Grein

Smári Haraldsson.
Smári Haraldsson.

Smári Haraldsson | 09.02.2004 | 18:20Þankabrot um höfuðborgarsvæðið og þjóðvegi á Vestfjörðum

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður og baráttumaður fyrir bættum samgöngum, skrifaði grein í BB miðvikudaginn 4. febrúar s.l. Greinin var um hið nýja skipurit Vegagerðarinnar og áherslur í samgöngumálum. Við lestur greinarinnar kom enn einu sinni upp í huga mér það tvennt sem hefur angrað mig um alllangt skeið, án þess að ég hafi nennt að skrifa um það. Margur hefur þó orðið að hlusta á mig þusa um bæði þessi mál, jafnvel áður en sá hinn sami hefur komið brýnum erindum sínum að.
Þetta eru reyndar tvö óskyld mál, sem tengjast þó í þessu tilviki. Annars vegar er það spurningin um hvað sé höfuðborgarsvæði og hins vegar breidd nýju veganna hér á Vestfjörðum. Og vegna þess að ég er sestur við skriftir á annað borð ætla ég að ,,kommentera? á eitt atriði í grein Þórólfs. Minna má það varla vera þar sem hún var kveikjan að þessum skrifum.

Hvað er höfuðborgarsvæðið?

Ég man ekki eftir að hafa séð skilgreiningu á því hvaða landsvæði teljist til höfuðborgarsvæðisins. Í mínum huga er alveg augljóst að til höfuðborgarsvæðisins telst að minnsta kosti allt það svæði sem er í einnar klukkustundar akstursfjarlægð frá miðborg Reykjavíkur. Höfuðborgarsvæðið nær því um allt Reykjanes, upp í Borgarnes og austur á Selfoss. Borgarfjörðurinn og svæðið austan Selfoss eru þá á jöðrum höfuðborgarsvæðisins. Þegar Vegagerðin setur niður miðstöðvar á Akureyri, Selfossi, Borgarnesi og Reykjavík eru því þrjár miðstöðvanna á höfuðborgarsvæðinu og ein úti á landi.

Breidd veganna á Vestfjörðum

Ég hef lengi undrast það hvað nýju tvíbreiðu vegirnir á Vestfjörðum eru hafðir mjóir. Hugsanlega er slitlagið nægilega breitt, en utan við það eru engar vegaxlir. Þetta á jafnt við vegi á sléttlendi sem í bröttum hlíðum. Ferðafólk með hjólhýsi og tjaldvagna hefur m.a kvartað yfir þessu og sagst vera dauðhrætt að mæta stórum flutningabílum á þessum vegum. Ég hef tekið eftir því að víða annars staðar eru nýir vegir mun breiðari og með góðum vegöxlum, svo sem norður í Öxarfirði. Fyrir utan hvað erfitt er að mæta stórum bílum á þessum mjóu vegum, finnst mér að það hljóti að vera mikið öryggisatriði í hálku að hafa góðar vegaxlir. Þær standa oft uppúr í hálkunni. Fróðlegt væri að heyra skýringar Vegagerðarinnar á þessu.

Vesturleiðin eða Djúpið?

Þórólfur Halldórsson er eins og flestir vita mikill áhugamaður um uppbyggingu Vesturleiðarinnar, þ.e leiðarinnar út af Vestfjarðakjálkanum frá Ísafirði og um Dýrafjörð, Arnarfjörð og Barðaströnd. Með uppbyggingu þessarar leiðar myndi m.a. tengjast saman svokallað norður- og suðursvæði Vestfjarða.

Ekki ber að draga úr því óhagræði sem stafar af erfiðum samgöngum á milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða. Mín skoðum er þó sú að menn verði að halda sig við núgildandi stefnumörkun sem felst í því að ljúka Djúpvegi jafnhliða uppbyggingu vegar við norðanverðan Breiðafjörð. Ennfremur tengingu Stranda og Reykhólahrepps með Stranddalaleið og síðan hringtengingu um Vestfirði með því að tengja saman norður- og suðursvæðið. Vonandi verða næstu jarðgöng, sem komast á framkvæmdaáætlun, á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Þórólfur færir rök fyrir sínum hugmyndum með því að ímynda sér tvo menn sem legðu upp frá Ísafirði á sama tíma. Þegar annar væri kominn til Reykjavíkur væri hinn að komast yfir Holtavörðuheiði. Þetta má vera satt og rétt. Vandamállið er bara það að sá síðarnefndi yrði að bíða í 20 ár eftir að leggja af stað. Þetta er nákvæmlega mergurinn málsins. Við á norðursvæðinu getum ekki beðið eftir að tvenn jarðgöng og aðrar vegabætur á Vesturleiðinni komist í gagnið. Leiðin um Djúpið er langt komin þannig að fjárhagslega skiptir litlu máli héðan af hvort Djúpveginum verður lokið eða ekki áður en raðist verður í tengingu norður- og suðursvæðis. Sú leið verður varla fullbúin fyrr en eftir 20 ár.

Smári Haraldsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi