Grein

Karl Jónsson, framkvæmdastjóri HSV.
Karl Jónsson, framkvæmdastjóri HSV.

Karl Jónsson | 05.06.2003 | 13:28Unglingalandsmótið – starfsfólk óskast!

Eins og flestir vita stendur undirbúningur fyrir Unglingalandsmótið nú sem hæst. Búið er að ganga frá fjármögnun og styrktarsamningum og hafa nokkur fyrirtæki ákveðið að koma að mótinu á glæsilegan hátt, bæði á landsvísu og heima í héraði. Bæjarbúar hafa séð undanfarið miklar framkvæmdir við íþróttavelli bæjarins en þar er verið að leggja lokahönd á undirlagsvinnu vegna tilvonandi gervigrasvallar sem rísa mun þar sem malarvöllurinn var. Vinna er hafin við snyrtingu áhorfendabrekkunnar og senn munu framkvæmdir hefjast við frjálsíþróttaaðstöðu sem byggð verður upp samkvæmt nútímakröfum.
En það er ekki nóg að bjóða hér upp á góðar aðstæður til íþróttaiðkunar. Við þurfum einnig á heilmiklum mannskap að halda við hin ýmsu störf meðan á mótinu stendur. Aðstoðarmenn við keppnisgreinar, gæslu og ýmsa aðra hluti svo allt geti gengið fyrir sig á eðlilegan hátt.

Ef þið hafið áhuga á að koma að mótinu á þennan hátt, að skrá ykkur til leiks sem sjálfboðaliða, vil ég benda ykkur á að hafa samband við skrifstofu HSV í Snerpuhúsinu Mánagötu 6 í síma 456 5434 eða rafrænt í gegn um netfangið hsv@hsv.is. Þið getið líka farið inn á heimasíðu mótsins www.ulm.is fundið þar upplýsingar um íþróttagreinastjórana og haft samband beint við þá ef þið viljið starfa við einhverja ákveðna íþróttagrein.

Það væri gaman að sjá félagasamtök í bænum koma að mótinu á þennan hátt, ef Lionsklúbburinn tæki t.d. að sér að manna glímukeppnina, JC kæmi að skákinni, Kiwanis að sundinu og svo framvegis, svo eitthvað sé nefnt svona til gamans.

En málið er að við þurfum á fjölda sjálfboðaliða að halda til að framkvæmd þessa glæsilega móts verði okkur til sóma. Það er mín trú að hverjir þeir sem koma að mótinu geti haft hina mestu skemmtan af því að starfa við það og leggi í leiðinni íþróttahreyfingunni lið við að gera þetta mót að ógleymanlegum viðburði.

– Karl Jónsson,
framkvæmdastjóri HSV.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi