Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

| 06.04.2001 | 11:02Mörg tromp á hendi

Það er gömul saga og ný að við, sem búum úti á landi, erum ekki nægilega dugleg að vekja athygli á margbreytileika samfélagsins okkar. Af og til er okkur hollt að fara í ítarlega naflaskoðun og gera okkur grein fyrir því að þrátt fyrir erfiðleika á ýmsum sviðum, þá er víða mikill uppgangur, ekki síst í Ísafjarðarbæ.
„Það er svo lítið við að vera þarna hjá ykkur? sagði ungur Reykvíkingur við mig um daginn og það var auðheyrt að hann trúði af öllu hjarta að svo væri. Í fyrstu fauk í mig vegna afstöðu mannsins. Svo staldraði ég við og velti því fyrir mér hvað hefði orðið til þess að móta þessa sýn hans á lífið úti á landi. Það skyldi þó ekki vera að ég sjálf ætti kannski einhvern þátt í því? Það er nefnilega þannig, að málflutningur heimamanna þarf í auknum mæli að litast af því sem vel gengur til að unnt sé að hrekja þær ranghugmyndir sem alltof margir virðast gera sér um fjórðunginn.

Rofar til í sjávarútvegi

Ekki þarf að tíunda þróunina í sjávarútvegi á Vestfjörðum síðasta áratug – hún hefur reynst Vestfirðingum þung í skauti og verið krufin til mergjar á mörgum vígstöðvum. Lítum heldur til þess sem vel hefur gengið í sjávarútvegi að undanförnu. Gríðarleg uppbygging í smábátaútgerð síðustu misseri, og vaxandi fiskvinnsla henni tengd, sýnir baráttuþrek heimamanna í hnotskurn. Íbúum hefur jafnvel fjölgað á þeim stöðum þar sem best hefur gengið, eins og á Suðureyri og í Tálknafirði. Sumstaðar, t.a.m. á Þingeyri og Flateyri, er nú svo komið að erfitt er að fá íbúðarhúsnæði, auk þess sem lesa mátti í Bæjarins besta fyrir skömmu að fasteignamarkaðurinn á Ísafirði væri að glæðast eftir tveggja ára lægð. Þetta eru góðar fréttir.

Á sama tíma sýna afkomutölur stærsta sjávarútvegsfyrirtækis á Vestfjörðum að vel hefur gengið síðastliðið ár – svo vel að eftir er tekið á landsvísu. Auk þess hefur metafli borist á land hjá einu loðnubræðslunni í fjórðungnum. Einnig hefur rækjuveiði verið að glæðast að undanförnu og er það vonandi til marks um að bjartari tímar séu framundan í þeirri grein.

Sjálfsbjargarviðleitninni ógnað

Nú eru blikur á lofti sem ógna þeirri sjálfsbjargarviðleitni sem endurspeglast í smábátaútgerðinni því enn ríkir mikil óvissa um það hvort kvótalögin muni ná óbreytt fram að ganga í haust eða ekki. Tíminn er að hlaupa frá mönnum í þessum efnum. Þeir sem ráða ferðinni verða að hafa hugfast, að hið breytta útgerðarmynstur einskorðast ekki við Vestfirði. Smábátaútgerðinni hefur vaxið fiskur um hrygg víða um land, þótt til þessa hafi alltof lítið heyrst frá öðrum en Vestfirðingum í umræðunni um þessi mál. Fyrir vikið standa margir landsmenn í þeirri trú að hér séu á ferðinni sérvestfirskir hagsmunir – einn ganginn enn – og þeir yppa því bara öxlum yfir hávaðaseggjunum þarna fyrir vestan. Þessum misskilningi þarf að eyða.

Fleira gott en fagur fiskur í sjó

Margir eiga erfitt með að sjá atvinnumöguleika fyrir svæðið í öðru en því sem tengist veiðum og vinnslu. Vissulega er sjósóknin grunnurinn að vestfirskum byggðum og það breytist ekki. En lítum okkur samt nær og veltum því fyrir okkur hvaða vinnustaðir eru með þeim fjölmennustu í Ísafjarðarbæ. Það eru stofnanir á borð við leikskólana og grunnskólana, Menntaskólann á Ísafirði og Heilbrigðisstofnunina – með Fjórðungssjúkrahúsið í broddi fylkingar – stofnanir sem veita þá grunnþjónustu sem nauðsynleg er hverju samfélagi af okkar stærð. Í þessum stofnunum eru mörg hundruð ómetanleg störf sem afar brýnt er að halda sem fastast í og virkja sem best.

Á undanförnum árum hefur störfum fækkað við frumframleiðslu í landinu og þeim fjölgað við þjónustu. En hvar hefur þeim fjölgað? Jú, á höfuðborgarsvæðinu, og um leið hefur íbúum fjölgað þar. Því er gríðarlega mikilvægt að störf við opinbera þjónustu, aukin menntun á öllum stigum og aukin rannsóknar- og þróunarvinna færist til staða eins og Ísafjarðar í auknum mæli. Með því fáum við til okkar fólk sem hefur menntað sig til slíkra starfa.

Áhugi fólks er að vakna

Undanfarnar vikur hafa óvenju margar stöður verið auglýstar við smærri opinberar stofnanir hér í bænum. Þar má nefna Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunina. Einnig er verið að leggja drög að flutningi snjóflóðarannsókna Veðurstofunnar t


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi