Grein

Hörður Högnason.
Hörður Högnason.

Hörður Högnason | 03.03.2004 | 18:44Fjöldahjálp og heimsóknarþjónusta á Ísafirði

Starf Rauð kross deilda vítt um land er missýnilegt almenningi, en allar sinna þær fjölbreyttum verkefnum á sviði hjálparstarfa, fræðslu, neyðarvarna og félagslegs stuðnings í heimahéraði. Flestar eru þær í vináttu- og samstarfstengslum við Rauða kross deild erlendis, t.d. í Balkanlöndunum og Afríku, sem þurfa á stuðningi að halda til að geta sinnt aðkallandi verkefnum á heimaslóðum sínum.

Hér eru kynnt 2 verkefni sem lögð hefur verið áhersla á að efla í vetur á starfssvæði Ísafjarðardeildarinnar, þ.e. í Skutulsfirði og Hnífsdal. Annað snýr að starfrækslu fjöldahjálparstöðvar fyrir almannavarnarnefnd Ísafjarðarbæjar, þegar hættu- eða neyðarástand ríkir. Þar vantar sjálfboðaliða til hjálparstarfa. Hitt er heimsókarþjónusta fyrir þá sem eru einmana, eiga erfitt með að yfirgefa heimili sitt, eru fatlaðir eða aldraðir. Til reiðu er nóg af þjálfuðum sjálfboðaliðum fyrir þá sem þjónustuna vilja þiggja.

Fjöldahjálparstjórar
Fjöldahjálparstjórar eru sjálfboðaliðar sem hafa sótt sérstakt 2 daga námskeið í fjölda- og félagslegu hjálparstarfi, þegar hópslys eða önnur neyð hefur dunið yfir. Auk þess sækja þeir námskeið í almennri skyndihjálp og annað í sálrænni skyndihjálp (fyrsta stigi áfallahjálpar). Námskeiðin eru ókeypis, að sjálfsögðu.

Í fjöldahjálparstöðinni taka þessir sjálfboðaliðar á móti ósárum fórnarlömbum, þeim sem neyðst hafa til að yfirgefa heimili sín, aðstandendum þeirra og aðstandendum ófundinna, slasaðra, eða látinna einstaklinga. Þeir skrá þessa einstaklinga í spjaldskrá, hvaðan þeir koma og hvert þeir hyggjast fara. Þeir leita að ættingjum, sameina sundraðar fjölskyldur og gefa upplýsingar um afdrif ástvina. Þeir finna þessum aðilum samastað til bráðabyrgða, afla þeim fæðis og nauðsynlegra klæða og veita fjárstuðning ef þörf krefur.

Í stöðinni er starfrækt eldhús fyrir ofangreinda og jafnvel björgunar- og hjálparsveitir líka, ef Almannavarnarnefnd óskar þess.

Þar er gert ráð fyrir barnagæslu, leiksvæði fyrir börn, hvíldaraðstöðu fyrir skjólstæðinga stöðvarinnar og gæslu á verðmætum í þeirra eigu. Síðast en ekki síst, er gert ráð fyrir viðtalsherbergi fyrir presta og einnig aðstöðu fyrir sálræna skyndihjálp og áfallahjálp sem fjöldahjálparstjórar og sérhæfð áfallateymi veita.

Flest útköll fjöldahjálparstjóra til starfa á undanförnum árum hafa verið minniháttar, þar sem oftast hefur verið um að ræða rýmingar húsa vegna snjóflóðahættu. Þá hafa fáeinir þurft að mæta í fjöldahjálparstöð í 1-2 klst. til að skrá viðkomandi “flóttamenn”, koma þeim fáu í húsaskjól, sem ekki fóru til vina eða ættingja og bjóða þeim, sem litu við kaffitár og með því.

Snjóflóðin í Súðavík og Flateyri 1995 kölluðu aftur á móti á meiri háttar og langvarandi fjöldahjálp, þar sem öllu var tjaldað til. Í síðara tilfellinu þurftu fjöldahjálparstjórar frá Ísafirði að fara til Flateyrar og aðstoða önfirska kollega í starfrækslu fjöldahjálparstöðvar eins og ráð er fyrir gert.

Í vor verður á Ísafirði viðamikil flugslysaæfing. Þar er að sönnu gert ráð fyrir meiriháttar fjöldahjálp. Í tilefni þess að Rauða kross deildin hefur fengið leyfi til þess að skipuleggja nýja fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Ísafirði, er þörf á að stórfjölga þjálfuðum fjöldahjálparstjórum. Þeir sem áhuga hafa á að gerast fjöldahjálparstjórar, eða sjá af framansögðu, hvar þeir gætu komið til aðstoðar eru beðnir að hafa samband við Svæðisskrifstofu Rauða krossins á Ísafirði, s: 456 3180, netfang: vestfirdir@redcross.is eða netfang deildarinnar: isafjordur@redcross.is.

Heimsóknarþjónusta
Öll höfum við þörf fyrir mannlega snertingu og félagsskap. Maður er manns gaman. En það er misjafnt hvort við berum okkur eftir hjálpinni. Bæði aðstæður og upplag geta orðið til þess að fólk missir samband við umheiminn og einangrast. Einsemd getur orðið vítahringur sem erfitt er að rjúfa.

Heimsóknarþjónusta er eitt af áhersluverkefnum Rauða kross Íslands samkvæmt samþykktum aðalfundar á Ísafirði árið 2000. Heimsóknarþjónusta Ísafjarðardeildar hófst á liðnu ári. Stór hópur áhugasams fólks sótti sérstakt námskeið hjá Rauða krossi Íslands og er reiðubúinn til starfa. Þeir sem heimsókna njóta í dag eru afar ánægðir með hana.

Allir sjálfboðaliðarnir eru bundnir þagnarskyldu. Vitneskja um persónulega hagi fer ekki lengra. Mikilvægt er að geta hlustað, talað við fólk á rólegum nótum og tekið hverjum og einum eins og hann er.

Heimsóknarvinur heimsækir skjólstæðing sinn að öllu jöfnu einu sinni í viku, klukkustund í senn. Fyrirkomulag heimsóknarinnar er samkomulag en oftast spjallar fólk saman yfir kaffibolla eða fer í gönguferðir. Einnig getur heimsóknarvinur lesið fyrir viðkomandi eða tekið í spil.

Gagnstætt fjöldahjálpinni hefur Ísafjarðardeildin nóga heimsóknarvini, en hefur kannski ekki kynnt þjónustuna nægjanlega vel. Þeir sem áhuga hafa á að eignast heimsóknarvin er bent á að hafa samband við Svæðisskrifstofu Rauða krossins á Ísafirði, s: 456 3180, netfang: vestfirdir@redcross.is eða netfang deildarinnar: isafjordur@redcross.is.

– Hörður Högnason
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi