Grein

Hlynur Snorrason | 19.12.2002 | 14:50Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

Hvað ætli okkur, foreldrum, þykir vænst um? Jú, öll hljótum við að vera sammála um að það eru börnin okkar, hvort sem þau eru stór eða smá. Þegar börnin okkar eru lítil, þá erum við vakandi yfir því að þau fari sér ekki að voða og hikum ekki við að bregðast skjótt við, jafnvel þótt aðrir sjái til og hneykslist örlítið á viðbrögðum okkar. Hvað gerist síðan þegar börnin komast á unglingsárin? Þá verðum við sum svolítið feimin við að vaka yfir velferð þeirra og erum að horfa til annarra foreldra.
En þetta er einmitt sá tími sem börnin eru að verða að sjálfstæðum einstaklingum og eru ekki eins háð foreldrum sínum og áður. Þau fara að segja skoðanir sínar á ýmsu í umhverfinu og þeim samfélagsreglum sem þeim ber að fara eftir. Þetta er eðlilegt og tilheyrir þroskaferli allra unglinga. Hitt er það, að vandi fylgir vegsemd hverri. Oft gleymist að allir þjóðfélagsþegnar hafa ekki bara réttindi, heldur líka skyldur. Það er mjög brýnt hjá foreldrum að leiðbeina börnum sínum hvað þetta varðar, rétt eins og að hjálpa þeim að læra að lesa, skrifa og reikna.

Við, sem tókum þá ákvörðun að eignast og ala upp börn, höfum ekki aðeins lagalegar skyldur, heldur líka siðferðislegar skyldur gagnvart þeim. Við eigum ekki að veigra okkur við að vaka yfir velferð barnanna okkar þegar að unglingsárunum kemur. Það er kannski einmitt sá tími sem þau þarfnast leiðbeininga okkar einna mest. Og þá þurfum við að vera til staðar og segja Nei! þegar það á við og Já þegar það á við. Foreldrahlutverkið er ekki einhver vinsældakeppni.

Nei! getur einmitt þýtt: Mér þykir vænt um þig og vil að þér farnist vel í lífinu, barnið mitt, og þess vegna segi ég nei. Oft tekur þetta á þolinmæðina og úthaldið, en lesandi góður, gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er ekki spretthlaup heldur langhlaup.

Nú vil ég venda kvæði mínu í kross og segja við ykkur, foreldrar á norðanverðum Vestfjörðum, að þið eruð á réttri leið. Flest höfum við einmitt tekið þá stefnu, að við ætlum að bæta enn frekar þá góðu unglingamenningu sem hér er. Allir þeir sem koma að málefnum unglinga á svæðinu með einum eða öðrum hætti eru sammála um að unglingamenningin hér er alltaf að verða betri og betri með hverju árinu sem líður. Auðvitað eru einhver frávik milli ára en það er eðlilegt. Þessu til staðfestingar hafa kannanir á högum nemenda í 10. bekkjum grunnskólanna á svæðinu sýnt það sama og tilfinning íbúanna. Við erum á réttri leið, kæru foreldrar, og því ber að fagna. Stoltust erum við af börnunum okkar.

Meðfylgjandi línurit*) sýna að við erum langt undir landsmeðaltali hvað varðar reykingar og hassneyslu meðal 10. bekkinga á svæðinu síðustu árin, en svipuð landsmeðaltali í áfengisneyslu, a.m.k. í Ísafjarðarbæ. Auðvitað er hræðilegt að tala um grunnskólanemendur og hass, tóbak eða áfengi í sömu setningunni. En þetta virðist hafa verið staðreynd á Íslandi undanfarin ár. Þessu þurfum við að breyta. En ekkert gerist að sjálfu sér. Við skulum því sýna ábyrgð og ekki hika við að vaka yfir velferð unglinganna okkar, hvenær sem er. Höldum útivistarreglurnar, leyfum ekki eftirlitslaus unglingasamkvæmi, kaupum ekki áfengi fyrir börnin okkar og verum þeim góðar fyrirmyndir.

Að lokum vil ég minna á, að lögum samkvæmt mega börn sem verða 16 ára á árinu 2003 sækja dansleiki, þar sem 16 ára aldurstakmark er, strax þann 1. janúar nk. Engin ástæða er til að banna þeim að sækja þessa dansleiki, enda er þetta lögbundinn réttur þeirra. Hins vegar hvet ég foreldra til að vaka yfir velferð þessara ungmenna, með öllum skynsömum ráðum. Verum allsgáð og vakandi yfir velferð barnanna okkar, sérstaklega þegar þau stíga sín fyrstu skref á nýjum vegum.

Gleðileg jól.

– Hlynur Snorrason,
lögreglufulltrúi á Ísafirði
og verkefnisstjóri VáVest-hópsins.

*) Til þess að skoða línuritin er smellt á tölustafina undir myndinni af höfundi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi