Grein

Hildur Helga Gísladóttir.
Hildur Helga Gísladóttir.

| 06.06.2001 | 09:53Viltu hafa áhrif ?

Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum gengst fyrir námskeiði á Ísafirði dagana 7. og 8. júní næstkomandi. Námskeiðið er ætlað sveitarstjórnarkonum, konum í nefndum og ráðum sveitarfélaga og konum sem hafa áhuga á að bæta samfélagið.
Vissir þú að hlutur kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi er aðeins 29%? Skiptir það máli? Jú, það skiptir máli að fleiri konur taki þátt í að móta samfélagið. Konur og karlar hafa oft og tíðum ekki sömu reynslu og ekki sama uppeldislega bakgrunn. Það er m.a. þess vegna sem kynin þurfa að standa hlið við hlið og hjálpast að við að vinna farsællega að málefnum sveitarfélagsins.

Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum var skipuð af félagsmálaráðherra og tók til starfa í október 1998. Nefndinni er ætlað að starfa í fimm ár og er fengið það verkefni að auka hlut kvenna í stjórnmálum, á Alþingi, í sveitarstjórnum og í nefndum og ráðum ríkis og sveitarfélaga.

Við síðustu Alþingiskosningar hækkaði hlutfall kvenna úr 25% í 35%. Þar sem hlutur kvenna í sveitarstjórnum er aðeins 29% og hlutur kvenna í nefndum og ráðum sveitarfélaganna er mun lægri er mikið verk að vinna. Þessum hlutföllum þarf að breyta, en til þess að það verði hægt þurfa konur að vera tilbúnar til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum.

Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum hefur því staðið fyrir fjölmennum og gagnlegum námskeiðum fyrir stjórnmálakonur og konur sem hafa áhuga á stjórnmálum. Auk námskeiða í Reykjavík, hafa námskeið verið haldin á Akureyri og á Egilsstöðum. Nú stendur fyrir dyrum námskeið á Ísafirði sem ber heitið Efling stjórnmálakvenna, félagsmál, ræður, greinar og fjölmiðlar og verður það haldið fimmtudaginn 7. júní og föstudaginn 8. júní í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og þar fer skráningin fram. Viðfangsefni námskeiðsins verða:

1)Árangursrík þátttaka í félagsmálum. Fjallað verður um fundi og fundarstjórnun. Farið verður í nýjar leiðir til að nýta tíma og auka árangur. Einnig fjallað um notkun hugkorta og sex hatta aðferðina.

2)Að flytja ræðu. Farið verður í helstu þætti skýrrar og skipulegrar framsagnar; að tjá og miðla, framkomu, framburð, áherslur, hljómfall, hikorð og kæki.

3)Að skipuleggja ræðu eða grein. Ræður og greinar þurfa að vera skipulagðar og markvissar til að ná eyrum áheyrenda og lesenda. Fjallað verður um byggingu ritsmíða og bent á lausnir til að hefjast handa við að setja fram hugmyndir. Einnig kennt á Ritbjörgu, nýtt og aðgengilegt tölvuforrit.

4)Fjölmiðlar. Skoðað verður hvernig mynd fjölmiðlar draga upp af konum í stjórnmálum og hvernig þær geta aukið hlut sinn. Rætt hvaða atriði skipta máli þegar komið er í sjónvarpsviðtal.

Kennarar verða Sigrún Jóhannesdóttir M.Sc. í kennslutækni, Ingibjörg Frímannsdóttir málfræðingur, Guðlaug Guðmundsdóttir íslenskufræðingur og dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur og yfirmaður upplýsingadeildar Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum vill hvetja vestfirskar konur sem áhuga hafa á málefninu til þess að sækja námskeiðið á Ísafirði og bætast þar með í hóp fjölda annarra kvenna sem hafa tekið þátt í námskeiðum nefndarinnar.

Þá vill nefndin einnig hvetja konur til þess að fjölmenna á opinn fund um þátttöku kvenna í stjórnmálum sem verður haldinn föstudaginn 8. júní kl. 18.30-19 í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þar munum við m.a. ræða um hvers vegna það skiptir máli að konur taki þátt í að móta samfélagið til jafns við karla.

Sjáumst á Ísafirði,
Hildur Helga Gísladóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi