Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 16.06.2003 | 14:28Um eyðingu – og sköpun

Við tölum gjarnan um að eyða því sem við þurfum að losa okkur við. Á sama hátt tölum við um að skapa, til dæmis umhverfi okkar. Þetta er íhugunarvert, því að hvorugt er hægt. Umhverfinu getum við breytt en ekki skapað, og úrganginum getum við breytt en ekki eytt. Við notum oft þá aðferð að breyta umfangi úrgangs við brennslu, en við það verður hann að ösku annars vegar, og hins vegar að „einhverjum efnum“ sem rjúka eitthvert „út í buskann“. Þetta ferli nefnist eyðing, samanber sorpeyðing.
Sú eyðing snýst í andhverfu sína þar sem þessi „einhver efni“, ef til vill eiturefni, skapast af völdum bruna. Sums staðar er slíkur verknaður framinn þar sem fólk almennt sér ekki til. Hér á Ísafirði hefur verið farin sú leið að velja verknaðinum verðugan stað, þannig að raunveruleikinn fer ekki fram hjá neinum, sem verður að teljast óvenjulegt.

Þróuð og hámenntuð ríki hafa haft þann hátt á, þegar um hættulegan úrgang er að ræða, að hann er sendur til vanþróaðra fátækra ríkja, til urðunar gegn greiðslu. Sá úrgangur eyðist aldrei en hann verður ekki að vandamáli á okkar lifitíma. Það sama á við um allan þann sjúkrahúsúrgang sem sveitarfélag okkar þiggur greiðslu fyrir að meðhöndla.

Samkvæmt upplýsingum Hollustuverndar myndast eiturefnin díoxín og fúran við sorpbrennslu, en í mismiklu magni, háð því hvað er verið að brenna. Og bent er á að efst á blaði varðandi myndun díoxína og fúrana, og sýnu verst, er brennsla á sjúkrahúsúrgangi. Ennfremur upplýsir Hollustuvernd, orðrétt:

Eitrunaráhrif geta verið margvísleg og koma fram við mjög lágan styrk efnanna. Díoxín og fúran eru meðal eitruðustu efna sem prófuð hafa verið og nægir 0,001 mg af eitruðustu afleiðunni til að drepa lítil nagdýr. Einn slíkur örskammtur dregur dýrin til dauða á 14-28 dögum og enn minni skammtur veldur krabbameini í dýrunum.

Þegar tekið er tillit til þess að brennsla sjúkrahússorps er ein hentugasta aðferðin til sköpunar og framleiðslu á díoxíni og fúrani vekur það furðu, að á Ísafirði hefur verið ákveðið að brenna um 300 tonn af sjúkrahússorpi á ári.

Manni verður óneitanlega órótt þegar einn hundraðþúsundasti úr grammi framleiðslunnar veldur ofangreindum afleiðingum.

Hollustuvernd bendir einnig á að meðal þeirra áhrifa sem díoxín og fúran hafa eru (ath.: ekki gætu haft, heldur hafa):

► Skemmdir á ónæmiskerfi, sérstaklega í ungviði.
► Skemmdir á lifur.
► Minnkuð viðkoma og áhrif á þroska fóstra og barna.
► Skemmdir á miðtaugakerfi, hegðunarvandamál.
► Krabbamein
► Húðsjúkdómur (chloracne).
► Tæring (Wasring Syndrome).
► Röskun á efnaskiptaferli vítamíns A.

Auk þess er talið að díoxín og fúran geti orsakað getuleysi og hafi neikvæð áhrif á fjölda sæðisfruma.

Í Engidal fer brennslan fram umkringd ágætis berjalandi. Einnig eru þar hesthús og ljómandi mjólkurbú og verða þau húsdýr sem þar ferðast og nærast að kyngja ofangreindu. En þau hafa hvergi komið nálægt ákvörðunartökum varðandi brennslu þessara efna.

Heimildir: Hollustuvernd ríkisins

– Pétur Tryggvi.

Höfundur er gull- og silfursmiður, búsettur á Ísafirði. Hann tók meðfylgjandi myndir (smellið á númerin undir myndinni af höfundi af „dalalæðunni“ í Skutulsfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi