Grein

Jóhann Ásmundsson.
Jóhann Ásmundsson.

Jóhann Ásmundsson | 27.01.2004 | 11:10Hugleiðing um kvóta á reki

Ég get ekki sagt að það hlakki í mér yfir þessum tíðindum að ÚA hafi verið selt „suður“ í alla markaðshagkvæmnina. Ég hugsa ekki heldur með sjálfum mér „nú kom vel á vondan“. Nei, það er miklu fremur að ég finni til hryggðar yfir því hvað það tók Akureyringa langan tíma að átta sig á skuggahliðum kvótakerfisins. Það er langt síðan að byggðarlögin allt í kringum þá fóru að æmta að skræmta yfir því að veiðiheimildirnar hafa verið að sópast í burtu. Nei, svellkaldir, eins og þegar læknir kippir í axlarliðinn, hafa Akureyringar yfirleitt ekki látið sársaukaveinin á sig fá. Enda var sjávarútvegurinn úr liðnum og kvótinn bara til þess gerður að kippa öllu í lið aftur og sársaukin hverfur eins og dögg fyrir sólu. Nei, því miður þá er það ekki þannig, sala aflaheimildina er aflimum byggðarlags og ekkert virðist geta breytt því.

Ljósið í myrkrinu er að núna hefur vonandi komið öflugur liðsmaður þess sem vill endurskoða kerfið frá grunni. Sú endurskoðun taki þá ekki aðeins mið af einfeldningslegum viðmiðunum eins og rekstrarleg hagkvæmni. Við vitum tilhneiginguna í slíku líkani, þ.e. eitt hnattvætt stórfyrirtæki sem á allar aflaheimildirnar við Ísland og ríflegan skerf í aflaheimildum vítt og breitt um hnöttinn. Vissulega eru lagaákvæði sem eiga að koma fyrir þetta, en það breytir ekki því að þetta er tilhneiging kerfisins. Gallinn við þessa tilhneigingu er að hún er engin trygging fyrir hagkvæmni greinarinnar í heild. Hún felur aðeins í sér að stór fyrirtæki hafa betri möguleika til að vaxa og bæta markaðsstöðu sína gagnvart mjög litlum fyrirtækjum. Máttur hinna minni dvín stöðugt og þau geta að lokum ekki keppt við þá stærri, um aflaheimildir, markaðssókn og markaðssetningar um heim allan. Það er ekki endilega svo að afurðin verði ódýrari fyrir neytendur eða til verndunar fiskistofnanna. Nei, aflaheimildirnar virðast hafa verið afhentar á markaðstorg gullgrafarans og honum er nokkuð sama þótt námur tæmast, nóg er af öðrum viðskiptatækifærum.

Nú er langt í frá að ég sé andstæðingur markaðshagkerfis og frjálsra viðskipta án afskipta ríkisvaldsins. Þvert á móti þá er ég eindreginn stuðningsmaður frjáls markaðar og frelsis í viðskiptum, en ég veit líka að markaðurinn og kvótakerfið eru ekkert náttúrufyrirbrigði, þau eru mannasetningar. Þau eru eins og hvert annað tæki sem maðurinn hefur fundið upp í aldanna rás til að bæta kjör sín. Það sem skiptir máli hér er að hanna kerfi sem þjónar kröfum okkar sem best og að hagkvæmni byggða fái notið sín. Það þjónar illa langtíma hagsmunum okkar að búa við kerfi sem hefur ríka tilhneigingu til að eyða byggð í landinu og selja aflaheimildirnar í hendur örfárra aðila sem má stjórna og gera út frá hvaða skrifborðsskúffu sem, hvar sem er í heiminum. Ef búa á við slíkt kerfi er sennilega best að byrja strax að finna sér hentugt húsnæði og atvinnu í stórborgum heimsins. Útnárinn Reykjavík er aðeins heimskuleg millistöð í slíkum búferlaflutningum.

Það sem skiptir langtímahagsmuni okkar mestu máli, er að hagkvæmni byggðar í landinu fái notið sín. Það sem við njótum síðan er nálægðin við stærstu markaði heimsins. Evrópuflug, Ameríkuflug og pólflug til Asíu gerir það að verkum að vel er hægt að veiða fisk á gjöfulustu miðunum og koma honum innan við sólarhring borð neytenda í öllum helstu stórborgum heimsins. Opnun siglingaleiðarinnar norður fyrir Rússland til Asíu er síðan á næsta leiti. Allt eru þetta merki þess að við verðum að ganga þannig frá hnútunum að við bindum veiðiheimildirnar sem mest við landið. Það hlýtur því að vera aðkallandi að skoða kosti sóknarmarks fram yfir aflamark út frá þessum forsendum. Með sóknarmarki er nálægðin við miðin farin að njóta sín og þar með hagkvæmni byggða, hver mínúta í siglingu er tap á veiðiheimild. Með markaðstengingu sóknarmarksins er síðan verið að jafna sóknina yfir veiðiárið. Það er ekki hagur útgerðarinnar að veiða sem mest þegar verð eru lægst, heldur þvert á móti að veiða sem mest þegar verð eru hæst. Samband framboðs og eftirspurnar við verðlagsmyndun hefur tilhneigingu til að jafna veiðar yfir árið.

Nú vona ég að Eyfirðingar sjái af sér og gangi til liðs við þá sem vilja alvarlega skoðun á hagkvæmni sóknarmarks fram yfir aflamarki. Ég efa ekki að slík skoðun verði sóknarmarkinu í hag, ef svo verður þá verði aflamark útgerða umbreytt í sóknarmark. Fjárhagslegur skaði útgerðanna vegna fyrri fjárfestinga í kvóta er engin þar sem veiðiheimildirnar verða þær sömu. Ávinningur okkar til lengri tíma verður hins vegar sá að nálægðin við miðin og þar með hinar fornu sjávarbyggðir fær að njóta sín aftur.

Jóhann Ásmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi