Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 16.10.2003 | 12:01Um makalaust lýðræði, völd – og máttarvöld

Eftir framsal atvinnuöryggis úr sjávarbyggðum þykir nauðsynlegt að tryggja í staðinn öryggi fólksins sem þar er eftir með því að spæna upp átthaga þess og hrúga upp snjóflóðavörnum yfir það. Það verður að teljast vel útfært tæknilegt rothögg að láta fólkið sem þar býr vinna verkið. Með því „skapast“ tímabundin atvinna fyrir þetta fólk áður en það leggst til öruggrar hvílu. Eftir standa gríðarlegir minnisvarðar „lýðræðisins“ upp um allar hlíðar. Undir þeim standa tóm hús í minningu þjóðfélagslegrar hagræðingar.
Manninum hefur verið gefin sú óþverralega árátta að vilja drottna yfir og stjórna öllu í kringum sig. Skemmdarverk á byggðunum og menningu þeirra eru leyfð og lögbundin í nafni „lýðræðisins“. Hinir fáu handhafar þess myndu reyna að gera jörðina flata ef þeir gætu. Sá fáranleiki yrði framkvæmdur í nafni hagvaxtar og atvinnusköpunar, sem engir aðrir en ídíótar mæltu gegn, en þá nafnbót langar víst engan að bera.

Svo virðist vera að ráðamenn gruni ekki, að þeir sem velja þá sitja allir í sama báti. Sá skrípaleikur í nútímalýðræði, sem kallast kosningabarátta, byggist oft á leikþáttum sálfræðinga hjá auglýsingafyrirtækjum. Þættina hafa frambjóðendur pantað til kynningar á hugsjónum sínum fyrir kjósendum. Ekki er endilega litið til hins einfalda raunveruleika í þessum þáttum heldur er markmiðið að fólki þyki gaman meðan það horfir á þá. Skoðanakannanir leiða í ljós hvaða auglýsingatækni hafi fallið fólki best í geð. Markaðsmenn stilla síðan vinsældalistanum upp samkvæmt því. Eftir margbirtingu þáttanna, sem eru steinkaðir af hótunum inn á milli, kjósum við vinsældalistann og hann sest á þing.

Þannig var til dæmis kosið í síðustu þingkosningum um smáþætti eins og skattatilfærslur, húsnæðishækkunarlán, gegnumgöng og línuvelvilja. Einhver töf verður á að efri hluti vinsældalistans virði forsendu setu sinnar á þingi. Hins vegar hefur engin töf orðið á brjálæðinu Kárahnjúkavirkjun, stærstu aðgerð sem íslenska lýðveldið hefur ráðist í, enda var ekki um hana kosið í lýðræðisleiknum. Eins er farið með aðrar töluvert þungvægar aðgerðir lýðveldisins sem ekki hafa fengið að koma fyrir dóm lýðsins. Nú fara skemmdarverkin eins og eldur í sinu um allt land.

Auk þess er landsbyggðin að lamast vegna atvinnustuldar sem veldur ringulreið, öryggisleysi og brottflutningi.

Við höfum fundið okkur náttúruperlur og byggt okkur þar ból. Síðan uppgötvum við að náttúran er ekki ljósmynd. Þá hefjum við baráttu gegn henni með verkfærum nýjustu tækni og vísinda sem innan skamms verða gömul en verður að nota meðan þau eru ný. Að snúa þeirri þróun á aðra braut mundi sjálfsagt valda hruni í efnahagskerfi þeirra sem það eiga.

En bjartsýni mín er óbilandi og þar með von um að öll sú eyðilegging og valdníðsla sem af manninum hefur leitt, fari fyrir tilverknað máttarvalda náttúrunnar lóðbeint til – betri vegar.

– Pétur Tryggvi, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi