Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir | 05.03.2004 | 16:34Makalaus málflutningur

Undanfarið hefur margt verið rætt og ritað um útboð Ísafjarðarbæjar á akstri fatlaðra. Má á málflutningnum skilja að endemis vandræðagangur, pólitískar aflraunir og slök stjórnsýsla hafi tafið svo fyrir ákvarðanatöku að engu tali taki. Sem starfandi formaður bæjarráðs í þessu tiltekna máli vil ég gera örstutta grein fyrir gangi þess og lyktum en málið var afgreitt af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í gærkvöld, mánuði eftir að tilboð voru formlega opnuð. Hafði það þá fengið eðlilega umfjöllun félagsmálanefndar, bæjarráðs og loks bæjarstjórnar. Í opinberri stjórnsýslu telst þetta ekki langur tími. Skemmst er frá því að segja að á fundi sínum í gærkvöldi samþykkti bæjarstjórn samhljóða þá tillögu meirihlutans að ganga til viðræðna við Stjörnubíla ehf. sem áttu lægsta tilboð í verkið.

Ekki ætla ég að rekja allan feril þessa máls en upphafið er að finna í ákvörðun félagsmálanefndar á síðasta ári um að segja upp samningi við núverandi verktaka, Ferðaþjónustu Margrétar og Guðna ehf.(FMG), með það fyrir augum að bjóða verkið út. Markmiðið var að kanna til hlítar hvort mögulegt væri að lækka kostnaðinn við verkið. Samningurinn rann út nú um mánaðamótin en FMG hefur fallist á að sinna akstrinum þar til nýir aðilar taka við. Þess ber að geta að allt frá árinu 1994 hefur FMG sinnt verkinu (aðfinnslulaust) og staðfestir framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra að almenn ánægja hafi jafnan ríkt með þjónustuna meðal notenda hennar.

Þegar tilboð voru opnuð þann 4. febrúar síðastliðinn kom í ljós að Stjörnubílar ehf. ásamt FMG áttu tvö lægstu tilboðin í verkið. Munaði um tíu af hundraði á tilboðunum. Venjan í stjórnsýslu bæjarins er sú að viðkomandi fagnefndir fjalli um útboðsmál af þessu tagi og geri tillögur til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Í þessu tilfelli heyrir málið undir félagsmálanefnd sem komst einróma að þeirri niðurstöðu að taka bæri tilboði FMG þrátt fyrir að það væri ekki lægsta tilboðið. Setti nefndin fram ýmis fagleg rök máli sínu til stuðnings og hafa þau áður birst í fréttum BB. Ég vek sérstaka athygli á því að nefndin afgreiddi málið einróma; jafnt fulltrúar meirihluta sem minnihluta. Í fréttaflutningi fjölmiðla af framvindu þessa máls hefur mátt lesa milli línanna að Guðni Geir Jóhannesson, sem er annar eigenda FMG og jafnframt formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, hafi þrýst á um það innan bæjarkerfisins að tilboði hans yrði tekið. Slíkur málflutningur er makalaus og dæmir sig sjálfur.

Fundargerð félagsmálanefndar, með tillögu þess efnis að taka bæri tilboði FMG, var lögð fyrir bæjarráð 23. febrúar. Undirrituð lagði til í upphafi fundar að málinu yrði frestað til næsta fundar því ekki lágu nægjanlegar upplýsingar og undirgögn fyrir í málinu til að bæjarráð gæti tekið afstöðu. Það er á ábyrgð formanns bæjarráðs að nægjanlegar upplýsingar liggi fyrir hverju sinni. Svo var ekki í þessu tilfelli og óskaði því bæjarráð eftir frekari gögnum um málið fyrir næsta fund. Sú staðreynd að fresta þurfti málinu um viku í bæjarráði breytti engu um afgreiðsluhraða þess því málið hefði, eftir sem áður, ekki verið endanlega afgreitt fyrr en á bæjarstjórnarfundinum í gærkvöld. Allt tal um seinvirka stjórnsýslu í þessu máli er því úr lausu lofti gripið og einungis til þess fallið að þyrla upp moldviðri og skapa tortryggni. Það sama má segja um fréttaflutning BB af því sem fram á að hafa farið á fundi bæjarráðs 23. febrúar. Í frétt sem birtist 25. febrúar s.l. hefur BB eftir heimildum að það hefði verið ,,vilji meirihluta bæjarráðs að afgreiða tillögu félagsmálanefndar þrátt fyrir að bæjarráð hefði ekki nein gögn undir höndum um málið önnur en fundargerð félagsmálanefndar.“ Hér er beinlínis rangt farið með það hver umræðan var inni í bæjarráðinu og vísa ég í upphaf þessarar málsgreinar í því sambandi. Ég lít á það sem alvarlegan trúnaðarbrest ef fréttir af umræðum af lokuðum fundum bæjarráðs, um mál sem kunna að vera erfið viðfangs, leka út til fjölmiðla. Einnig þykir mér slæmt að láta skrökva upp á mig skoðunum eða afstöðu í tilteknum málum.

Málið var tekið fyrir að nýju í bæjarráði s.l. mánudag og þá lá fyrir að FMG hafði dregið tilboð sitt til baka. Bæjarráð vísaði þá málinu á ný til félagsmálanefndar með ósk um að tilboðin yrðu framlengd því ella yrðu þau runnin úr gildi þegar kæmi að afgreiðslu bæjarstjórnar á málinu. Ekki er óalgengt að slíkra framlenginga sé óskað. Félagsmálanefnd ítrekaði fyrri afstöðu sína og fór þess á leit við tilboðsgjafa að þeir framlengdu tilboð sín. Þeirri beiðni hafnaði FMG. Í framhaldi af því var því eðlilegast að leggja til við bæjarstjórn að ganga til viðræðna við Stjörnubíla ehf. og var það samþykkt.

Það á að vera markmið allra sveitarfélaga að afgreiða mál með þeim hætti að hagsmunir íbúanna séu sem best tryggðir. Nauðsynlegt er að vanda vel til verka í smáum jafnt sem stórum málum. Ísafjarðarbær hefur þetta að leiðarljósi og í þessu tiltekna máli fullyrði ég að vilji allra þeirra sem þar komu að var sá að vanda sem best stjórnsýslulega meðferð málsins, einmitt vegna þeirra hagsmunatengsla sem óneitanlega fylgja því þegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar láta að sér kveða á fleiri sviðum í samfélaginu.

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar og starfandi formaður bæjarráðs í ofangreindu máli.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi