Grein

| 08.05.2001 | 11:54Vandi neytandans ...

Ég vil byrja á því að þakka Hlyni Snorrasyni lögreglufulltrúa fyrir pistil sinn þar sem hann fjallar um ákveðið ólöglegt fæðubótarefni sem selt hefur verið hér á landi undanfarin ár. Pistill hans er ritaður að gefnu tilefni og finnst mér aldrei of nægilega brýnd þau varnaðarorð sem hafa skal um slíkt. Mættu fleiri feta í fótspor Hlyns til að upplýsa almenning. Ég er að öllu leyti sammála því sem Hlynur setur fram í pistli sínum nema því sem fram kemur í niðurlagi pistilsins.
Rétt er, að fólk skal ávallt ráðfæra sig við fagfólk og/eða sinn lækni telji það sig þurfa á fæðubótarefnum að halda. Þar sem Hlynur er að tala um fæðubótarefni í pistlinum læt ég liggja á milli hluta hvort tala eigi við næringarfræðinga, heilsugæslufólk eða lyfsala, því í nútímaþjóðfélagi eru og verða alltaf hagsmunaárekstrar og hverjum þykir sinn fugl fagur. Mikilvægt er að halda allri þessari umræðu um fæðubótarefni á faglegum grunni til að fyrirbyggja það að hún endi í óefni.

En síðasta setning pistilsins er það sem fær mig til að gera þessa athugasemd. Þar stendur orðrétt: „Ef lyfið er ekki hægt að fá í apótekum, verslunum eða sérstökum heilsuvöruverslunum má ætla að efnið sé ólöglegt og því hættulegt.“ Hér segir hann „lyfið“ en það er ekkert verið að fjalla um lyf, heldur ákveðið „fæðubótarefni“. Má vera að þar sé um orðavíxl að ræða þar sem hann segir „efnið“ annars staðar í sinni grein. Efnið sem hann fjallar um veit ég ekkert um hvort skilgreint sé sem fæðubótarefni eða eitthvað annað. Lyf eru yfirleitt ekki seld í verslunum eða sérstökum heilsuvöruverslunum. Þá komum við að kjarna málsins.

Samkvæmt lögum er innflutningur á hvers konar fæðubótarefnum óheimill og er háður eftiliti hins opinbera, Lyfjastofnun, sem áður var Lyfjaeftirlit ríkisins. Lyfjastofnun tekur erindi innflytjenda til umfjöllunar og samþykkir eða hafnar sölu og dreifingu á viðkomandi vöru hér á landi. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er nóg að fá einhver „vörumerki“ samþykkt, heldur er hver og ein vörutegund skoðuð fyrir sig. Vörur sem eru fullkomlega löglegar í Bandaríkjunum, Englandi eða Þýskalandi geta verið ólöglegar hér á landi. Fer það allt eftir þeim lyfjalögum sem gilda í hverju landi fyrir sig. Öll efni sem ekki hafa verið samþykkt hjá Lyfjanefnd eru ólögleg og er því óheimilt að selja þau og /eða dreifa þeim hér á landi.

Öll þau fæðubótarefni sem Lyfjastofnun hefur samþykkt eru ekki háð þeim skilyrðum að aðeins sé hægt að fá þau í „apótekum, verslunum eða sérstökum heilsuvöruverslunum“, annars megi ætla að efnið sé „ólöglegt og því hættulegt“. Dreifing löglegra fæðubótaefna sem Lyfjastofnun hefur samþykkt getur farið fram með fjölmörgum hætti, þar með talið í þeim verslunum sem Hlynur talar um. Í nánast hverri líkamsræktarstöð er til dæmis hægt að fá keypt fæðubótarefni, einstaklingar flytja beint inn lögleg fæðubótarefni og selja þau heima hjá sér og nokkrar tegundir hafa verið seldar hér á landi undir svokölluðu fjölþrepa markaðskerfi. Annað hef ég ekki við pistil Hlyns að athuga.

Vandi neytandans er hins vegar sá að hann veit ekki sjálfur hvort þau efni sem hann er að kaupa eða neyta séu lögleg eða ekki. Honum getur verið boðið nánast hvað sem er og sagt að það sé löglegt en ekkert minnst á að það sé ólöglegt á Íslandi. Til að vera alveg viss þá getur neytandinn kannað hvort þau efni sem standa honum til boða séu með leyfi hér á landi eða ekki. Einfaldast er að leita til Lyfjastofnunar (www.ler.is) um erindið og fá úr því skorið. Þau fæðubótarefni sem fengið hafa tilskilin leyfi frá Lyfjastofnun um sölu og dreifingu hér á landi getur hann treyst og þarf því ekki að eltast við efni sem eru bönnuð. Því í flestum tilfellum eru til lögleg fæðubótarefni sem gera nákvæmlega sama gagn og þau ólöglegu.

Að lokum ítreka ég enn og aftur þakkir mínar til Hlyns fyrir pistilinn.

Jóhannes B. Ingason, rekstrarfræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi