Grein

Víðir Jónsson skipstjóri.
Víðir Jónsson skipstjóri.

Víðir Jónsson skipstjóri | 16.04.2003 | 10:12Fiskað í kálgörðum?

Mér hefur lengi leiðst sú umræða sem verið hefur um meintar skaðræðisveiðar togara á grunnslóð. Menn, sem margir hverjir vita betur, hafa haldið því blákalt fram að togarar og þá sér í lagi frystitogarar séu stóran hluta ársins uppi við landsteina, innan við trillur og aðra smábáta á miðum sem aðeins smærri skip eigi möguleika á að stunda veiðar á. Þetta kalla menn að togararnir séu komnir upp í kálgarða til að fiska.
Togaramönnum er, samkvæmt þessu, ekkert heilagt og þeir veigra sér ekki við að ryðjast inn á grunnslóðina og rýra þar með möguleika smábáta til að afla sér viðurværis. Flestir þessara manna eru því fylgjandi að togurum verði vísað út fyrir ákveðinn mörk íslenska landgrunnsins og heyrast gjarnan nefndar 30 til 50 mílur í því sambandi. Jafnvel heyrist að frystitogarar eigi ekkert erindi í íslenska landhelgi og eigi því aðeins að stunda úthafsveiðar. Nú síðast heyrði ég í gömlum kunningja mínum, Guðna Einarssyni á Suðureyri, halda einhverju þessu líkt fram í Sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum.

Sjálfur hef ég verið sjómaður alla mína starfsævi og mestan þann tíma togaraskipstjóri og veit að svona er málum ekki háttað. Undanfarin 5 ár hef ég verið skipstjóri á frystitogaranum Kleifaberg ÓF-2 frá Ólafsfirði, togara með ágætar aflaheimildir í nær öllum botnfisktegundum. Á árinu 2002 fiskaðist á skipið rúm 6.000 tonn og þar af u.þ.b. helmingurinn, karfi og grálúða, á djúpmiðum. Annar afli, þorskur og ufsi, er að mestu tekinn í útköntum landgrunnsins, bæði vestan, austan og sunnan við land, á miðum sem smærri bátar sækja ekki á sökum þess hvað þau liggja langt frá landi. Ýsuna veiðum við nær landi út af Vestfjörðum og SV-landinu enda er hún sú fisktegund sem næst landi veiðist og skiptir þá engu í hvaða veiðarfæri hún er tekin.

Ég get fullyrt að útgerð annarra togara er með svipuðum hætti og hjá Kleifaberginu. Því er augljóst að við sækjum ekki mikið á grunnslóðina að öllu jöfnu, þó auðvitað komi þeir tímar að við sækjum fisk upp undir 12 mílurnar, líkt og í Nesdýpi fyrri part sumars. Enda er þá verið að leita að góðum fiski sem hentar vel til vinnslu jafnt í landi sem um borð í togurum.

Það sem mér leiðist mest í umræðunni um smábátasjómenn og togarasjómenn, er að okkur er oft stillt upp sem andstæðingum sem vilji hvor öðrum ekkert gott. Þannig sé ég ekki hlutina og þannig eru þeir ekki. Þó svo að við, rétt eins og aðrir landsmenn, höfum skiptar skoðanir á því hvernig best sé að stjórna fiskveiðunum, þá megum við ekki láta egna okkur þannig saman að við völdum hverjir öðrum skaða. Við erum allir í sama bransanum, að veiða fisk og afla okkur tekna. Við búum allir við miklar takmarkanir varðandi veiðarnar, jafnt í úthlutuðum kvóta sem öllum finnst of lítill fyrir sig og sína, sem og í úthlutuðum dögum er þeir sem við það búa vilja hafa fleiri. Sjómenn á frystitogurum sækja sjó á nákvæmlega sömu forsendum og þeir sem róa á smærri bátum; að afla sér lífsviðurværis í því sem þeir eru góðir í, með þeim takmörkunum sem okkur öllum eru settar.

Við erum því ekki andstæðingar að neinu leyti, heldur samherjar og eigum fulla samleið að því markmiði að efla og tryggja öfluga sjósókn allt í kringum landið. Við skulum því haga okkur með þeim hætti og koma fram af virðingu hver við annan í stað þess að vera með sífelldar dylgjur og fullyrðingar um annað.

– Víðir Jónsson,
skipstjóri á Kleifabergi ÓF-2.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi