Grein

Magni Guðmundsson.
Magni Guðmundsson.

Magni Guðmundsson | 28.05.2003 | 10:26Veglegt grafhýsi sægreifa?

Nú fer að líða að lokaversinu í byggingu snjóflóðavarnargarðsins í Seljalandsmúla hér á Ísafirði. Framkvæmdir hafa verið boðnar út og tilboð verið opnuð. Ég hef það á tilfinningunni að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir hvar garðurinn kemur í landið, né hvar hann byrjar eða endar. Ég efast einnig um að bæjarbúar almennt geri sér grein fyrir hvílíkt ofboðslegt jarðrask mun fylgja þessum framkvæmdum, sem ekkert okkar á auðvelt með að sjá tilgang í.
Allur norðurhluti Múlans frá því rétt neðan við Skíðaskálann verður rifinn upp niður að brúnni á Skíðaveginum auk stórkostlegrar tilfærslu á jarðvegi, því þar verður allt efnið í garðinn tekið. Neðan vegarins verður einnig farið í báðar áttir við garðinn, tugi og á stórum hluta yfir hundrað metra. Ofan við Skíðaveg utan Seljalandsár verða reistar níu keilur til þess að taka mesta „áfallið“ af garðinum.

Allt er þetta algróið land með berjalyngi og trjárækt sem hefur tekið vel við sér á síðustu árum og mun taka áratugi að koma í líkt horf, gróðurfarslega séð. Það er ekki sama landið þótt búið sé að strá yfir það grasfræi og stinga niður lúpínum og komin á það græn og blá slikja, að ég nefni ekki gjörbreytt landslag. Hvar skyldu náttúruverndarsamtökin hafa verið? Ætli þau hafi verið svo upptekin af eyðisöndum og jöklum annars staðar að þessu hafi bara verið skrúbbað út af borðinu og í ruslafötuna, hafi það einhvern tíma komist svo langt?

Sérfræðingarnir leyfðu víst náðarsamlegast styttingu á garðinum um nokkra metra, þannig að ekki þarf að rífa Seljalandsbæinn, allavega ekki alveg strax. En ekki var hægt að sleppa beygjunni á garðinum neðan við Skíðaveginn eða færa garðinn nokkra metra út eftir svo hann væri varinn líka. Hættan er víst svo mikil á ca. 3.000 ára fresti að þá hefði víst þurft að hækka garðinn um einhver ósköp, skilst mér, þrátt fyrir að Seljalandsbærinn sé búinn að standa á sama stað svo öruggt sé í að minnsta kosti 800 ár.

Og hvernig skyldi standa á að allar þessar framkvæmdir og rót er gert á þessum stað af þeim einna ólíklegustu hér við Skutulsfjörð? Ekki treysti ég mér til að skýra það. En ekki er annað að sjá en að snjóflóðin sem féllu í Súðavík og á Flateyri 1995 og aðstæður á þeim stöðum hafi verið færðar beint yfir á flesta þá staði á landinu sem hættumat hefur verðið unnið fyrir á undanförnum árum. Það er gert þrátt fyrir að á þeim tíma féll ekkert snjóflóð ofan þess svæðis sem garðurinn í Seljalandsmúla á að verja niður fyrir Skíðaveg.

Það virðist bara vera einblínt á eitthvert reiknilíkan af því sem gæti kannski skeð á þúsunda ára fresti. Þarna virðist sagan síðustu 800 ár alveg verða útundan.

Það er mjög alvarlegt hvað bæjaryfirvöld hafa lítið að segja í svona málum. Eftir því sem mér skilst hefur ekkert verið farið að tillögum þeirra eða hlustað á mat staðkunnugra. Allt er nú komið í lög frá Alþingi, til stofnana sem setja reglugerðir, sem sérfræðingar túlka síðan og móta sínar tillögur og gæta þess að allt sem að þeim snýr sé alveg örugglega á hreinu.

Þeir sem vinna hættumatið eru áreiðanlega ekki öfundsverðir af þeirri vinnu. En það er mín skoðun að þeirra aðalregla hafi verið: Sem lengst frá hlíðinni, og ef ekki, þá sem hæsta og lengsta garðana, þá erum við öruggir um að hafa ekki gert neina vitleysu.

Það er ég alveg sannfærður um, að enginn núlifandi Íslendingur mun nokkurn tímann sjá að þessi gríðarlega röskun og upprót muni hafa nokkurn tilgang. Á næstu öldum munu afkomendur okkar trúlega halda að þarna hafi einhver sægreifi látið byggja yfir sig og sína veglegt grafhýsi.

– Magni Guðmundsson, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi