 13:59Gísli Súrsson og góðar götur

Það var ánægjulegt að lesa í Morgunblaðinu þ. 19. maí, um Gíslasögu Súrssonar verkefnið í Dýrafirði og nágrenni. Það á eftir að koma Vestfjörðum enn betur á ferðakortið og eflaust gefa íbúum svæðisins mikið krydd í tilveruna. En eins og allir Vestfirðingar vita þá er sögusvæði Gísla Súrssonar ekki einskorðað við Dýrafjörð. Það nær yfir í Geirþjófsfjörð í Arnarfirði þar sem hann var að lokum felldur. Í þann fagra fjörð og sögustað er einungis hægt að komast á báti eða gangandi ofan af Dynjandisheiði, sem er töluvert meira en smá „spássertúr“.

En þar sem ég hef ákveðna skoðun á vegamálum Vestfirðinga, sé ég fyrir mér glæsilega útvíkkun og opnun á Gísla Súrssonar sögusvæðinu. Það gerist með veggöngum úr Dynjandisvogi yfir í Geirþjófsfjörð, og verður þá til mikið og spennandi sögu- og ferðamannasvæði sem nær frá Haukadal í Dýrafirði, Hrafnseyri, Dynjandi (Fjallfoss) og hinu megin við veggöngin að endastað Gíslasögu, Einhamri í Geirþjófsfirði. Þess má geta að Geirþjófsfjörður er ekki bara sögustaður, heldur líka mjög fagur og góð viðkomuviðbót fyrir þær sakir.

Ekki má þó lesa þetta sem svo að ég telji Gísla sögu eina sér réttlæta veggöng úr Dynjandisvogi yfir í Geirþjófsfjörð. Það er fjarri lagi, en góð ástæðubót, enda leggja Vestfirðingar nú mikið uppúr því að styrkja sig í ferðaþjónustu. Nefnd veggöng eru réttlætanleg fyrir það eitt að það er skynsamasti kosturinn við endurnýjun vegar um þetta svæði. Þetta er liður í stystu mögulegu leið fyrir norðanmenn á leið á suðvesturhornið. Þetta er besta og öruggasta leiðin til að tryggja að norður og suðursvæði Vestfjarða geti notið góðs hvort af öðru. Öruggasta segi ég vegna þess að uppbygging Dynjandisheiðar er ekki fýsileg, vegna þess hve löng leið þar er í mikilli hæð. Veggöng úr Dynjandisvogi yfir í Geirþjófsfjörð með vegi þaðan út í Trostansfjörð, bjóða uppá láglendisveg frá Bolungarvík að norðurhverfi Vesturbyggðar, ef frá er talin Gemlufallsheiði (og að sjálfsögðu Ísafjarðargöngin sem ég flokka ekki sem fjallveg). Göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjaðar eru þegar á blaði og hef ekki frekari orð um þau.

En hvað með leið áfram suðurúr? Milli Trostansfjarðar og Vatnsfjarðar liggur Trostansfjarðarheiði. Alveg hreint ótrúlega notadrjúgur forngripur með varðveislugildi. Að auki býður þessi heiði uppá auðvelda vegagerð fyrir vetrarumferð, með hæsta vegpunkt uppá nokkra metra og fer svo að lækka allskart í báðar áttir.

Fljótt á litið á korti má ímynda sér að þetta sé nokkrum metrum lengra en núverandi Dynjandisheiðarleið. Það tel ég þó ekki vera þar sem Dynjandisheiði er allhlykkjótt og því lengri en sýnist á korti.

Um þá hugmynd sem fram hefur komið um veggöng úr Dynjandisvogi í Vatnsfjörð, er það að segja að engu líkara sé að hún sé lögð fram einungis til þess, að ekki sé á hana hlustað. Fyrir það fyrsta lengir hún leiðina frá norðurhluta Vesturbyggðar norðurúr um 60 km. frá því sem nú er og hefur því öfuga virkni m.t.t. samvirkni svæðanna. Í annan stað er verkefnið svo dýrt að bjartsýnustu draumóramenn og konur hljóta að sjá, að ekki verður komist neitt áleiðis með slíkar kröfur í farteskinu, sem að auki einangrar hluta svæðisins. Erfitt yrði því fyrir hagreikna að finna nokkurt jákvætt í slíkri tillögu, jafnvel þó svo að norðursvæðið gæti notað slík göng á leið sinni til suðvesturhornsins. Þessi hugmynd er því ekki bara einskis virði, heldur getur hún spillt fyrir framgangi betri, skilvirkari og ódýrari hugmynda.

Ég hvet því til grandskoðunar á þessari vegleið um leið og ég óska Gíslasöguverkefninu góðrar vegferðar.

Arnar Guðmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi