Grein

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson

Gunnar Bragi Sveinsson | 14.10.2016 | 08:33Vestfirðir eru í sókn


Undanfarið hef ég verið bjartsýnn fyrir framtíð Vestfjarða. Helstu ástæður þessarar bjartsýni eru nokkrar, stórbæting er að verða á grunninnviðum svo sem í samgöngum, fjarskiptum og raforkuöryggi og atvinnuástandið fer batnandi. Þessu til vitnis er verið að samþykkja samgönguáætlun sem felur í sér Dýrafjarðargöng, fjármagn til rannsókna á Álftafjarðargöngum og vegagerð á Dynjandisheiði, Teigskógi, Veiðileysuhálsi og Seyðisfjarðarvegi svo eitthvað sé nefnt. Í þar síðustu viku undirritaði iðnaðarráðherra reglugerð sem gerir Landsneti kleift að setja niður afhendingarstað á raforku í Ísafjarðardjúpi fyrir m.a. Hvalá og Austurgilsvirkjun sem er fyrsti áfangi í hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum. Í sumar hefur svo verið unnið að leggja ljósleiðara í Ísafjarðardjúpi sem vitnar um átak stjórnvalda um að ljósleiðaravæða Ísland. Allar þessar aðgerðir miða að því að styrkja undirstöður samfélagsins á Vestfjörðum.

En betur má ef duga skal. Í vor skipaði forsætisráðherra nefnd sem vinna átti aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði til þess að koma sjónarmiðum heimamanna að í áætlunargerð hins opinbera. Nefndin var leidd af forsætisráðuneytinu en hana skipuðu fjölbreyttur hópur heimamanna ásamt fulltrúum frá Fjórðungssambandi Vestfjarða. Nefndarmenn unnu mjög gott starf á stuttum tíma og hafa dregið fram hvað brennur helst á heimamönnum eftir samtöl við atvinnulífið, sveitarfélögin og íbúa. Skýrslan var afgreidd úr ríkisstjórn þann 20. sept og eru tillögurnar tvískiptar, annars vegar minni verkefni sem geta komið til framkvæmda hratt og hins vegar stærri innviðaverkefni sem ráðuneytunum ber að taka tillit til í sinni áætlunargerð.

Nú er það okkar ráðherra og stjórnvalda að hlusta á vilja heimamanna og taka þessar tillögur til framkvæmda. Þær tillögur sem snúa að mér eru komnar í farveg eða bíða afgreiðslu ríkisstjórnar en þar má nefna samfélagsmiðstöð á Þingeyri, enn frekari niðurgreiðslu á flutningskostnaði fyrirtækja og miðstöð fiskeldis á Vestfjörðum.

Sem ráðherra byggðamála þá höfum við í mínu ráðuneyti verið að velta við mörgum steinum í því augnamiði að finna leiðir til að bæta upp aðstöðumun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Í kjölfarið á því fól ég Byggðastofnun að útfæra tillögur um skattalegar ívilnanir í byggðalegum tilgangi. Slíkar aðgerðir hafa reynst vel í nágrannalöndum okkar - og þá sérstaklega í Noregi. Við erum meðal annars að horfa til lækkunar á tryggingargjaldi því lengra sem dregur frá höfuðborginni, lækkun á ferðakostnaði fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu langar leiðir og afslátt á námslánum á veikum svæðum. Það var sérstaklega ánægjulegt í framhaldi af því að sjá tillögu Vestfjarðarnefndarinnar sem fjallaði um að Vestfirðir yrðu tilraunastaður fyrir slíkar tillögur og er ég mjög áfram um að svo verði.

Ég ítreka að róttækar byggðaaðgerðir líkt og skattaívilnanir eru engin ölmusa heldur réttlætismál - að rétt sé gefið. Öflug byggðastefna er tækifæri fyrir íslenskt samfélag til að auka verðmætasköpun og framfarir. Það er út frá þessum punkti sem ég vil taka umræðuna um byggðamál. Öflug landsbyggð gefur höfuðborginni þrótt. Og að sama skapi er kraftmikið höfuðborgarsvæði landsbyggðinni mikilvægt til frekari sóknar. Hvorugt getur án hins verið!

Að öllu framantöldu er hægt að segja að tækifærin blasi við og verkfærin eru til staðar. Kraftmikil sókn er hafin á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðamálaráðherra og oddviti Framsóknar í NV kjördæmi

Greinin birtist 38. tölublaði Bæjarins besta, hér lítillega breytt.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi