Grein

Gunnlaugur Á. Finnbogason.
Gunnlaugur Á. Finnbogason.

| 22.05.2001 | 14:15Útfararstjóri fundinn!

Um fátt hefur verið meira rætt í vetur, en fyrirhugaða kvótasetningu á ýsu, ufsa og steinbít og þær geigvænlegu afleiðingar fyrir byggðirnar hérna á Vestfjörðum sem kvótasetning ylli.
Á síðustu dögum þingsins voru menn orðnir nokkuð bjartsýnir á að lögunum yrði frestað, enda meirihluti fyrir frestun bæði í sjávarútvegsnefnd og á Alþingi. Þá kemur reiðarslagið, Einar K. Guðfinnsson formaður sjávarútvegsnefndar og þingmaður Vestfirðinga, neitar að halda fund í sjávarútvegsnefnd (eins og fram kom í máli Jóhanns Ársælssonar á Alþingi á laugardagskvöldið 19. maí síðastliðinn) þrátt fyrir að margoft hafi verið óskað eftir fundi nefndarinnar. Einar K. Guðfinnsson hefði ekkert annað þurft að gera en að kalla saman sjávarútvegsnefnd, þar hafði frestunartillagan meirihluta atkvæða og þá hefði hún farið fyrir Alþingi þar sem hún hafði einnig meirihluta atkvæða. Einar treysti sér hinsvegar ekki í lýðræðislegar aðgerðir og neitaði að boða þennan fund.

Ég get ekki séð annað en stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum Vestfjarða sé orðin alveg skýr. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að leggja Vestfjarðakjálkan í eyði.

Að lokum skora ég á Einar K. Guðfinnsson að segja af sér þingmennsku fyrir Vestfirðinga svo hann geti einbeitt sér að útfararstjórn á öðrum vígstöðvum.

–Gunnlaugur Á. Finnbogason, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi