Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir | 10.11.2003 | 14:58Stefnt á Dýrafjarðargöng og veg um Arnkötludal

Árið 1997 samþykktu öll sveitarfélög á Vestfjörðum stefnumótun í samgöngumálum sem unnið hefur verið eftir á vettvangi sveitarstjórna allar götur síðan. Þar er skýrt kveðið á um þörfina fyrir jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og veg um Arnkötludal og Gautsdal. Sá vegur, sem verður nánast samhliða gamla veginum um Tröllatunguheiði, mun tengja saman Strandir og Reykhólahrepp auk þess sem hann mun stytta leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um rösklega 40 km borið saman við leiðina um Strandir. Það munar um minna. Á hinn bóginn munu göng undir Hrafnseyrarheiði, milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, gera það að verkum að heilsárssamgöngur milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða verða í fyrsta sinn mögulegar. Göngin munu skapa eitt atvinnu- og þjónustusvæði sem er forsenda þess að á norðanverðum Vestfjörðum verði öflugur byggðakjarni sem með réttu getur kallast höfuðstaður Vestfjarða.

Hringvegur um Vestfirði

Báðar þessar leiðir eru liðir í að ljúka við gerð hringvegar um Vestfirði, en fullbúinn markar sá vegur byltingu í samgöngum fyrir íbúa fjórðungsins auk þess sem hann verður eftirsóttur af ferðamönnum til framtíðar. Allt er þetta í samræmi við fyrrnefnda stefnumótun vestfirskra sveitarfélaga, sem samþykkt var á Fjórðungsþingi 1997 og er enn í gildi. Í henni er lögð áhersla á fimm meginverkefni sem unnið verði að á tíu árum:

1. Lokið verði við vegagerð milli þéttbýlisstaða, flugvalla og ferjubryggja innan hvers samgöngusvæðis þ.e.norðanverðra Vestfjarða, sunnanverðra Vestfjarða, Reykhólahrepps og Stranda. Segja má að þessu verkefni sé að mestu lokið ef frá er talinn vegurinn milli Hólmavíkur og Drangsness.

2. Stórverkefni í vegagerði verði tvö, Djúpvegur og Vestfjarðavegur, milli Flókalundar og Bjarkalundar.

3. Nýr vegur verði lagður um Arnkötludal milli Steingrímsfjarðar og Reykhólasveitar sem loki hringvegi um Vestfirði í austri.

4. Hringvegur með bundnu slitlagi verði um Vestfirði sem tengi allar byggðir fjórðungsins saman.

5. Að afloknum verkefnum 10 ára tímabilsins verði hringvegi um Vestfirði lokið með gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Ljóst er að vegagerð á Vestfjörðum hefur gengið hægar en samgönguáætlun Fjórðungsþingsins gerir ráð fyrir. Á því geta verið ýmsar skýringar sem ekki verða raktar hér. Engum blöðum er þó um það að fletta að miklir fjármunir hafa farið í vegagerð í fjórðungnum undangengin ár og hefur mest af þeim farið í stórverkefnin tvö, Djúpveg og Vestfjarðaveg, milli Flókalundar og Bjarkalundar. Einkum hefur vegurinn um Ísafjarðardjúp tekið stakkaskiptum þótt enn vanti töluvert uppá að hægt verði að aka á bundnu slitlagi alla þá leið. Standa þar einkum útaf framkvæmdir í Mjóafirði. Stefna bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur verið afar skýr hvað varðar veginn um Ísafjarðardjúp – uppbyggingu hans ber að ljúka hið fyrsta og eigi síðar en 2007.

Arnkötludal í forgang á Ströndum

Samhliða áherslum á veginn um Ísafjarðardjúp hefur bæjarstjórnin séð ástæðu til að álykta sérstaklega um veginn um Arnkötludal og bent á nauðsyn þess að hið fyrsta verði hafist handa við þá vegagerð. Kostnaður við hana hefur verið áætlaður um 700 milljónir króna sem telst ekki há upphæð á vegagerðarvísu. Telur bæjarstjórnin afar brýnt að vestfirsku vegafé sé stýrt í samræmi við stefnumótunina frá 1997 sem gerir ráð fyrir ,,að vegagerð um Arnkötludal fresti fyrirhugaðri vegagerð um Kollafjörð og Bitru? þar til öðrum forgangsverkefnum er lokið. Með öðrum orðum vill bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar árétta að vegurinn um Arnkötludal á ekki að kalla á meira vegafé í fjórðunginn heldur tilfærslu á áætluðum fjármunum í veginn um Strandir. Og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er ekki ein um þessa afstöðu. Á fundi sem forsvarsmenn sveitarfélaganna þriggja við Ísafjarðardjúp héldu ásamt Hólmavíkurhreppi í febrúar á þessu ári, var samþykkt ályktun til ríkisvaldsins þess efnis að framtíðarleiðin úr Djúpi skuli liggja um Arnkötludal. Fá, ef nokkur, fordæmi eru fyrir því að þessi sveitarfélög hafi sameiginlega gefið frá sér jafn afdráttarlausa yfirlýsingu og þessa.

Dýrafjarðargöngin eru það sem koma skal

Allar þær vegaframkvæmdir sem tæpt hefur verið á hér að ofan breyta ekki þeirri staðreynd að stefnan er sett á jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Þegar sér fyrir endann á forgangsverkefnunum eiga samgönguyfirvöld að snúa sér að gerð Dýrafjarðarganganna. Þau göng hafa verið í undirbúningi um allnokkurt skeið og í núgildandi jarðgangaáætlun koma þau næst á eftir jarðgangagerð á Austfjörðum. Það þarf ekki að tíunda mikilvægi þess að við höldum þeim stað í röðinni. Í reynd er það afstaða margra sveitarstjórnarmanna að ef alvara liggur að baki þeim yfirlýsingum ríkisvaldsins að byggja upp byggðakjarna á norðanverðum Vestfjörðum, sem þjóni öllum fjórðungnum, þá hljóti Dýrafjarðargöngin að vera lykillinn að þeirri áætlun. Þau ætti því að fjármagna sérstaklega með tilliti til slíkra byggðasjónarmiða.

Samgöngumál hafa löngum verið efniviður í kraftmiklar rökræður og orðið uppspretta ósættis. Hreppapólitík hefur jafnvel ráðið úrslitum um það hvaða framkvæmdir hafa orðið ofan á í vegagerð. Því er gott til þess að vita að á síðastliðnum sex árum hafi vestfirsk sveitarfélög borið gæfu til þess að vinna eftir þeirri framtíðarsýn í samgöngumálum sem mörkuð var á Fjórðungsþingi 1997. Hér eftir sem hingað til verður barist um þá fjármuni sem áætlaðir eru til samgöngumála í landinu en engum á að dyljast í hvaða verkefni þeim fjármunum skuli varið á Vestfjörðum.

– Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi