Grein

Arnar Guðmundsson.
Arnar Guðmundsson.

Arnar Guðmundsson | 08.10.2003 | 14:23Vestfirðingar verði í forystu um „grænar“ sjávarafurðir

Ég er á þeirri skoðun að landsbyggðin verði að halda lífi – þá á ég við „lífi“ – því þannig er Ísland ríkara en ella. Lengi hafa ýmsir talað um ferðaþjónustu, oft fyrir daufum eyrum, en þó er nú svo komið að ferðaþjónustan er að skila það mörgum tugum milljarða í kassann að ljóst er þarna er um að ræða alvörumál. En hvað er ég að blanda landsbyggðinni inn í þetta?

Jú, það er nú þannig, að útlent ferðafólk ferðast í auknum mæli á eigin vegum, ýmist á eigin bíl og kemur með Norrænu til landsins eða þá á íslenskum bílaleigubílum. Spá fólks í ferðabransanum er á þá leið að þetta ferðamunstur eigi eftir að aukast verulega. Til þess að svo megi verða tel ég einsýnt að landsbyggðin verði að halda velli, bæði til að halda uppi þjónustu – en þjónustukrafan vex með ári hverju – sem og hinu að ferðafólk mun ekki koma hingað í vaxandi mæli til að skoða fyrrverandi byggðir, þ.e. eyðibyggðir.

Eflaust er margt hægt að gera til að treysta byggðir án þess að það komi frá stjórnvöldum, en til þess þarf grunnurinn að vera traustur. Grunnur dreifbýlisins er fiskurinn sem syndir undan ströndum landsins. Sú röskun á þeim grunni sem orðið hefur á undanförnum árum er ekki náttúrulögmál, heldur mannanna verk með tilstuðlan stjórnvalda, og því á hendi þeirra að laga þann ójöfnuð sem þeir svo sannarlega eiga aðild að.

Nú vilja eflaust margir að ég nefni af hverjum eigi nú að taka kvóta. Ég hef svo sem ekki svör á reiðum höndum um það, enda aldrei spurður í neitt af þeim skiptum sem slíkt hefur átt sér stað, en það er einmitt það sem gerst hefur og skaðað landsbyggðina jafnmikið og raun ber vitni. Oft hafa slíkir gjörningar verið fullkominn óþverraháttur og jafnvel á mörkum þess að vera löglegir, en alveg örugglega ekki siðlegir.

En hvað er til ráða, er til einhver annar vinkill til á útvegsmál en verið hefur?

Forstjóri Samherja sagði fyrir ekki löngu síðan í umræðu um „Kínafisk“ eitthvað í þá veru, að Íslendingar ættu ekki að eyða púðri í að þjarka um hver veiddi fiskinn, heldur hvort við gætum selt hann. Annar forstjóri stórútgerðar hafði á orði, að aðeins ein leið væri til að keppa við Kínverjana, en hún væri sú að markaðssetja íslenskan fisk sem lúxusvöru, merkjavöru. Það er eflaust rétt og vonandi fara þeir þá að vinna í því.

Sjálfur hef ég lengi verið á þeirri skoðun að skapa þurfi nýja ásýnd fyrir íslenskar fiskafurðir. Í öllu atinu um Kárahnúkavirkjun fullyrtu íslenskir umhverfisverndarsinnar, að hægt væri að skapa jafnmörg atvinnutækifæri á Austfjörðum með umhverfisvænum hætti og þau sem skapast við væntanlegt álver þar austur frá. En álverið verður byggt, svo umhverfisverndarsinnar sitja því væntanlega með hendur í skauti um þessar mundir.

Því sé ég fyrir mér sem spennandi hugmynd, að vestfirskir útvegsmenn og vinnslur, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og íslensk umhverfissamtök í samvinnu við erlend, taki saman höndum um að markaðssetja vestfirskan fisk sem umhverfisvæna afurð. Í því tilliti horfi ég þá helst til veiðiaðferða sem gætu gefið afurðinni „grænan“ stimpil. Þær veiðiaðferðir væru væntanlega helst með kyrrstæðum veiðarfærum.

Þótt eðlilega séu skiptar skoðanir á hvaða veiðiaðferðir skaði lífríki sjávarbotnsins, þá er almenn skoðun sú að kyrrstæð veiðitæki skaði hann ekki, séu sem sagt „græn veiðiaðferð“. Í öðru lagi brenna skip og bátar með kyrrstæðum veiðarfærum minni olíu og telst það því vistvænna, auk þess sem það er „ríkiskassavænna“ þar sem olían sem flotinn brennir er innflutningsvara. Í þriðja lagi myndi útgerð með „græn“ veiðarfæri vera strandveiðifloti sem færði aflann í land til vinnslu sem notar rafmagn frá innlendri umhverfisvænni orkuframleiðslu. Slíkt myndi minnka loftmengun samanborið við „olíukyntu frystihúsin“ sem fljóta kringum landið, og vera að sjálfsögðu einnig „ríkiskassavænna“. Í fjórða lagi fer fiskur sem kemur óunninn í land allur í vinnslu, þ.e. það eru búin til verðmæti úr hverri tutlu, enda er hráefni sem unnið er í landi vigtað áður en það fer inn í vinnsluna. Það hlýtur því að teljast nokkuð „grænt“ að nýta til fullnustu hráefni úr takmarkaðri auðlind og enn og aftur „ríkiskassavænna“.

Mér sýnist því þetta verkefni ekki bara spennandi, heldur líka nauðsynlegt og löngu tímabært.

Af hverju nauðsynlegt? Jú, vegna þess að umhverfissamtök á heimsvísu eru alltaf að störfum. Ég er sannfærður um að sá tími kemur, að þau munu berjast gegn hinum stórvirku togskipum, nema helst á djúpmiðum. Því er ég sannfærður um við Íslendingar, með Vestfirðinga í fararbroddi, eigum að taka slaginn og hella okkur í þetta verðuga verkefni. Við eigum að vera stefnumótandi í stað þess að eiga það á hættu að fá tilkynningu erlendis frá, þess efnis að ekki verði keyptur af okkur fiskur nema hann hafi einhvers konar „grænan“ stimpil.

Íslendingum er eflaust enn í fersku minni að hvalveiðibann var ekki ákveðið af íslenskum hagsmunaaðilum, heldur kom það erlendis frá. Þess vegna væri hollt fyrir okkur, á alla mælikvarða séð, að hefja þessa þróun, leiða og marka á þann veg, að hún verði þjóðhagslega væn í sem víðustum skilningi, svo að íslenskur sjávarútvegur endi ekki í „hvalslíki“.

– Arnar Guðmundsson.

Höfundur er Bílddælingur, búsettur í Reykjavík og starfar þar sem prentsmiður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi