Grein

Gylfi Guðmundsson.
Gylfi Guðmundsson.

Gylfi Guðmundsson. | 23.03.2004 | 13:56Um sameiningu stéttarfélaga

Í gær birtist fréttatilkynning frá stjórn FOS Vest á fréttavef BB, þar sem sagt er frá samkomulagi um sameiningu átta stéttarfélaga innan BSRB. Af þessari tilkynningu má ráða að allt sé ákveðið og geirneglt, og formsatriði fyrir félagsmenn að mæta á aðalfund n.k. laugardag til að samþykkja sameininguna, en svo tel ég alls ekki vera. Bæði hef ég athugasemdir við undirbúning þessarar sameiningar sem lengst af fór ansi leynt, því að á aðalfundi félagsins 2002, var ekki einu orði minnst á sameiningarhugmyndir, en síðar kom í ljós að þá var undirbúningur kominn á fulla ferð.

Fyrst á haustmánuðum 2003 er haldinn félagsfundur þar sem málið er kynnt félagsmönnum, þá rétt fyrir skoðanakönnun þar sem málið var lagt fram eins og í kynningarbæklingnum, að einungis voru kynntir kostirnir, en ekki einu orði minnst á gallana. Á aðalfundi félagsins í nóvember s.l. var málið ekki einu sinni á dagskrá fundarins, en eftir heitar umræður um málið undir liðnum önnur mál lagði stjórnin fram tillögu um að fá umboð til áframhaldandi undirbúnings, en þeirri tillögu var vísað frá. Eins efast ég um að stjórnin hafi haft umboð til að leggja í þann kostnað sem hlotist hefur af prentun kynningarbæklings, samráðsfundum og skoðanakönnun, því að hún er að mínu viti kosin til að vinna að hagsmunamálum félagsmanna milli aðalfunda en ekki til að leggja félagið niður. Tel ég að hún þurfi að hafa umboð aðalfundar til að fara í viðræður og undirbúning sameiningar við önnur félög, sem hún hefur alls ekki.

En hverjir eru kostir og gallar sameiningar?

Kynning stjórnarinnar sem hún hefur kynnt sem einhuga tillögur, eru það ekki, því að tveir af fimm stjórnarmönnum hafa lýst andstöðu við sameiningu. Þar kemur fram að aðalskrifstofa á að vera á Akureyri, en áfram verði þjónustuskrifstofa á Ísafirði. Það getur vel verið að það sé ætlunin, (jú Guggan átti að vera gul o.s.frv.), en ekki þarf nema einfalda aðalfundarsamþykkt til aða breyta því, en aðalfundir verða að öllum líkindum haldnir á Akureyri. Hvað fara margir af félagsmönnum frá Vestfjörðum á aðalfund á Akureyri?

Stjórnin verður kosin á aðalfundi þar sem væntanlega verða kosnir fulltrúar frá svæðisfélögum í hlutfalli við fjölda félagsmanna til að byrja með, en stóra félagið hefur alltaf sterkust áhrif og þegar fram í sækir, en hver man þá eftir háleitum hugsjónum sporgöngumanna? Það er talað um að við verðum sterkari heild í kjarasamningum, en samt er opnað á að þau félög sem ekki eru með í sameiningunni verði áfram með í Samfloti, eða Kjarna í kjarasamningum, svo að hverju breytir þá sameining?

Einnig hafa heyrst raddir um að við sameiningu þá hækki laun bæjarstarfsmanna strax um tvo til þrjá launaflokka, en það er algjör misskilningur. Í dag eru þessi félög öll með sama grunnsamninginn, en heimavinna félaganna við að semja um niðurröðun í launaflokka hefur ekki skilað sama árangri, og það breytist ekkert við sameiningu. Því verður ekki breytt fyrr en eftir að nýjir kjarasamningar eru í höfn.
Rætt er um val á fleiri orlofshúsum og íbúðum, en þegar okkar orlofshús er ekki fullnýtt, þurfum við þá að leggja félagið niður til að fá aðgang að fleiri orlofshúsum?

Mér þykir ljóst að núverandi stjórn FOS Vest hefur gefist upp, en af hverju þeir halda að félagsmönnum sé betur borgið í umsjón Akureyringa, en að ný stjórn sem hefur áhuga, og vilja til að vinna að hagsmunamálum félagsmanna taki við félaginu skil ég ekki.

FOS Vest hefur nægan félagslegan styrk til að vinna að krafti að hagsmunamálum félagsmanna sinna, en stokka þarf spilin, og kjósa nýja stjórn sem hefur kjark og dug til að vinna fyrir félagið.

Félagar í FOS Vest, fjölmennum á aðalfund félagsins n.k. laugardag, og komum í veg fyrir slys.

Gylfi Guðmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi