Grein

Sigurður Jónsson.
Sigurður Jónsson.

Sigurður Jónsson | 11.12.2003 | 11:11Ljúkum Djúpvegi áður en farið er annað!

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sendir grein í Bæjarins besta 10. nóvember 2003, þar sem hún ræðir um vegamál á Vestfjörðum. Í upphafi greinar sinnar segir hún að mikill misskilningur virðist á kreiki um áherslur vestfirskra sveitarstjórnarmanna í samgöngumálum fjórðungsins. Þar sem mér virðist augljóst að Birna er á meðal þeirra sem er að misskilja málin, langar mig til að benda henni á þá staðreynd að Strandamenn hafa aldrei samþykkt fyrir sitt leyti að vegur um Arnkötludal eigi að hafa forgang fyrir öðrum samgöngubótum í Strandasýslu. Eina samþykktin sem Strandamenn hafa gert um samgöngumál á síðari árum er samþykkt héraðsnefndar Strandasýslu frá 18. nóvember 2001 og hljóðar hún svo:
„Aðalfundur héraðsnefndar Strandasýslu, haldinn að Sævangi 18. nóvember 2001, harmar bágborið ástand malarvega í Strandasýslu sem um þessar mundir eru illfærir. Héraðsnefndin telur mjög brýnt að á næstu fjórum árum verði lokið við að leggja bundið slitlag á eftirtalda vegi: Veginn frá Prestbakka að Guðlaugsvík, veginn frá Stóra-Fjarðarhorni að Naustavík og veginn frá vegamótum í Staðardal að Drangsnesi. Jafnframt verði hafnar framkvæmdir við nýjan veg um Ennisháls og Broddaneshlíð og verulegt átak gert í vegalagningu í Árneshreppi. Einnig hvetur héraðsnefndin til þess að rannsóknum og undirbúningsvinnu á væntanlegri vegtengingu um Arnkötludal milli Steingrímsfjarðar og Reykhólasveitar verði hraðað svo sem kostur er.“

Af þessari samþykkt má það ljóst vera að Strandamenn hafa aldrei sett veginn um Arnkötludal í forgang og fráleitt að það sé almennur vilji á meðal sveitarstjórnarmanna í Strandasýslu að það verði gert.

Varðandi samþykktina frá fjórðungsþingi 1997 er rétt að benda á að þær tillögur sem þar voru samþykktar voru samdar af nefnd sem fjórðungsþingið skipaði 1996 en nefndin hafði ekki lokið störfum þegar fulltrúi Strandamanna í nefndinni, Stefán Gíslason, flutti til Svíþjóðar og eftir það var enginn fulltrúi héraðsnefndar Strandasýslu í nefndinni. Birnu Lárusdóttur ætti að vera það full ljóst að þegar atkvæði eru greidd á fjórðungsþingi um tillögur eins og samgönguáætlun, þá hafa atkvæði fámennra sveitarfélaga í Strandasýslu lítið að segja gegn atkvæðum Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar svo dæmi séu tekin.

Við Birna erum sammála um að fjárveitingar til vegamála á Vestfjörðum eru alltof litlar og furðulegt metnaðarleysi alþingismanna okkar til að bæta þar úr. Aftur á móti greinir okkur á um hvaða framkvæmdir eigi að hafa forgang. Frá því að vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði var opnaður hafa vegir í Strandasýslu stöðugt verið að ganga úr sér vegna lélegs viðhalds miðað við þá miklu og vaxandi umferð þungra flutningabíla sem um veginn fer. Því hefur okkur sem búum við þessa lélegu moldarvegi fundist með eindæmum að ekki skuli hafa verið gerðar neinar umtalsverðar úrbætur á þeim vegum sem héraðsnefndin ályktaði um í nóvember 2001.

Við Strandamenn gerðum okkur vonir um það fyrr á þessu ári að allnokkur hluti af þeim milljarði sem verja átti til vegaframkvæmda á Vestfjörðum á þessu og næsta ári, kæmi í hlut okkar Strandamanna til úrbóta á Djúpvegi, en svo var því miður ekki enda virðist svo sem þingmenn okkar vilji ekki með nokkru móti að framkvæmdir í Strandasýslu séu meira en 6 km í senn á nokkurra ára fresti.

En hvers vegna er það vilji okkar að ljúka uppbyggingu Djúpvegar frá Brú til Hólmavíkur áður en lagt er í gerð vegar um Arnkötludal – Gautsdal? Jú, það er vegna þess að allnokkur hópur fólks fer um þennan veg daglega til og frá vinnu og akstur skólabarna fer fram um þennan veg að skólunum á Borðeyri, Broddanesi og Hólmavík, tvisvar til þrisvar á dag þann tíma sem skólar starfa. Við þurfum að fara í verslun, banka og á heilsugæslu á Hólmavík, Borðeyri eða á Hvammstanga. Við þurfum að fara til sýslumannsins á Hólmavík og fleira mætti telja. Eða með öðrum orðum: Þjóðvegur 61, Djúpvegur, er samgönguleið okkar vegna daglegra samskipta og þjónustu sem nauðsynleg er í nútíma þjóðfélagi.

Þessi leið gegnir sama hlutverki hjá okkur og Vestfjarðagöngin fyrir íbúana í Ísafjarðarbæ, sem þótti sjálfsagt að hefðu forgang á sínum tíma fram yfir Djúpveg. Okkur sem byggjum þessar sveitir finnst meira en tími til kominn að tekið verði verulega á með úrbætur á leiðinni Brú – Hólmavík.

–Sigurður Jónsson, bóndi og oddviti Broddaneshrepps.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi