Grein

Þorsteinn Árnason.
Þorsteinn Árnason.
Verklagsregla 630.
Verklagsregla 630.

Þorsteinn Árnason | 13.01.2004 | 08:52Hugleiðing um samgöngur á Vestfjörðum

Það hefur töluvert verið skrifað um samgöngumál að undanförnu, og er það vel. Þó rekur maður upp stór augu þegar menn fara að tala eins og Vestfirðingar séu bara á norðanverðum Ströndum og við Djúp, eins og skilja mátti á skrifum Jóns Halldórssonar frá Hólmavík. Hann minnist einnig á að það hafi tekið 20 ár að koma því í hausinn á ráðamönnum, að leggja veg um Steingrímsfjarðaheiði. Það er mergur málsins, þetta tekur allt óheyrilega langan tíma. Þess vegna megum við ekki vera að agnúast hvert út í annað, heldur snúa bökum saman. Það er nefnilega líka til framsýnt fólk sem sér að göng eru mikið betri kostur en fjöll og firðir, til að byggð geti þróast eðlilega. Það er orðið talsvert knýjandi að fá göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar auk lagfæringar á Dynjandisheiði, til að Vestfirðir geti myndað eina heild. Í dag er þetta algjörlega óviðunandi, og kem ég betur að því í lok þessara skrifa minna.
Það horfir svolítið undarlega við að við skulum vera komin á 21. öldina og búa enn við vegi og þjónustu, eins og boðið er uppá hér sumstaðar um Vestfjarðakjálkann. Allt þokast þetta í rétta átt skyldi maður halda. Eða hvað? Það virðist þó þurfa endalaust að hamra á okkar ágætlega menntuðu vegagerðarverkfræðingum, sem ennþá virðast „míga uppí vindinn“ þrátt fyrir langa skólagöngu. Finnst mönnum það ekki svolítið kaldhæðnislegt að splunkunýr vegur um Klettsháls skuli verða ófær fyrstur vega á Vestfjörðum, þrátt fyrir snjóleysi sem af er, ja... ef frá er talið „einstigið“ um Hrafnseyrarheiði. Þetta virðist mér vera slæmur minnisvarði vegagerðarforustunnar, og bera vott um heimsku og dramb.

Það er sjálfsagt eins og vant er, ekki er farið eftir þeim sem betur vita og þekkja aðstæður. Þarna hefðu tiltölulega stutt göng breytt öllu. Látum þetta nú vera, það er búið og gert. Áfram skal haldið og vegur endurnýjaður áfram til austurs. Þá byrjar glíman að nýju, og enn vill vegagerðarforustan, „míga uppí vindinn“, þótt almúginn segi þeim að snúa sér undan. Og þið sem látið ykkur detta í hug að lagfæra gamla vegin austur Hálsana vil ég segja: Verið ekki að eyða peningum okkar í þau vegastæði, heldur sýnið nú þá framsýni sem þarf. Farið að vilja fólksins sem þarf að nota þessa vegi. Þverið Gufufjörð og Djúpafjörð eða farið með veginn í göng úr Kollafirði í botn Gufufjarðar. Þá þarf bara að fara yfir Djúpafjörð og síðan inn með Þorskafirði að vestanverðu.

Maður spyr sig líka að því til hvers að fara yfir fjöll og heiðar, þegar ekki er þörf á því. Kúskurinn og hestakerran eru liðin tíð, og komin stórvirkari tæki, svo ekki þarf að miða vegastæðin lengur við skóflu og haka. Þá hefur tækninni fleygt fram í jarðgangagerð og kostnaður við hana lækkað umtalsvert. Svo er þetta líka stytting vegarins um leið. Þessi vegagerð er sjálfsagt eitthvað dýrari í byrjun, en það er sennilegt að þegar til lengdar lætur þá verði kostnaður lægri og umferðaröryggið ætti að aukast sem líka verður að teljast sparnaður. Þá ætti fræðingunum ekki að verða skotaskuld úr því að reikna út arðsemi, eða er það ekki í tísku nú um stundir? Einnig er nokkuð víst að umferð muni aukast með betri og öruggari vegum, jafnvel á Vestfjörðum, það hefur reynslan sýnt annarstaðar.

Þessar hugrenningar eru settar á blað af mörgum ástæðum, og þá helst vegna þeirra umferðaróhappa sem hafa orðið núna upp á síðkastið. T.d. þegar flutningabíll lokaði Djúpveginum nærri heilan dag. Þá hefði verið hægt að beina umferð á Vestfjarðaveg 60 , ef.. já, ef Klettsháls, nýi fíni vegurinn hefði ekki verið ófær. Þennan dag var Dynjandisheiði vel fær, þótt sögð væri ófær af Vegagerðinni. Sennilega gert til að þurfa ekki að moka „einstigið“ um Hrafnseyrarheiði, því samkvæmt „Verklagsreglu 630“ (sjá mynd nr. 2) þarf ekki að skoða aðra heiðina ef vitað er að hin er lokuð (Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði). Sólahring síðar eða svo, annað óhapp vegna hálku á Hjallahálsi. Aftur flutningabíll, og nú jólasendingar, matvara og póstur. Eitthvað hlýtur þetta að kosta. Það má kannski ekki reikna það með?

Ég vil hvetja ykkur sem nennið að lesa þetta, að láta skoðanir ykkar í ljós. Þetta eru jú okkar skattpeningar sem í þetta fara. Látum ekki selja okkur eitthvert rusl. Við viljum örugga alvöru vegi, sem hægt er að nota allt árið. Einnig skulum við varast að láta teyma okkur í einhverja sundrungu og vitleysu, þar sem þráttað er um forgangsröðun. Fitum ekki púkann á fjósbitanum, heldur sýnum samstöðu því þá mun okkur vel farnast.

Ég minntist aðeins á „Verklagsreglu 630“, sem er um vetrarþjónustu á Vestfjarðarvegi frá Flókalundi um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði að Þingeyri, og gildir frá 1. okt. til 1. jan. Þetta er svo makalaust plagg að það hálfa væri nóg. Maður gæti haldið að þeir sem útbúa þessa reglu, hafi ekki haft hugmynd að það býr fólk á milli þessara heiða, eða hvers á það að gjalda? Við greiðum okkar skatta eins og aðrir þegnar þessa lands, og hljótum að


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi