Grein

Magnús Ólafs Hansson.
Magnús Ólafs Hansson.

| 02.03.2001 | 08:24Hugsunarleysi eða ögrun?

Það er með ólíkindum hvað mannskepnan getur verið einkennileg gagnvart sjálfri sér og öðrum þegar viðkomandi þarf að láta á sér bera. Nú ekki alls fyrir löngu lenti maður í hrakningum á Eyrarfjalli inni í Djúpi, þar sem hann hafði fest bifreið sína. Mun hann hafa verið úr Bolungarvík. Hans nánustu höfðu samband við björgunarsveitarmenn í Bolungarvík sem höfðu samband við lögregluna á Ísafirði sem þá strax hafði samband við björgunarsveitina á Hólmavík sem fann þennan mann og kom honum til hjálpar þar sem hann hafði fest bifreið sína. Hann hafði sem sagt ekki getað látið sína nánustu vita af sér þarna á hálsinum. Greinilegum lokunum Vegagerðarinnar, sem þessi einstaklingur hunsaði, hafði verið komið upp beggja vegna Eyrarfjalls.
Ekki var raunasaga þessa manns búin þarna. Eftir að búið var að koma honum af hálsinum liggur leið hans áleiðs „heim“. Leiðindaveður var á, og var reyndar komið miklu fyrr eða áður en hann fór frá Hólmavík áleiðis vestur.

Þessi seinheppni maður kemst til Ísafjarðar og þaðan til Hnífsdals, en þá – já þá hafði „helvítis löggan“ tekið það upp hjá sjálfri sér að loka Óshlíðinni. Hvað var eiginlega í gangi? Getum við aldrei fengið frið fyrir „helvítis löggunni“?

En hann fór samt út Óshlíð og komst inn í einn af vegskálum á Hlíðinni þar sem hann komst ekki lengra vegna mikillar ofankomu og snjóflóða. Enn og aftur varð að kalla til hjálparlið þessum vesalings manni til bjargar.

Við hljótum að leiða hugann að því, sem störfum í björgunarsveitum hringinn í kringum landið, hvað svona einstaklingum gengur til. Í fyrsta lagi gagnvart sínum nánustu og síðan björgunarsveitafólki, svo ég nefni nú ekki „helvítis lögguna“.

Björgunarsveitarmenn lögðu mikinn tíma, fyrirhöfn og peninga í þetta „litla útkall“ bæði frá Hólmavík, Ísafirði og Bolungarvík. Hvað skyldi þetta hafa kostað?

Björgunarsveitarmenn fóru af stað við afar erfiðar aðstæður frá Hólmavík, gátu komið til hjálpar og var það vel. Við segjum það mjög gjarna, björgunarsveitafólk, að lífgjöf, eða bara smáaðstoð, þ.e. ef allir komast heilir heim, séu næg laun erfiðisins. En það er alls ekki allt. Það eru nefnilega fleiri sem bíða milli vonar og ótta í brjáluðum veðrum eftir að ástvinirnir komi heim.

Þeir hinir sömu sem ákveða upp á sitt eindæmi að vaða út í vitlaus veður, sbr. þessi margumræddi maður, eru ekki bara að storka máttarvöldunum, heldur eru þeir í mörgum tilfellum að stuðla að því að stofna björgunarfólki í lífshættu.

Varðandi Óshlíðina vil ég geta þess, að undirritaður fór við annan mann inn á Óshlíð fyrir nokkrum árum frá björgunarsveitinni Erni í Bolungarvík að beiðni lögreglu, til að athuga með einstaklinga sem áttu að vera einhvers staðar á Hlíðinni í vitlausu veðri, þar sem þeir höfðu ekki látið af sér vita. Við fórum á vélsleðum inn Hlíð og fundum þessa einstaklinga inni í einum af vegskálunum þar. Í venjulegri færð hefði ferðin ekki tekið nema u.þ.b. 15 mínútur en hún tók hins vegar fjóra tíma. Lögreglan í Bolungarvík hafði þá nokkru áður verið búin að loka Óshlíðinni með viðeigandi merkingum.

Vegagerðin ákveður að öllu jöfnu hvenær snjómokstri og hreinsunum skuli hætt, ásamt lokunum á vegum, en lögreglan sér um framkvæmdina.

Ég tek heils hugar undir það sem Önundur Jónsson yfirlögregluþjónn á Ísafirði sagði í viðtali í fjölmiðlum fyrir nokkru, að menn verði að „virða þær leikreglur sem Óshlíðin setur hverju sinni“.

Það er nú einu sinni svo, að lögreglan á að gæta hagsmuna og öryggis borgaranna og vinna með þeim en ekki á móti. Þess vegna lokaði lögreglan á Ísafirði Óshlíðinni á dögunum að beiðni Vegagerðarinnar.

Ég mæli með því, að þeim sem ekki virða leikreglur Óshlíðarinnar og lokanir á vegum almennt, verði einfaldlega refsað, t.d. með sektum.

Magnús Ólafs Hansson,
Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi