Grein

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

| 08.03.2000 | 11:38Unga fólk – til hamingju!

Söngvakeppni Menntaskólans á Ísafirði var haldin sl. laugardagskvöld í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Skemmst er frá því að segja að keppnin, umgjörð hennar, undirbúningur allur, tónlistarflutningur og þátttaka, var allt með miklum ágætum. Það sannaðist svo um munaði að þegar þið, unga fólk, takið ykkur til og framkvæmið hlutina í ykkar anda á jákvæðan hátt, þá er von á góðu. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera þarna.
Að sjá allan þann fjölda ungmenna sem með einum eða öðrum hætti kom að þessu frábæra kvöldi og undirbúningi þess, sem og áhorfendur í sal, minnti mig á hversu mikil verðmæti felast í þessu unga fólki. Og ég gladdist yfir útkomunni.

Ég sem ein í undirbúningshópi um opnun kaffi- og menningarhúss á norðanverðum Vestfjörðum er nú ekki í minnsta vafa um að okkar unga fólk verður fullfært um að sjá um rekstur slíks staðar. Fjölbreytnin, hugmyndagleðin og framkvæmdasemin munu vonandi fá að njóta sín, – og ekki munum við þessi eldri láta okkar eftir liggja að styðja við bakið á ykkur. Ég hlakka til.

Síðan segi ég, um leið og ég óska sigurvegurum velgengni í landskeppninni: Unga fólk – til hamingju!


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi