Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 06.04.2004 | 13:26Fjórðungssambandið og skoðanakönnunin

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur birt útkomu úr skoðanakönnun sem það fékk Háskólann á Akureyri til að gera fyrir sig um samgöngumál í fjórðungnum. Niðurstaðan úr þessari svokölluðu skoðanakönnun er það arfavitlaus, að ekki verður hjá því komist að að gera athugasemd. Ég fer fram á, að spurningarnar sem lagðar voru fyrir þátttakendur verði birtar eins og þær voru bornar upp. Það hlýtur að hafa verið eitthvað bogið við þær.

Ég vil ekki trúa því að mikill meirihluti Vestfirðinga sé orðinn það villtur í þokunni, að þeir vilji heldur að vegirnir liggi yfir fjöll heldur en í gegnum fjöll og það skipti þá ekki máli hve langan tíma það tekur að aka til Reykjavíkur. Vestfirðingar eru engin fífl þó að Fjórðungssamband Vestfirðinga vilji koma þeim stimpli á þá með aðstoð Háskólans á Akureyri.

Þegar Valgerður Sverrisdóttir vildi búa til höfuðborg fyrir landsbyggðina, og að sjálfsögðu á Akureyri eða Grenivík þá lét ég hafa eftir mér: „Má ég þá heldur biðja um góðu gömlu Reykjavík.“ Þetta stendur enn. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Reykjavík okkar höfuðborg og þangað þurfum við að komast á sem stystum tíma. Um þetta erum við sýslumaðurinn á Patreksfirði sammála. Þetta er ein af forsendum þess að fólk vilji setjast hér að. Það er engin goðgá og það þarf ekki neinar stjarnfræðilegar upphæðir að koma til, svo að við hér á þessu svæði gætum komist landleiðina á löglegum hraða suður að Faxaflóa á fjórum tímum og þeir sem keyra á ólöglegum hraða yrðu aðeins 3 tíma. Vestfirðir eru eini fjórðungurinn sem gæti státað af láglendisvegi allar götur til Reykjavíkur.

Það væri óskandi að við hættum að berja hausnum við steininn, en til að svo megi verða þurfum við að losna við Fjórðungssambandið. Fjórðungssamband Vestfirðinga er nátttröll sem löngu hefur dagað uppi. Nú hefur það skipað starfshóp til að endurskoða vegaáætlun fyrir Vestfirði. Þetta hefur verið nokkuð árviss atburður síðustu 30-40 árin og hver er svo niðurstaðan. Svarið er engin. Það hefur verið stanslaus rígur milli norður og suður svæða Vestfjarða allan þennan tíma og aldrei meiri en nú. Niðurstaða funda Fjórðungssambandsins hefur ávallt verið einhver málamiðlunar sull sem enginn tekur mark á og aldrei verið unnið eftir sem betur fer.

Fjórðungssamband Vestfirðinga var mjög merk stofnun og þörf á sínum tíma en allar götur síðan Jóhann T. Bjarnason hætti hefur það hvorki verið fugl né fiskur. Nú eru breyttir tímar og þess ekki þörf lengur. Vinsamlegast áttið ykkur á þessu sveitarstjórnarmenn og leggið það niður. Þið getið haft veglegt lokaslútt ef ykkur sýnist svo. Það tekur enginn lengur mark á ályktunum, sem frá Fjórðungssambandinu koma. Nú hefur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða tekið að sér daglegan rekstur Fjórðungssambandsins og fær fyrir það nokkrar milljónir en ég vil spyrja, hvað fellst í daglegum rekstri Fjórðungssambandsins? Var ekki nær að nota nú tækifærið og leggja það niður?

Eigum við samleið?

Það er löngu tímabært að gera sér grein fyrir því að norður og suðursvæði Vestfjarða þ.e. Ísafjarðarsvæðið og Vesturbyggðarsvæðið eiga enga samleið hvorki í vegamálum né hvað þjónustu varðar. Varðandi vegamálin vil ég góðfúslega fara þess á leit að þeir sunnan menn láti okkur í friði. Við þurfum ekkert á þeirra ráðum að halda til að ákveða bestu og stystu leiðir frá okkur til Reykjavíkur. Að reyna að ná einhverjum sameiningarleiðum er löngu fullreynt og hefur tafið alla ákvarðanatöku í vegamálum.

Við hér norðanmenn höfum aldrei verið að skipta okkur af því hvaða leiðir eru stystar og bestar fyrir ykkur í Barða-byggð. Við treystum ykkur sjálfum best fyrir því og ekki ætlum við að hafa vit fyrir ykkur en í Guðs bænum hættið að ráðskast með okkur með sýslumann ykkar í broddi fylkingar. Það virðist vera sjúkleg árátta hans að koma í veg fyrir að við hér á norðursvæðinu fái almennilega vegi og þar sem við viljum hafa þá. Til að reyna að ná sínu fram hefur hann boðað til aukaþinga Fjórðungssambandsins í krafti þess að hann er formaður samgöngumálanefndar Fjórðungssambandsins en aldrei haft erindi sem erfiði.

Hvað þjónustuna varðar er það aldeilis út í hött að halda því fram að sunnanmenn sæki einhverja þjónustu hingað norður. Þórólfur sýslumaður lýsti því yfir í einni grein sinni að hann hefði ekkert að sækja á Ísafjarðarsvæðið nema til að fara í gleraugnabúð. Hversvegna gleraugnabúð? Ég skil ekki brandarann eða sneiðina. Við höfum að vísu ágætis gleraugnabúð hér á Ísafirði en Þórólfur minn, farðu bara til Reykjavíkur ef þig vantar gleraugu, sem mér sýnist á öllu að þig vanti, eftir að hafa lesið þín síðustu skrif um vegamál okkar Ísfirðinga, sem ég nenni ekki að svara. Þau eru ekki þess virði. Mér sýnist samt að þú sért að gera grín að okkur hér á þessu svæði og það er okkur Ísfirðingum ákaflega illa við.

Íbúar Reykhólahrepps hafa lýst því yfir að þeirra hugur til sameiningar sé til suðurs og lái
ég þeim ekki, því það eru ekki nema 180 km. frá Króksjarðarnesi til Reykjavíkur og Búðardalur er við bæjardyrnar hjá þeim. Hvað ættu þeir svo að sækja hingað? Hólmvíkingar og Strandamenn hafa verið í ágætu vegasambandi við Ísafjarðarsvæðið um árabil en sækja ekkert hingað. Það hafa ýmsir tekið skakkan pól í hæðina og er nú kominn tími til að viðurkenna það.

Þröngsýni er slæmur eiginleiki, ekki síst í vegamálum sem varða hvert byggðalag svo mjög. Látum af öllum sameiningar hugmyndum og viðurkennum staðreyndir. Við eigum enga samleið í þessum efnum. Í vegamálum ættum við að leggja áherslu á sem stystan tíma til Reykjavíkur. Hjá okkur á Ísafjarðarsvæðinu er markmiðið fjórir tímar. Það næst með lálendisvegi allar götur til Reykjavíkur í gegnum tiltölulega stutt jarðgöng á réttum stað. Þetta mál hefur áður verið reifað og útfært af kunnáttumönnum og er enginn fjarlægur draumur, ef réttar ákvarðanir eru teknar.

Hvað Barða-byggð varðar ætla ég ekki að ráðskast með þá og þeirra hagsmuni það geta þeir örugglega gert sjálfir en ég óska þeim velfarnaðar í vegamálum, sem og í öðrum málum. Við erum jú allir Vestfirðingar og megum vera stoltir af því. Við getum staðið saman í málum þar sem við eigum samleið en við eigum bara ekki samleið í öllum málum.

4. apríl 2004, Jón Fanndal Þórðarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi