Grein

| 23.05.2001 | 11:50Smábátamenn, róið og fiskið!

Það er stórfurðulegt hvað menn eru fljótir að gleyma uppruna sínum þegar þeir flytja á suðvesturhorn landsins. Þetta á t.d. við um Kristján Pálsson alþingismann sem er í flokki þeirra sem vilja setja kvóta á smábáta og leggja þannig grunn að hruni landsbyggðarinnar. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að öflug landsbyggð er hagur höfuðborgarinnar og sterk höfuðborg er hagur landsbyggðarinnar.
Ef landsbyggðin hrynur fækkar þjónustustörfunum við hana og atvinnuleysi og samdráttur mun eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Sama má segja um þá stefnu stjórnvalda að fækka í sveitum og styrkja byggðakjarnana. Það ætti frekar að styrkja sveitirnar, þá eflast byggðakjarnarnir sjálfkrafa með ýmsum þjónustustörfum við þær.

Það er íhugunarefni hvernig framsal kvótakerfisins er talið löglegt á sama tíma og sambærilegur gjörningur brýtur í bága við lög. Tökum dæmi:

Ef ég stel tölvu frá Kristjáni og sel Jóni Jónssyni tölvuna, þá kemur lögreglan og tekur tölvuna af Jóni og lætur Kristján fá hana aftur. Ég yrði að sjálfsögðu dæmdur en Jón Jónsson yrði væntanlega af peningunum sínum þar sem ég væri búinn að eyða þeim.

Á hinn bóginn hafa menn komist upp með að selja lögbundna eign þjóðarinnar einhverjum Jónum án þess að skorist sé í leikinn og verðmætunum skilað til réttra eigenda, þ.e. þjóðarinnar. Þetta er að mínu mati mesti glæpur Íslandssögunnar.

Að stela og selja lífsbjörg heilu byggðarlaganna er hneisa fyrir stjórnvöld, hver sem þau eru, meðan þau láta slíkt viðgangast. Og það er glæpur stjórnvalda að stuðla að því með ólögum að leggja í auðn ævistarf fjölda fólks svo það verður að flýja heimabyggð sína vegna þess að einhver maður í öðrum landshluta eignar sér fiskinn sem syndir í sjónum. Það væri þá lágmarkskrafa að hann uggamerkti fiskinn eins og bændur verða að eyrnamerkja fé sitt. Að öðrum kosti er þetta almenningseign sem allir mega nytja á skynsaman hátt, án brottkasts og skaðlegra veiðarfæra.

Það er áskorun mín til alls landsbyggðarfólks að fylkja sér saman og gera uppreisn gegn þessu kerfi og ólýðræði sem viðgengst í sjávarútvegsmálum Íslendinga.

Ef kjörnir þingmenn setja ólög sem bitna á þjóðarheildinni og lýðræðinu eru þeir ekki lengur þingmenn fólksins í landinu. Þá eigum við að bregðast við sem frjálsir menn en ekki sem þrælar.

Smábátasjómenn, róið og fiskið. Það er ykkar réttur þó svo að ráðstjórnin, sem settist hér að þegar Sovétríkin hrundu, setji á ykkur kvótaólög. Þið megið altént veiða þann afla sem ég á lögbundinn í stjórnarskrá. Þann afla harðbanna ég sjálfskipuðum kvótasægreifum að nýta. Látum ekki eftirfarandi lengur yfir okkur ganga.


Kvótakerfið

Í heimi hörðum
haustar að,
fólk í fjörðum
finnur það.
Hafsins hetjur
halda á mið,
aflann étur
auðvaldið.

Bjargir brenna,
blekkt er þjóð,
rentur renna
í ríkra sjóð.
Þjóðin þrælar,
þögul, þreytt.
Harðir hælar
hlífa ei neitt.

Fátækt fer um
fold og mar,
sultur sér um
sálirnar.
Fæðu er fegnast
fólkið þreytt,
örbirgð eignast
aldrei neitt.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi