Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 25.11.2003 | 09:52Skátastarf á Ísafirði í 75 ár

Á þessu ári eru liðin 75 ár frá því að skátastarf hófst á Ísafirði. Af því tilefni langar mig að vekja athygli á því starfi sem fram fer hjá skátunum. Margir telja að í skátunum sé ekkert gert nema syngja gúlligúlli og binda hnúta. Þetta er regin misskilningur. Við bindum auðvitað hnúta og syngjum en það er bara lítill partur af starfinu. Undirrituð var svo heppin að vera í skátunum sem barn og unglingur, það fannst mér vissulega gaman, en þó er það ekki fyrr en núna þegar ég telst vera orðin fullorðin sem mér er orðið ljóst hversu öflugt og gott uppeldisstarf fer þar fram.
Það getur vel verið að krökkum sem eru vanir að horfa á menn skotna í tætlur í sjónvarpinu hjá sér á hverjum degi, og skjóta þá sjálf í tölvuleikjum þess á milli, finnist skátarnir svolítið gamaldags, en gamaldags er ekki endilega slæmt. Í skátunum eflist sjálfstæði krakka, þeir læra að bjarga sér sjálfir og fá að reyna á sig við margskonar aðstæður sem eru bæði krefjandi og skemmtilegar. Kannski finnst ekki öllum spennandi að sofa í snjóhúsi uppi á heiði, eða síga í kletta, svo eitthvað sé upptalið af því sem skátar leggja stund á.

Ég þekki enga krakka sem hafa ekki gaman af því að reyna á sig við ögrandi aðstæður. Þegar upp er staðið líta þeir glaðir til baka yfir liðin ævintýri. En það sem stendur upp úr við starfið hjá skátunum er að krakkarnir eru ekki bara að leika sér. Þar læra menn heilmikið um náttúruvernd og umgengni við landið, alla nauðsynlega þætti til að bjarga sjálfum sér við erfiðar aðstæður og síðast en ekki síst tillitsemi, umburðarlyndi og að hlíta ákveðnum reglum. Fjölbreyttni skátastarfsins hefur líka þau áhrif að þar geta allir verið með, feitir-mjóir-langir og stuttir.

Í starfi mínu sem kennari hugsa ég oft um hvað er mikilvægt að kunna í lífinu, til dæmis: stærðfræði, málfræði ensku eða náttúrufræði, allt þetta skiptir auðvitað máli. En til að manni geti gagnast allt það sem maður er að læra þarf maður að hafa sjálfstraustið í lagi, kunna að vinna með öðrum og að fara eftir þeim reglum sem gilda í samfélaginu. Þetta er einmitt það sem er kennt í skátunum og allir skátar verða að takast á við.

Áfram skátar!

Jóna Benediktsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi