Grein

Pétur Bjarnason.
Pétur Bjarnason.

| 17.05.2001 | 14:16Gamlar glefsur

Að alast upp á Ísafirði á kreppuárunum milli stríða var ekki svo slæmt, þó flest af þeim afþreyingarmöguleikum sem nú þykja nauðsynlegir væru ekki fyrir hendi. Alltaf var nóg að gera.
Áður en bátahöfnin var byggð var gömlu bátunum alltaf lagt við akkeri á Pollinum milli vertíða meðan verið var að þrífa þá og mála undir næstu vertíð. Það þýddi að hver bátur hafði sína jullu til þess að fara milli skips og fjöru. Við fengum því oft að róa með kallana og það sem þeir þurftu að nota og fengum í staðinn að leika okkur á jullunum en vera þó alltaf í kallfæri ef þeir þurftu að nota bátinn. Einnig fengum við oft lánaða prammana á kvöldin, þó stundum væri lánsheimildin ekki sem traustust. Einnig komu oft norskir selfangarar með tunnu í formastrinu og þá var aðalsportið að verða fyrstur til þess að klifra upp í tunnuna.

Á sumrin var fótboltinn. Hörður og Vestri störfuðu af miklum krafti og skiptu bæjarbúum í harðar fylkingar. Helstu fyrirmenn í Herði voru Leósbræður en í Vestra voru synir Ólafs Kárasonar efstir á blaði á þeim tíma. Þegar Hörður og Vestri kepptu mátti sjá virðulegustu bæjarbúa steyta hnefa og stappa niður fótunum þegar þeir hvöttu sína menn. Og frúrnar létu líka vel í sér heyra, því segja mátti að hvert hús í bænum tæmdist þegar kappleikur var. Allir flykktust á völlinn, berandi börnin á handleggnum eða akandi þeim í vögnum. Á veturna voru svo skíðin, ásamt með skautum og jakahlaupi, en það áttu ekki allir skíði og barnmargar fjölskyldur höfðu alls ekki efni á að kaupa skíði á allan hópinn.

Þegar skólaskíðin komu

En allt í einu voru keypt mörg pör af skíðum, sem voru í vörslu Guðmundar frá Mosdal handavinnukennara, sem voru síðan lánuð út til þeirra sem ekki áttu skíði. Þau voru kölluð skólaskíði. Ég veit ekki hver var frumkvöðullinn að þessu framtaki en ég held að það hafi verið bæjarstjórnin. En hver sem það var, þá lyfti þetta framtak svo undir áhuga á skíðaíþróttinni, að allir gátu farið á skíði. Þar með kviknaði sá neisti sem leiddi af sér Skíðavikuna, sem síðar færði Ísfirðingum hvern Íslandsmeistarann á fætur öðrum, bæði karlaflokkum og kvennaflokkum, bæði í göngu og svigi.

Leifur heppni

Ég ólst upp á barnmörgu heimili. Við vorum tólf, alsystkinin. Pabbi var togarasjómaður fyrst framan af og fór á vertíðir suður á veturna. Þar voru bæði betri og öruggari tekjur en á bátunum heima, sem hafði fækkað mikið eftir síldargjaldþrotin fyrst á áratugnum. Pabbi var lengi á togaranum Leifi heppna með Gísla Oddssyni frá Sæbóli á Ingjaldssandi, ásamt fleiri Vestfirðingum, til dæmis Jóni Hálfdánarsyni, afa þeirra Kristmannsbræðra, og Oddi Rósmundssyni frá Stakkanesi. Foreldrar Gísla voru þá fluttir til Ísafjarðar og áttu heima í Sundstræti 29. Ef Leifur heppni var á Vestfjarðamiðum þegar brældi, þá kom Gísli oft inn á Ísafjörð og heimsótti gömlu hjónin. Þess vegna var hagstætt fyrir fjölskyldumenn frá Ísafirði að vera með Gísla og auk þess aflaði hann alltaf vel.

Í þetta sinn komu þeir á Leifi með fullfermi af saltfiski af Selvogsbanka til Reykjavíkur. Pabbi ásamt fleiri fór í land til þess að síma heim og frétti þá að mamma væri veik og lægi í rúminu. Hann frétti líka að einhver Fossinn ætti ferð vestur um kvöldið. Hann fór því og hitti Gísla og spurði hvort hann gæti gefið sér frí einn túr, svo að hann gæti gert einhverjar ráðstafanir með heimilið því konan væri ein með fimm börn. Far þú bara vestur, Bjarni minn, sagði Gísli. Ég fer vestur á Hala í næsta túr og þegar hann brælir, þá kem ég inn á Ísafjörð að heimsækja gömlu hjónin og þá getur þú komið aftur um borð.

En Leifur kom aldrei til Ísafjarðar. Hann fórst á Halanum í þessum túr. Pabbi hætti þá togarasjómennskunni og fór að stunda bátana heima fyrir. Þá fóru Samvinnubátarnir að koma og síðar Hugarnir og aftur tók að færast fjör í atvinnulífið. Því fylgdi netaverkstæði þar sem pabbi fékk fulla vetrarvinnu og var á bátunum á sumrin, mest á Sæbirni hjá Ólafi Júlíussyni. Hann tók svo reknet til bætningar upp á akkorð, sem kallað var, til þess að hafa kvöld- og helgarvinnu. Ekki dugði dagvinnan á verkstæðinu ein til þess að framfleyta heimilinu.

Sjóverk og sjómennska

Löngu fyrir fermingu ha


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi