Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 02.05.2003 | 14:26Litlu verður Vöggur feginn – lokasvar til Kristins H. Gunnarssonar

Lokasvar þitt sýnir mér að þú skilur ekki aðalatriði frá aukaatriðum, eða kýst að skilja ekki þar á milli. Auðvitað viðurkenni ég að tölurnar eru réttar. Ég fer ekki að rífast um tölur og skammast mín ekki fyrir að viðurkenna staðreyndir. En uppstaðan í mínum skrifum voru reyndar ekki tölurnar heldur hvernig þessum málum væri háttað í dag. Það er í mínum huga aðalatriðið.
Minn ágæti Kristinn, eitt er að vilja og annað að framkvæma, það sést vel í máli þeirra Byrgismanna. Ég vil vinna að því að breyta áherslum. Það nægir mér ekki að tölur á blaði séu í samræmi við kosningaloforð, þó að það sé út af fyrir sig gott, ef árangurinn er ekki ásættanlegur.

Upp úr stendur að málaflokkurinn fíkniefnaneysla og meðferðarúrræði er ekki í nógu góðum farvegi. Ég veit hvar brennur á og hvað þarf að laga. Þakka þér fyrir að kíkja á málefnaskrá okkar. Vona að þú hafir ekki lesið hana alla með sömu gleraugum og sjávarútvegsstefnu flokksins. Ég verð að segja það, að það hugnast mér vel ef sú staða kemur upp að vinna með mínum félögum í Frjálslynda flokknum að málefnum fíkniefnaneytenda. Ég veit að þar verður hlustað á mig.

Reyndar vona ég að með þessum orðahnippingum okkar hafi verið vakin athygli á vandamálum fíkniefnaneytenda og þeirra sem vinna að því að hjálpa þeim. Ef það er reyndin, þá má segja að hálfnað verk þá hafið er.

Með kveðju.

– Ásthildur Cesil.


Sjá fyrri greinar í þessari rökræðu:

bb.is 30.04.2003
Kristinn H. Gunnarsson: Lokasvar til Ásthildar Cesil Þórðardóttur: Framsókn til framfara

bb.is 26.04.2003
Ásthildur Cesil Þórðardóttir: Betur má ef duga skal

bb.is 22.04.2003
Kristinn H. Gunnarsson: Staðið við fyrirheitin

bb.is 19.04.2003
Ásthildur Cesil Þórðardóttir: Ég vil kalla þetta þrautagöngu

bb.is 16.04.2003
Kristinn H. Gunnarsson: Við erum á réttri leið

bb.is 13.04.2003
Ásthildur Cesil Þórðardóttir: Á hvaða leið erum við til hjálpar þeim sem minnst mega sín?


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi