Grein

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir | 07.11.2003 | 13:50Tvenn jarðgöng – takk!

Vegir liggja til allra átta

Áratugum saman hafa menn skipst í fylkingar um það hvaða leið skuli farin til að koma á eðlilegum tengslum milli byggðarlaga í okkar fjallskorna fjórðungi og um leið að stytta ferðatímann til Reykjavíkur. Vissulega hafa orð fylgt athöfnum svo um munar á köflum. Það munaði mikið um jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar, blessun fylgi þeim sem þar stóðu að málum. Sú framkvæmd, þótt umdeild væri um tíma, hefur sannað gildi sitt og andófsraddirnar eru þagnaðar. Enn er þó mikið verk óunnið í vegamálum okkar Vestfirðinga, og því miður hefur ekki náðst órofa samstaða um framhaldið, eins og kom glöggt fram á síðasta fjórðungsþingi, þar sem sitt sýndist hverjum um það hvaða stefnu skyldi taka. Það væri of langt mál að rekja hér þau sjónarmið sem reifuð voru á þinginu, en því miður virtist byggðarígur ráða allnokkru í málflutningi manna – sem er vitanlega afleitt til afspurnar og ekki vænlegt til árangurs.

Í aðdraganda síðustu kosninga kvað samgönguráðherra upp úr um það að jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar væru næst á stórframkvæmdaáætlun samgönguráðuneytisins. Þetta þóttu ýmsum harla góð tíðindi, þar á meðal mér sem hef lengi verið áhugasöm um greiðari tengsl milli Barðstrendinga og íbúa Ísafjarðarsýslna. Ég hef sterkar taugar til beggja byggðarlaga, þar sem ég varði unglingsárum mínum hér á Ísafirði en dvaldi oft sumardvölum sem barn í Barðastrandarsýslu. Mér er því farið líkt og Barðstrendingnum móður minni, að ég þykist finna aðra lykt þegar ég kem yfir sýslumörkin á Dynjandisheiðinni.

Það greip mig því nokkur undrun þegar ég fór að fletta síðasta eintaki af BB og sá þá að umræðan hafði tekið nokkuð aðra stefnu en þá sem samgönguráðherra boðaði í vor. Fyrst varð fyrir frétt um að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefði nú, án athugasemda minnihlutans, áréttað stuðning við veg um Arnkötludal, en sú leið liggur að mestu um Tröllatunguheiði milli Steingrímsfjarðar og Króksfjarðarness. Fáeinum blaðsíðum aftar gaf svo að líta grein eftir barnaskólabróður minn, Jónas Guðmundsson, sýslumann í Bolungarvík og forsvarsmann Leiðar ehf., þar sem hann vekur athygli á því að félagið vilji fjármagna undirbúning að lagningu vegar um Arnkötludal og Gautsdal á Ströndum.

Enginn ræður för?

Hvenær varð þessi Arnkötluhugmynd ofan á? – hugsaði ég og hallmælti sjálfri mér fyrir að fylgjast illa með. Gat þó ekki varist þeirri hugsun að hér hefðu orðið furðu skörp skil í umræðunni frá því í kosningunum, og er þó ekki ýkja langt síðan þær gengu um garð.

Mér til nokkurs léttis sá ég þó, þegar flett var lengra, að við Sturla Böðvarsson erum ekki þau einu sem höllumst að jarðgöngunum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, því Eggert Stefánsson, kórfélagi minn og áhugamaður um samgöngubætur, birti þar snjalla og vel rökstudda grein þar sem lýst er eftir hinum fyrirheitnu jarðgöngum. Jarðgöngunum sem lofað var með samþykkt Alþingis fyrir rúmum tveimur árum og greint var frá í fjölmiðlum; jarðgöngum sem samgönguráðherra lofaði okkur Vestfirðingum enn og aftur í aðdraganda síðustu kosninga; jarðgöngunum sem hafa vakið vonir margra um að ef til vill verði hægt að búa hér áfram eftir allt saman, þó að börnin fari í skóla, foreldrarnir eldist, og verslun og þjónustan færist frá smærri byggðarlögum í þau stærri, svo fátt eitt sé nefnt.

En hvað gerðist? Skyndilega eru önnur verkefni komin fram úr þessum áformum, þ.á.m. jarðgöng um Almannaskarð fyrir austan, sem voru þó ekki framarlega í forgangsröðinni fyrir rúmu ári síðan. Jafnhliða taka sveitarstjórnarmenn á Ísafirði að leggja ofuráherslu á allt annað úrræði, veg um Arnkötludal sem styttir leiðina frá Hólmavík til Reykjavíkur, en bætir ekki á nokkurn hátt samgang Ísfirðinga við Hólmavík eða Patreksfjörð.

Hvar rofnaði samstaða Vestfirðinga um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og þar með tenginguna við hið svokallaða „suðursvæði“ Vestfjarða? Var Arnkötluleiðin inni í umræðunni þegar kosið var til Alþingis í vor? Hversvegna er hún komin upp á borðið núna? Hversvegna er farið að tala um aðra leið, þegar sjálfur samgönguráðherrann hefur lýst sig fylgjandi jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar? Spyr sú sem ekki veit.

Það sem ég þykist þó vita er þetta: Að óbreyttu er aksturstíminn suður um Barðaströnd u.þ.b. 45 mínútum styttri en að fara Djúpið um Hólmavík, enda kílómetrarnir færri. Það munar því meira um vegabætur á Barðastrandarleiðinni, séu menn að hugsa um aksturstímann til Reykjavíkur. Með jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar væri búið að stytta leiðina til Reykjavíkur um klukkutíma til viðbótar. Er þá ónefnd önnur hugmynd sem furðu hljótt hefur verið um en full ástæða er til að ræða. Það eru jarðgöng úr Dynjandisvoginum yfir í Vatnsdalinn sem liggur að Vatnsfirði. Sú hugmynd á fullan rétt á sér, ekki síst í samanburði við fyrirhuguð jarðgöng um Almannaskarð, en þau göng stytta engar vegalengdir og núverandi vegur um Almannaskarð er umtalsvert lægri en vegurinn yfir Dynjandisheiði. Ef af þessu hvoru tveggja yrði myndi akstur til Reykjavíkur taka 4 - 5 klst. um Barðaströnd í stað 6 - 6,5 klst. um Ísafjarðardjúp, Steingrímsfjarðarheiði og Arnkötludal (á löglegum hraða). Tvenn jarðgöng eru þess vegna svarið við samgöngu vanda okkar Vestfirðinga – en ein væru þó skárri kostur en að láta sér nægja veg um Arnkötludal. Leiðin um Arnkötludal getur ekki komið í stað þeirra samgöngubóta sem felast í fyrrnefndri jarðgangagerð. Hún getur hinsvegar átt fullan rétt á sér sem viðauki við þær vegabætur sem felast í meginhugmynd samgönguráðherra.

Samstöðu er þörf

Með jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar væri tryggt að veginum milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar yrði haldið opnum yfir vetrartímann, til hagsbóta fyrir bæði byggðarlög. Foreldrum framhaldsskólanema í Vesturbyggð myndi vafalítið vaxa síður í augum að senda börn sín til náms á Ísafjörð ef þeir sæju fram á að geta fengið þau í helgarleyfi án mikils tilkostnaðar yfir vetrartímann, svo ég nefni nú bara eina röksemd sem blasir við mér. Eins og samgöngum milli þessara byggðarlaga er nú háttað má segja að Patreksfirðingar eigi greiðari samgöngur við Reykjavík en Ísafjörð, þó að bæði byggðarlögin eigi að heita í sama héraði.

Að lokum þetta: Við erum öll á sama báti – á einum kjálka – Ísfirðingar, Barðstrendingar og Strandamenn. Ef byggð á að haldast á Vestfjörðum verðum við Vestfirðingar að standa saman í baráttunni fyrir bættum lífsskilyrðum hér í fjórðungnum. Sýnum því samstöðu í þessu veigamikla hagsmunamáli. Við höfum ekki efni á því að veita neina afslætti að í þeirri hagsmunabaráttu.

– Ólína Þorvarðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi