Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

| 01.03.2000 | 10:14Skipuleg vinnubrögð

Ný og breytt vinnubrögð hafa verið tekin upp við undirbúning vegagerðar hér á landi á undanförnum árum. Gildandi vegáætlun og langtímaáætlun í vegagerð eru til dæmis unnar með allt öðrum hætti en tíðkaðist áður og fyrr. Segja má að jarðgangaáætlun sú sem nú hefur verið kynnt af samgönguráðherra sé því eðlilegt framhald þeirra efnistaka sem hafa gilt við stefnumótun í vegamálum frá árinu 1998.
Þess vegna er leiðarahöfundur BB á nokkrum villugötum í ritstjórnargrein sl. miðvikudag og sem gefur tilefni til nokkurrar umfjöllunar um þessi mál á vettvangi blaðsins.

Vegamálin tekin nýjum tökum

Enginn vafi er á því að mjög var orðið nauðsynlegt að taka mál öðrum tökum en tíðkast hafði, við stefnumótun í vegamálum. Nýir tímar kalla á breytt vinnubrögð. Vegáætlunin var orðið flókið plagg sem fáir nema innvígðir skildu almennilega. Almenn vegagerð, stórverkefni, sérstök verkefni osfrv. sem allt voru vegflokkar sem áttu sér eðlilegar ástæður þegar forsagan er skoðuð, en voru ekki orðin góður leiðarvísir inn í framtíðina í samgöngumálum. Fráleitt er hins vegar að einhver hending hafi ráðið ákvörðunum um vegagerð í landinu hér fyrr meir, eins og sagt er í leiðaranum.

Lýðræðislegt og faglegt

Það skipti hins vegar miklu máli, að undir forystu þáverandi samgönguráðherra, Halldórs Blöndal, var hafist handa um uppstokkun þessara mála, sem birtist síðan í tveimur þingskjölum, undir jól árið 1997. Langtímaáætlun í vegamálum til ársins 2010 og vegaáætlunin sjálf, til fimm ára voru að mínu mati tímamótaplögg, sem ásamt öðru, tryggðu mjög verulega fjármuni til vegagerðar á Vestfjörðum næsta áratuginn eða svo.

Í þessum áætlunum voru skilgreind tiltekin framkvæmdamarkmið á vegakerfinu. Verkefni sem féllu að þessum markmiðum, voru síðan viðfangsefni langtímaáætlunarinnar. Í samgöngunefnd Alþingis var tillagan útfærð nánar og einstök verkefni ákvörðuð að því búnu, að fengnum tillögum Vegagerðar og þingmanna einstakra kjördæma. Vinnubrögðin voru því í senn lýðræðisleg og fagleg, enda ríkir býsna mikil sátt um viðfangsefnin almennt í vegamálum í landinu.

Skýr markmið - mikill árangur á Vestfjörðum

Tvennt ber sérstaklega að nefna varðandi þessar áætlanir og þau markmið sem til grundvallar lágu: Í fyrsta lagi að lokið verði uppbyggingu hringvegar og vega af honum til þéttbýlisstaða með 200 íbúa og fleiri, með bundnu slitlagi á tímabili langtímaáætlunar. Í annan stað að tengja saman með uppbyggðum vegi nálæga byggðakjarna með fleiri en þúsund íbúa á hvorum stað, miðað við tiltekinn íbúafjölda og styttingu vegsambands. Þessar áætlanir voru samþykktar 2. júní árið 1998 og hefur verið unnið samkvæmt þeim síðan.

Þarna var í fyrsta skipti við það miðað að vegum aðliggjandi hringveginum var gert jafn hátt undir höfði og þjóðvegi númer eitt. Þar með var innsiglað að markmiðið væri að koma á bundnu slitlagi frá hringvegi annars vegar til Ísafjarðarsvæðisins og hins vegar til þéttbýlisins í Vestur Barðastrandarsýslu, á sama tíma og á hringveginn. Þetta var lykillinn að því að við munum fá um fimmtung alls fjármagns sem fer til stórverkefna í vegagerð í landinu á næsta áratug. Fyrir vikið erum við að upplifa gríðarlega verðmæta áfanga í vegagerð um allt kjördæmið, eins og sjá má og allir Vestfirðingar þekkja.

Jarðgangaáætlunin

Í fyrra var samþykkt á Alþingi að móta tillögur í jarðgangamálum. Undir forystu Sturlu Böðvarssonar núverandi samgönguráðherra hefur sú vinna farið fram og á dögunum voru tillögur Vegagerðarinnar í þessum málum lagðar fram. Í starfshópi Vegagerðarinnar sem vann tillögurnar var meðal annarra Gísli Eiríksson umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar hér á Vestfjörðum.

Þar er raðað í fyrsta áhersluflokk jarðgöngum á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, auk ganga á Norðurlandi og á Austfjörðum. Mikilvægt er að unnið sé að rannsóknum af krafti svo unnt sé að hefja framkvæmdir sem fyrst. Ljóst er að aðstæður til jarðgangagerðar á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar eru góðar. Ávinningurinn af slíkum göngum yrði augljós. Þau myndu, ásamt góðum nútímavegi um Dynjandisheiði, rjúfa vetrarhöftin á milli norður og suðurhluta Vestfjarða, stytta núverandi vegsamband um um 25 kílómetra og opna nýjar leiðir í fjölbreyttum samskiptum íbúa Vestfjarða sín í millum.

Það er því ástæða til þess að fagna þessu framtaki og binda vonir við að


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi