Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi | 30.05.2003 | 08:20Um steininn – og að berja hausnum við hann

Þessar línur eru ritaðar vegna fyrirhugaðs snjóflóðavarnargarðs við Seljaland á Ísafirði. Það er leitt til þess að vita að stórmál, sem ofangreint vanvirki er, skuli vera á barmi veruleikans. Þó svo að þetta glórulausa verk verði að teljast tímabundið atvinnuskapandi fyrir byggðarlagið, þá vinsamlegast, fáið ykkur sæti, og jafnvel í pípu, og íhugið hvort atvinnusköpun í þessum landshluta eigi að byggja á Skemmdarverkum Ríkisins.
Vandamálið gæti átt upptök sín uppi í fjallinu en ekki niðri við Seljaland.

Vandamálið er einfaldlega það, að í bröttum hlíðum getur snjór safnast saman í gríðarlegan massa, ekkert síður ofan byggðar en annars staðar. Þegar snjómassinn hefur náð þeim þunga að hann ber ekki eigin vigt, lætur hann undan sjálfum sér – og?

Okkur vantar ekki dæmi um að vandamálum er oft mætt öfugu megin frá, með því að plástra og að setja undir leka.

Það er hægt að koma í veg fyrir að snjómassinn nái því marki að hann beri ekki eigin þunga. Það er ennþá sannfæring mín að önnur lausn sé á vandamálinu en að byggja fyrirhugaðan varnargarð.

Ein af lausnunum gæti verið sú, að komið yrði fyrir einföldum búnaði á þeim stöðum sem hættan er talin geta myndast, án mikils tilkostnaðar eða nokkurra skemmdarverka. Búnaði sem komi snjónum af stað, eða hleypir honum niður í litlu magni í einu (spýjum), áður en ógn stafar af undanláti yfirþyrmandi snjósöfnunar. Slíkur búnaður er að sjálfsögðu virkur hvernig sem viðrar. Það er sorglegt að fræðimenn komi ekki auga á aðra lausn en skemmdarverk.

Sagt er að sú afturbatalausn sem varnargarðurinn er, sé í höfn, ákvörðunin er tekin. Mann-Virkið verður reist, og ekki hægt að skipta þeirri ákvörðun út með víðsýnni og raunverulegri lausn vandamálsins. Allar athugasemdir hér um eru að berja hausnum við steininn. Við þann stein er verðugt hverjum hugsandi manni að berja hausnum, hvor svo sem gefur sig.

Vænta má að hér á Ísafirði fari fram miklar umræður og skoðanaskipti þegar eyðileggingin hefur átt sér stað. Það er svo miklu þægilegra að tala um og hafa skoðun, þegar það skiptir engu máli.

– Pétur Tryggvi, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi