Grein

Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.
Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.

Birna Lárusdóttir | 08.05.2003 | 16:36Af hverju Sjálfstæðisflokkurinn?

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna eru keimlíkar í mörgum málum og hljóma vel af vörum margra ágætis frambjóðenda. Markmið allra er aukin velferð fyrir sem flesta. En ef þetta er nú að miklu leyti sami grautur í sömu skál, og erfitt að gera upp á milli málefnanna, eftir hverju fer maður þá í kosningunum á laugardaginn? Jú, þetta snýst fyrst og síðast um aðferðafræði við stjórn mála. Hvaða grundvallarlögmál stjórnunar virka best fyrir flesta?
Það eru aðallega tvær tegundir aðferða sem við höfum reynslu af og hafa þær verið kenndar við hægri og vinstri stefnur. Segja má að seinasta öld hafi að stórum hluta farið í að prufukeyra þessar aðferðir hlið við hlið og niðurstöðurnar tala sínu máli. Hagstjórnaraðferðir hægri stefnunnar hafa í megindráttum gengið upp á meðan hagstjórn undir merkjum vinstri stefnunnar hefur oftar en ekki leitt til niðursveiflu í efnahagslífinu með tilheyrandi óstöðugleika og óðaverðbólgu.

Í hverju felst þá sú aðferðafræði sem gefist hefur betur? Hún gengur út á að einstaklingurinn hafi frelsi til athafna og sem flesta valmöguleika sem hann síðan stendur og fellur með. Það er hvatinn til að vinna mikið og vel, sem leiðir til verðmætasköpunar, sem er nauðsynleg til þess að geta haldið uppi þeirri miklu velferð og jöfnuði sem við öll gerum kröfur um og mælt er fyrir í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þarna skilur á milli Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka sem ennþá boða gamlar vinstri aðferðir í ýmsum myndum við að fóðra velferðarkerfið.

Það eru því öfugmæli að kalla vinstri flokka velferðarflokka. Miðstýringarstefna þeirra og forsjárhyggja dregur allan mátt úr gangverki athafnanna – okkur sjálfum. Þar með dregur úr verðmætasköpuninni og svigrúmið minnkar til framfara í velferðarmálum.

Í mínum huga snýst valið á laugardaginn um aðferðafræði. Hvaða aðferð er heppilegust til að tryggja að Ísland haldi velli og eflist sem velferðarþjóð? Hana verður ekki að finna í vinstra vori því þá er ég hrædd um að það hausti mjög snemma í íslensku efnahagslífi og þá um leið í velferðarkerfinu. Hún felst hvorki í hentistefnu né „á móti öllu“-stefnu. Og ekki leynist hún í einsmálsflokkum – svo mikið er víst.

Það má margt finna athugavert við gjörðir Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina – enginn flokkur er yfir gagnrýni hafinn. En aðferðafræðin sem felst í grundvallarhugsjón Sjálfstæðisflokksins hefur sannað gildi sitt og á henni byggjum við áfram Ísland.

– Birna Lárusdóttir,
skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi