Grein

Haraldur A. Haraldsson.
Haraldur A. Haraldsson.

Haraldur A. Haraldsson | 09.11.2003 | 17:11Stefnumótun í atvinnumálum í Vestur Barðastrandarsýslu

Mótun atvinnumálastefnu hefur töluvert gildi þegar horft er til rekstrarumhverfis atvinnufyrirtækja og sveitarfélaga í dag, því stjórnendur þeirra geta haft stefnuna til hliðsjónar við uppbyggingu fyrirtækja sinna og ekki síður viðkomandi sveitarfélag varðandi uppbyggingu þjónustu og skipulagsmál. Með mótun atvinnumálastefnu er verið að senda skýr skilaboð út í umhverfið sem túlka má þannig að vilji íbúanna sé ljós um það hvernig þeir vilja sjá samfélag sitt þróast og jafnframt er ákveðinni óvissu eytt þar sem hagstæð skilyrði eru að mótast fyrir atvinnustarfsemi. Þetta skiptir þannig verulegu máli varðandi markaðssetningu sveitarfélaga á fyrirtækja og neytendamarkaði en þau eru í samkeppni um íbúa sem valkostur til búsetu og atvinnufyrirtæki með staðsetningu atvinnustarfseminnar í huga.
Það hefur lengi verið áhugamál innan sveitarstjórna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps að móta með formlegum hætti stefnu í atvinnumálum með það að markmiði að hún styrki stoðir byggðanna og hefur áhuginn m.a. komið fram í bókunum atvinnumálanefnda á viðkomandi stöðum. Það er ekki að ástæðulausu að áhugi er á þessu vinnulagi, því þar sem því hefur verið beitt þá hefur það skilað jákvæðum áhrifum fyrir atvinnulíf og byggðir.

Þegar ég kom til starfa hér í Vestur Barðastrandasýslu sem atvinnuráðgjafi Byggðastofnunar þá var mótun heildstæðrar atvinnumálastefnu það mál sem ég taldi brýnast að snúa mér að, því á þann hátt er verið að horfa fram á veginn, „móta framtíðarsýn“, hafa áhrif en vera ekki stöðugt að glíma við afleiðingar stefnuleysis.

Upphafspunktur þessarar vinnu í Vestur Barðastrandasýslu er 14. nóvember n.k. en þá verður haldinn opinn kynningarfundur um stefnumótunarferlið í félagsheimilinu á Patreksfirði og hefst hann klukkan 20. Aðalinntak fundarins verður mótun atvinnumálastefnu fyrir sveitarfélög og reynt að varpa ljósi á mikilvægi þess að móta slíka stefnu fyrir Vestur Barðastrandasýslu sem eina heild.

Til fundarins koma góðir gestir. Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar mun miðla af reynslu Ísfirðinga af stefnumótunarferli sem farið var þar í gegnum fyrir nokkrum árum og greina frá hverju það skilaði sveitarfélaginu og íbúum þess. Einnig mun Karl Friðriksson frá Iðntæknistofnun Íslands fara í gegnum hugmyndafræðina sem býr að baki stefnumótun og fara ofan í greiningarvinnuna sem fer fram í vinnuhópunum, en á henni byggist hin eiginlega stefnumótun. Þá mun Karl Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Forsvars á Hvammstanga fjalla um reynslu af því að vilja hafa áhrif á gang mála og svara hvort það hafi styrkt samfélagið. Ég mun síðan gera grein fyrir stefnumótunarverkefninu fyrir Vestur Barðastrandasýslu og hvernig þeirri vinnu verður háttað.

Laugardaginn 15. nóvember verður síðan haldið hér á Patreksfirði námskeið sem Karl Friðriksson frá Iðntæknistofnun mun leiða og er markmið þess að þjálfa þá sem ætla að taka þátt í hópastarfinu sem framundan er og víkka út sjóndeildarhring þeirra. Þetta námskeið mun einnig gagnast fleirum, t.d. þeim standa í atvinnurekstri. Ég vil hvetja alla íbúa í Vestur Barðastrandarsýslu til þátttöku í þessari vinnu, því hér er mikið hagsmunamál á ferðinni fyrir héraðið. Árangurinn byggist alfarið á því að sem flestir taki þátt og virki krafta sína í hópavinnunni.

Í fimm hópum verða teknir til umfjöllunar eftirtaldir málaflokkar: Landbúnaður. Ferðamál. Opinber þjónusta. Veiðar/vinnsla/eldi. Verslun/þjónusta/iðnaður. Þessir hópar funda fjórum sinnum alls þar sem m.a. er beitt styrkleikagreiningu (SWOT). Staðan metin, og framtíðarsýn mótuð innan viðkomandi flokks. Markmið eru sett fram og skilgreint hvernig á að ná þessum markmiðum.

Sú vinna sem kemur úr þessum hópum myndar þann grunn sem stefnan verður byggð á. Hin nýja stefna verður síðan lögð fyrir viðkomandi sveitarstjórnir til umfjöllunar og verður að því loknu orðin að fullgildu plaggi sem er opinber stefna Vestur Barðastrandarsýslu í atvinnumálum næstu árin. Þessi stefna er síðan í stöðugri endurskoðun á nokkurra ára fresti.

Vestur Barðstrendingar verum nú samtaka í því að móta heildstæða atvinnumálastefnu fyrir svæðið, reynum á þann hátt að hafa áhrif og snúa við neikvæðri þróun í atvinnu og byggðamálum.

9. nóvember 2003,
Haraldur A. Haraldsson, atvinnuráðgjafi Byggðastofnunar í Vestur Barð.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi