Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

| 11.04.2001 | 05:23Sjálfstætt ríki á Vestfjörðum

Ég hlustaði á Sunnudagsspjall við Guðjón Arnar í þættinum Í vikulokin í útvarpinu. Mér fannst Addi komast mjög vel frá því kaffispjalli. Hann er alltaf málefnalegur og skeleggur, við erum heppin að eiga slíkan málsvara Vestfirðingar og auðvitað njóta aðrir landsbyggðamenn góðs af málflutningi hans. Ég er alveg sammála Adda að kvóti á ýsu, steinbít og ufsa verði til þess að rústa byggðum landsins, og það er alveg með ólíkindum að stjórnvöld haldi því til streitu án þess að skeyta um hvað verður. Ég var að hugsa um að við verðum með einhverjum ráðum að ná vopnum okkar og gera eitthvað í málinu svo þetta nái ekki fram að ganga.
Ég var að láta mér detta í hug að við myndum kanna möguleikana á að stofna sjálfstætt ríki á Vestfjörðum. Þetta ríki næði frá Hrútafirði og Gilsfirði og yfir allan Vestfjarðakjálkann og við myndum einfaldlega girða okkur frá. Við myndum síðan krefjast fiskimiða okkar og búa að því sem Vestfirðir eiga. Það er hægt að nota tímann fram að september til að athuga kosti og galla þess að stofna ríkið. Það er að segja ef stjórnvöld ætla að kippa undan okkur lífstilverunni, þá segjum við okkur úr lögum við Ísland og stofnum okkar eigið samfélag. Ég er alveg viss um að málstaður okkar er það sterkur, að þó einhverjir vildu setja fótinn fyrir okkur, þá er aðstaða okkar þannig í dag að Evrópudómstóll eða mannréttindadómstólar myndu standa okkar megin í því að verja tilveru okkar.

Ég er viss um að þegar við værum laus við yfirráð að sunnan, þá myndi okkur fjölga fljótlega. Öll verðmætamyndun yrði notuð hér heima og við myndum koma okkur upp eigin bönkum og gullforða. Við myndum losna við töluvert af spillingu og mangi. Það er líka löngu orðið ljóst að stærri einingar eru ekki hagkvæmari en minni. Bestu fyrirtækin eru lítil fyrirtæki. Þar er betur haldið utan um hlutina og hér myndi stjórnsýslan vera nær fólkinu en nú er. Það yrði auðvitað byrjað á að stórbæta vegasamgöngur innan ríkisins, þannig að samgöngur yrðu greiðar milli Patreksfjarðar, Ísafjarðar og Hólmavíkur, sem yrðu helstu byggðakjarnar ríkisins.

Við myndum sennilega gera milliríkjasamninga um ýmis mál svo sem háskólamenntun og fleira sem yrði okkur of stór biti. En það gæti allt eins verið við Danmörku, Stóra-Bretland eða Bandaríkin eins og Ísland. Við myndum örugglega koma okkur upp samgöngum til útlanda. Flugvöllurinn í Dýrafirði yrði t.d. mjög heppilegur alþjóðaflugvöllur og þá yrði grundvöllur til að kaupa fragtskip, sem sigldi með afurðir okkar út og kæmi með vörur. Auk þess myndi þetta litla ríki virka spennandi og forvitnilega á útlendinga. Við myndum örugglega njóta vissrar samúðar og fá þar af leiðandi fleiri tækifæri frá hinum stóra heimi.

Mig myndi langa til að fá umræður um þetta bæði í gamni og alvöru. Sérstaklega myndi ég vilja fá upp á yfirborðið kosti og galla þessarar hugmyndar frá sérfróðum mönnum vestfirskum.

Í staðinn fyrir að sitja með hendur í skauti og bíða þess sem verða vill, hvað hinum háum herrum fyrir sunnan þóknast að láta yfir okkur dynja, vil ég að við stöndum upp og gerum eitthvað sjálf. Vestfirðingar hafa alltaf verið duglegt og harðgert fólk, sem ekki lætur deigan síga við hættuástand. Við verðum að verja tilveru okkar sjálf. Það gerir það enginn fyrir okkur.

Með bestu kveðjum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi