Grein

Bjarni M. Jónsson.
Bjarni M. Jónsson.

Bjarni M. Jónsson | 10.04.2004 | 10:42Sameinumst um Vestfjarðahringinn

Mig langar að leggja orð í belg varðandi vegabætur á Vestfjörðum. Margir góðir einstaklingar hafa látið í sér heyra um þetta þjóðþrifamál og öll haft nokkuð til síns máls en fyrst og fremst sýnir þessi mikli áhugi á málefninu hvað þörfin er orðin brýn á að ljúka þessum vegaframkvæmdum sem staðið hafa yfir áratugum saman.

Sumarið 1961 fór ég mína fyrstu ferð með bifreið frá Önundarfirði til Reykjavíkur og tók sú ferð 15 klst. og þurfti að gæta sjávarfalla í Gilsfirði á leiðinni. Á þessum tíma var aðeins vestari leiðin fær og ekki búið að gera veg um Djúpið. Í dag þegar ég fer þessa sömu leið er ég mun fljótari eða um 6 klst og er það hvoru tveggja að leiðin hefur styst og vegurinn er mun betri. Ef vel er að gáð má samt þekkja suma hluta vegarins sem eru nánast þeir sömu og fyrir fjörutíu árum. Mikið hefur þó verið að gert og bera Vestfjarðagöngin, brúin yfir Gilsfjörð, Borgarfjarðarbrúin og Hvalfjarðargöngin af öðrum vegabótum að mínu mati hvað varðar styttingu vegar milli Reykjavíkur og Vestfjarða og ber að þakka þeim mönnum sem gerðu þetta að veruleika.

En betur má ef duga skal og til þess að þessar gríðarlegu fjárfestingar skili sér að fullu þarf að klára verkið og er það mitt innlegg í þessa umræðu að Vestfirðingar og aðrir landsmenn leggist á eitt og standi saman um að Vestfjarðahringnum verði lokið sem fyrst og á ég þar við að samtímis verði farið í að gera svokallaða Stranddalaleið, göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og göng undir Dynjandisheiði, ásamt nauðsynlegum vegum. Hættum að þrátta um hvora leiðina eigi að ljúka við fyrst og sameinumst um Vestfjarðahringinn.

Það ætti að vera forgangskrafa hjá okkur Íslendingum að lokið verði við uppbyggingu á grunngatnakerfi landsins með bundnu slitlagi þannig að það sé okkur til sóma og einnig til að draga úr slysahættu fyrir okkur sjálf og alla þá erlendu ferðamenn sem eiga eftir að heimsækja landið og eina skærustu perlu þess, Vestfirði.

Einhver kynni að segja sem svo að þetta kosti svo mikla peninga og er það alveg rétt en það er ekki nauðsynlegt að þeir Íslendingar sem nú eru á lífi borgi brúsann að fullu því þessi vegur verður vonandi notaður af börnum okkar, barnabörnum og þeirra börnum og því ekki óeðlilegt að dreifa greiðslu á kostnaði.

Bjarni M. Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi